Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 18. október 2018

09/2018

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2018, fimmtudaginn 18. október var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Davíð Freyr Jónsson (varamaður fyrir Siv Friðleifsdóttur), Guðrún Geirsdóttir, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Helga Lind Mar (varamaður fyrir Benedikt Traustason), Ragna Árnadóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sigrún Ólafsdóttir (varamaður fyrir Ingibjörgu Gunnarsdóttur) og Ólafur Pétur Pálsson. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð og Þórður Kristinsson. Valdimar Víðisson boðaði forföll og varamaður hans einnig.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og lýsti Ásthildur Margrét Otharsdóttir sig vanhæfa til að taka þátt í afgreiðslu liðar 7c. Rektor og Helga Lind Mar óskuðu eftir því að liður 7g undir „bókfærðum málum“ yrði ræddur og Guðrún Geirsdóttir óskaði eftir að liður 7a yrði ræddur. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ að öðru leyti og skoðast hann því samþykktur.

Sigrún Ólafsdóttir kom inn á fundinn eftir afgreiðslu liðarins „bókfærð mál“.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
a)    Um markmið um fjármögnun miðað við meðaltal OECD-ríkjanna.

Inn á fundinn kom Daði Már Kristófersson, prófessor í hagfræði og forseti Félagsvísindasviðs og fór ítarlega yfir forsendur útreikninga og fjármögnun íslenskra háskóla almennt og Háskóla Íslands sérstaklega, í samanburði við fjármögnun háskóla í öðrum OECD-ríkjum. Málið var rætt og svaraði Daði Már spurningum ráðsmanna. Fram kom að enn vantar mikið upp á að fjármögnun íslenskra háskóla nái meðaltali OECD-ríkjanna.

Daði Már vék af fundi.

3.    Stefna Háskóla Íslands um gæði náms og kennslu. Drög.
Inn á fundinn komu Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslumála og þróunar og Róbert H. Haraldsson, sviðsstjóri kennslusviðs og gerðu grein fyrir drögum að nýrri stefnu Háskóla Íslands um gæði náms og kennslu, sbr. HÍ21, heildarstefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2016-2021. Málið var rætt og svöruðu þau Steinunn og Róbert spurningum fulltrúa í háskólaráði. Fram kom að kennslustefnan hefur verið kynnt fyrir stjórnum allra fræðasviða og víðar í háskólasamfélaginu. Málið verður til afgreiðslu á næsta fundi háskólaráðs.

Steinunn og Róbert viku af fundi.

4.    Jafnlaunastefna og jafnlaunavottun. Staða mála.
Inn á fundinn komu Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda og Guðrún Margrét Eysteinsdóttir, lögfræðingur á starfsmannasviði. Fyrir fundinum lágu drög að jafnlaunastefnu Háskóla Íslands og fór Guðbjörg Linda yfir hana og gerði grein fyrir stöðu mála varðandi innleiðingu jafnlaunastaðals við Háskóla Íslands. Málið var rætt.
– Launa- og jafnlaunastefna Háskóla Íslands samþykkt einróma.

Guðrún Margrét vék af fundi.

5.    Endurskoðun matskerfis opinberra háskóla, niðurstöður könnunar.
Inn á fundinn kom Andrea Gerður Dofradóttir, verkefnisstjóri og gerði grein fyrir helstu niðurstöðum könnunar á viðhorfum akademískra starfsmanna til matskerfis opinberra háskóla. Málið var rætt og svöruðu Andrea Gerður og Guðbjörg Linda spurningum.

Andrea Gerður og Guðbjörg Linda viku af fundi.

6.    Kynning á starfsemi Verkfræði- og náttúruvísindasviðs.
Inn á fundinn kom Sigurður Magnús Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og gerði grein fyrir starfsemi og áherslum fræðasviðsins. Málið var rætt og svaraði Sigurður Magnús spurningum ráðsmanna.

7.    Bókfærð mál.
a)    Tillaga að breytingu á reglum nr. 213/2011 um meistara- og doktorsnám í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands. (Nýjar reglur).

