Skip to main content
10. október 2018

Fimm fengu styrki úr Eggertssjóði

Fimm vísindamenn við Háskóla Íslands hlutu á dögunum styrki úr Eggertssjóði til rannsókna og tækjakaupa á sviði jarðfræði og líffræði. Vísindastyrkirnir í ár renna til fjölbreyttra verkefna sem snerta m.a. myndunarstig sortuæxla, atferli og lífsögu hnúfubaka og breytingar á stefnu og styrkleika segulsviðs jarðar.

Berglind Ósk Einarsdóttir, nýdoktor við Læknadeild Háskóla Íslands, hlaut styrk til rannsókna á fyrstu myndunarstigum sortuæxla (cutaneous melanoma). Með því að RNA raðgreina (single cell RNA sequencing) sortuæxli frá sjúklingum með frumstig sortuæxla má ákvarða betur hvaða breytingar verða á frumunum við myndun sortuæxla. Vonir standa til að með aukinni þekkingu á fyrstu stigum sortuæxlismyndunar megi greina sjúkdóminn fyrr.
 
Edda Elísabet Magnúsdóttir, aðjunkt við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, hlaut styrk til rannsókna á atferli og lífsögu hnúfubaka við Ísland. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt fram á að hnúfubakar haldi til við Norðausturland því sem næst allan ársins hring. Ísland er ekki þekkt æxlunarstöð farhvala en vel þekkt sem mikilvæg fæðustöð. Rannsaka á nánar neðansjávarhegðun hnúfubaka með hljóð- og hreyfirita sem festur er á hvalina, kanna kynjahlutfall, hormónabúskap og orkubúskap hvalanna sem hér dveljast yfir vetrartímann. 
 
Gabrielle Stockmann, lektor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, hlaut styrk til kortlagningar og rannsókna á jarðefnafræði jarðhitastrýta í Ikkafirði á Grænlandi. Strýturnar, sem eru nálægt eitt þúsund talsins, eru um 20 m háar og myndaðar úr ikaíti, sjaldgæfu lághitaafbrigði (við 10-15 gráðu hitastig) af kalsíumkarbónati. 
 
Kalina Kapralova, nýdoktor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, hlaut styrk til rannsókna á orsakaþáttum æxlunarlegrar einangrunar í afbrigðum bleikju í Þingvallavatni. Fjögur ólík afbrigði bleikju þrífast í Þingvallavatni. Ætlunin er að rannsaka þróun tveggja minni afbrigðanna og varpa ljósi á ástæðu þess að ekki er genablöndun á milli þeirra.
 
Maxwell Brown, sérfræðingur við Jarðvísindastofnun Háskólans, hlaut styrk til rannsókna á breytingum á stefnu og styrkleika segulsviðs jarðar síðustu þrjár til fimm milljónir ára sem lesa má úr berglögum í Borgarfirði. 

Um Eggertssjóð
Eggertssjóður var stofnaður við Háskóla Íslands árið 1995 eftir að Eggert Vilhjálmur Briem (f. 18. ágúst 1895, d. 14. maí 1996) hafði ánafnað skólanum eignir sínar, erlend verðbréf og gjaldeyrisreikning.

Eggert fæddist að Goðdölum í Skagafirði og fór ungur til vélfræðináms í Þýskalandi en síðan til Bandaríkjanna 1914–1917. Eftir veru sína þar starfaði Eggert nokkur ár á Íslandi en hélt aftur til Bandaríkjanna 1928, tók þar flugvirkjapróf og síðar atvinnuflugmannspróf 1930. Um árabil vann hann í verksmiðjum vestanhafs og hafði eftir það tekjur af uppfinningum, m.a. varðandi saumavélar. Eggert var jafnframt mikill áhugamaður um raunvísindi og las sér margt til um þau. 

Eggert kynntist Þorbirni Sigurgeirssyni prófessor um 1958 en Þorbjörn hafði þá nýverið komið upp Eðlisfræðistofnun Háskólans. Eggert gerðist sérstakur velgerðarmaður þeirrar stofnunar og síðan Raunvísindastofnunar Háskólans sem tók við hlutverki Eðlisfræðistofnunar 1966. Eggert flutti heim til Íslands árið 1970 og sat hann löngum á bókasafni Raunvísindastofnunar við lestur á efri árum sínum, spjallaði við starfsmenn um fræðileg hugðarefni og tók þátt í ferðalögum á vegum stofnunarinnar, meðal annars upp á jökla. Færði Eggert þessum stofnunum margs konar tæki að gjöf og styrkti einnig þróun nýrra rannsóknasviða þeirra og margvísleg ný vísindaverkefni við Háskóla Íslands. 

Fleiri myndir frá úthlutun styrkjanna má finna á myndasafni Háskólans.

Styrkþegar úr Eggertssjóði ásamt stjórn sjóðsins og rektor Háskóla Íslands við úthlutun styrkjanna á Litla torgi á dögunum.