Guðrún Geirsdóttir benti á að í samkomulagi forseta fræðasviða um skipan þverfræðilegs framhaldsnáms í lýðheilsu, faraldsfræði og líftölfræði við Háskóla Íslands kemur fram að miða skuli við að engin ein deild hafi meira en þriðjung stöðugilda námsgreina við Miðstöð í lýðheilsuvísindum, en ekki sé kveðið á um þetta í reglum nr. 213/2011 um meistara- og doktorsnám í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands. Rektor svaraði því til að í samkomulaginu væri sett fram þetta stefnumið, en það ætti ekki heima í reglum. Þá kom Guðrún fram með þá ábendingu að huga þyrfti að vinnuálagi kennara sem kæmu að námi í lýðheilsuvísindum, enda hafi þeir starfsskyldur hver í sinni deild.
– Samþykkt.

b)    Tillaga að ákvæði til bráðabirgða í 47. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009, v/tilraunaverkefnis um fagháskólanám.
– Samþykkt.

c)    Stjórn sjóðs um árangurstengda tilfærslu starfsþátta.
– Samþykkt. Stjórnin er skipuð þeim Ásthildi Margréti Otharsdóttur, fulltrúa í háskólaráði, Halldóri Jónssyni, sviðsstjóra vísinda- og nýsköpunarsviðs og Jenný Báru Jensdóttur, sviðsstjóra fjármálasviðs. Skipunin er til tveggja ára. Ásthildur Margrét Otharsdóttir tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.

d)    Fulltrúar í stjórn Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns.
– Samþykkt. Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns eru Guðmundur Hálfdanarson, forseti Hugvísindasviðs og Elín Soffía Ólafsdóttir, prófessor við Lyfjafræðideild. Varamenn eru Guðmundur Freyr Úlfarsson, prófessor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild og Ágústa Pálsdóttir, prófessor við Félags- og mannvísindadeild. Skipunartíminn er fjögur ár.

e)    Stjórn Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni.
– Samþykkt. Stjórnin er skipuð þeim Hrefnu Friðriksdóttur, prófessor við Lagadeild, formaður, Vilhjálmi Árnasyni, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild (til vara: Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild), Guðmundi Skarphéðinssyni, dósent við Sálfræðideild (til vara: Hildur Harðardóttir, dósent við Læknadeild), Sigurveigu H. Sigurðardóttur, dósent við Félagsráðgjafardeild (til vara: Halldór S. Guðmundsson, dósent við Félagsráðgjafardeild), Hrund Þórarins Ingudóttir, lektor við Deild menntunar og margbreytileika (til vara: Árni Guðmundsson, aðjunkt við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda).

f)    Uppfært erindisbréf innri endurskoðanda.
– Samþykkt.

g)    Starfsáætlun háskólaráðs 2018-2019, sbr. síðasta fund.
    Rektor gerði grein fyrir ábendingum um viðbætur við starfsáætlun háskólaráðs fyrir starfsárið 2018-2019 sem fram komu á síðasta fundi og á milli funda. Málið var rætt og var uppfærð starfsáætlun samþykkt einróma.

    Helga Lind Mar lagði fram svohljóðandi bókun varðandi liðinn „uppbygging stúdentagarða“ í starfsáætluninni:

    „Á síðasta fundi háskólaráðs var ýjað að því að deiliskipulag fyrir Gamla garð yrði tekið fyrir á þessum fundi hér, eða allavega að einhver umræða um málefnið myndi eiga sér stað. Ekki var málefni Gamla garðs sett á fundardagskrá og finn ég mig því knúna til að tjá mig undir þessum lið.

Uppbygging stúdentagarða við Gamla garð hefur dregist langt fram yfir eðlileg tímamörk. Félagsstofnun stúdenta hefur lagt fyrir háskólann tvær tillögur og liggur nú fyrir þriðja tillagan. Það er með öllu óforsvaranlegt að framvinda mála í kjölfarið sé ekki gerð opinber og að Félagsstofnun Stúdenta, sem er byggingaraðili garðanna, hafa lítið sem ekkert fengið að heyra frá háskólanum síðan að samráðshópurinn skilaði af sér skýrslu sinni fyrir 10 mánuðum síðan. Skýrslan impraði á því að uppbygging þyrfti að hefjast sem allra fyrst og yrði sett í forgang. En nú hálfu ári seinna hefur deiliskipulag fyrir svæðið ekki enn verið kynnt og má telja þessa töf sem ekkert annað en óforsvaranlega óvirðingu fyrir húsnæðisvanda stúdenta. Að draga verkefnið svona á langinn kostar peninga og tíma og við eigum hvorugt.

Íbúðalánasjóður veitti tvö lánsvilyrði árið 2016, annað fyrir uppbyggingu garða við Sæmundargötu 23 og annað fyrir viðbyggingu við Gamla garð að Hringbraut. Lánsvilyrðið fyrir Gamla garð hljóðar uppá einn milljarð. Tímalínan sem var gefin upp við gerð þessa samnings var að uppbygging myndi hefjast haustið 2017 og yrði lokið um áramót 2018/2019. Við þurfum ekki að líta langt hér útum gluggann til að sjá að það stenst ekki. Nú hefur ný stjórn sjóðsins tekið við og er ekkert sem tryggir að þetta vilyrði verði framlengt.

Það eru 729 nemendur á biðlista eftir stúdentaíbúðum. Á bakvið þessar tölur eru einstaklingar sem bíða og lenda inn í langavitleysu kerfisins á meðan. Að byggja upp stúdentaíbúðir snýst nefnilega ekki einungis um það að gefa stúdentum kost á að búa í öruggu og viðráðanlegu húsnæði, heldur helst það í hendur við andlega líðan, frammistöðu í námi og umhverfisvernd.

Samkvæmt Eurostudent greiða 61% stúdenta á Íslandi, sem þurfa að leigja sem einstaklingar á almennum markaði, yfir 40% ráðstöfunartekna sinna í leiguhúsnæði. Samkvæmt sömu könnun eru 89% stúdenta sem vinna með námi til að eiga fyrir útgjöldum. En einungis 40% gera það til að öðlast reynslu á vinnumarkaði.

Er það því staðreynd að stúdentar fá ekki það rými sem þau vilja til að helga sig námi sínu og standa sig því verr. Frammistöðukvíði eykst og mögulega ekki framvindukröfur uppfylltar. Þ.a.l. eru ekki greidd út námslán sem þá aftur orsaka að stúdent þarf að auka við sig í vinnu. Við erum að búa til kerfi til að plástra geðheilsu stúdenta (sem er frábært) en uppbygging stúdentaíbúða er einn liður í að koma í veg fyrir þessar aðstæður sem eru raunveruleiki of margra í dag.

Það virðist ekkert vanta nema vilja rektors til að klára málið – En svo virðist sem hér sé algjör vöntun á vilja. Hvorki stúdentar né Félagsstofnun Stúdenta hafa fengið neina dagsetningu eða viðmið um hvenær þessari vinnu eigi að ljúka og er því þolinmæði okkar á þrotum. Báðar stúdentafylkingarnar hafa beðið þolinmóðar síðan í maí þegar efna átti til mótmæla en rektor lýsti yfir samvinnuvilja, nú er það samkomulag brostið. Það er kominn tími til þess að farið verði í saumana á verklagi í kringum afgreiðslu þessa máls og kostnaði sem háskólinn hefur tekið á sig vegna þess og munum við því beina því til innri endurskoðunar. Eins og við sjáum er háskólaráð sett í ábyrgð fyrir þessum lið stefnunnar og er það því á ábyrgð okkar allra hérna inni að vera upplýst um málavexti og taka ábyrgð á því að það sé rétt staðið að málunum.“

    Rektor fór stuttlega yfir stöðu mála varðandi fyrirhugaða byggingu stúdentagarða við Gamla garð og sagði málið verða á dagskrá næsta fundar háskólaráðs 1. nóvember nk. Málið var rætt.

8.    Mál til fróðleiks.
a)    Ársreikningur Háskóla Íslands 2017.
b)    Málnefnd Háskóla Íslands.
c)    Námsstjórn um menntun framhaldsskólakennara.
d)    Fréttabréf háskólavina, 3. tbl. 20. september 2018 og 4. tbl. 17. október 2018.
e)    Málefni tæknifræðinnar. Minnisblað.
f)    Ávarp rektors á málþinginu „Fullveldið, háskólinn og framtíðin – gildi háskóla fyrir íslenskt samfélag“, 7.-8. september 2018.
g)    Ávarp rektors á ráðstefnu Háskóla Íslands, „Hrunið, þið munið“, 5.-6. október 2018.
h)    Vitundarvakning um íslenskt mál.
i)    Jafnréttisdagar 2018.

j)    Sjónvarpsþáttaröð Háskóla Íslands, Fjársjóður framtíðar, vann Vísindamiðlunarverðlaun Rannís.
k)    Fimm vísindamenn við Háskóla Íslands hlutu styrki úr Eggertssjóði til rannsókna og tækjakaupa á sviði jarðfræði og líffræði.
l)    Menntakvika einn mikilvægasti farvegur Háskólans fyrir miðlun á þekkingu og rannsóknum sem snúa að skóla- og frístundastarfi haldin 12. október. Sjá dagskrá og umfjöllun.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.55.