Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 13. september 2018

08/2018

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2018, fimmtudaginn 13. september var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Benedikt Traustason, Guðbrandur Benediktsson (varamaður fyrir Ásthildi Margréti Otharsdóttur og Rögnu Árnadóttur), Guðrún Geirsdóttir, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Ólafur Pétur Pálsson og Siv Friðleifsdóttir. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð og Þórður Kristinsson. Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Ragna Árnadóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir og Valdimar Víðisson boðuðu forföll.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki Guðrún Geirsdóttir óskaði eftir að ræða lið 8a og Ingibjörg Gunnarsdóttir óskaði eftir að ræða lið 8c. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ að öðru leyti og skoðast hann því samþykktur.

2.    Kjör varaforseta háskólaráðs, sbr. 4. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
Rektor bar upp tillögu um að Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Heilbrigðisvísindasviðs og fulltrúi háskólasamfélagsins í háskólaráði, verði varaforseti ráðsins tímabilið 2018-2020.
– Samþykkt einróma með lófataki.

3.    Starfsemi og stefna Háskóla Íslands.
Rektor gerði grein fyrir starfsemi og stefnu Háskóla Íslands. Málið var rætt og svaraði rektor spurningum fulltrúa í háskólaráði.

4.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.

a)    Rekstraryfirlit síðustu sjö mánuði.
Fyrir fundinum lá yfirlit um rekstur Háskóla Íslands fyrstu sjö mánuði ársins 2018. Jenný Bára gerði grein fyrir málinu og svaraði spurningum ráðsmanna. Fram kom að reksturinn er í jafnvægi.

b)    Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2019.
Fyrir fundinum lá minnisblað um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2019. Jenný Bára og Guðmundur gerðu grein fyrir málinu og var það rætt. Fram kom m.a. í umræðunni að enn er langt í land með að fjárveitingar til Háskóla Íslands standist samanburð við meðaltal fjárveitinga til háskóla í öðrum OECD-ríkjum og á Norðurlöndum.

c)    Mannaaflaáætlun. Staða mála.
Rektor gerði grein fyrir stöðu mála varðandi vinnu við mannaflaáætlun fyrir Háskóla Íslands sem hefur verið til meðferðar hjá fjármálanefnd háskólaráðs. Málið var rætt og svaraði rektor spurningum.
– Samþykkt einróma að fela rektor að fylgja málinu eftir og verður það aftur á dagskrá háskólaráðs 18. október nk.

Jenný Bára og Guðmundur viku af fundi.

5.    Starfsáætlun háskólaráðs 2018-2019. Drög.
Rektor gerði grein fyrir drögum að starfsáætlun háskólaráðs fyrir starfsárið 2018-2019 og áherslum í Stefnu Háskóla Íslands 2016-2021. Málið var rætt og beindi rektor því til ráðsmanna að koma á framfæri tillögum og ábendingum varðandi starfsáætlunina. Málið kemur til afgreiðslu á næsta fundi ráðsins

6.    Skipulagsmál háskólasvæðisins.
Inn á fundinn kom Sigríður Sigurðardóttir, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs og fór yfir skipulags-, bygginga- og samgöngumál háskólasvæðisins. Málið var rætt og svaraði Sigríður spurningum fulltrúa í háskólaráði.

Sigríður vék af fundi.

Að umræðum loknum lagði Benedikt Traustason, fulltrúi stúdenta, fram svohljóðandi bókun:

„Stúdentar skora á Háskóla Íslands að setja uppbyggingu stúdentaíbúða á háskólasvæðinu á oddinn þegar kemur að skipulagsmálum skólans og að deiliskipulag vegna framkvæmda við Gamla Garð verði afgreitt svo fljótt sem verða má.

Uppbygging stúdentagarða á háskólasvæðinu hjálpar skólanum að mynda samheldið háskólasamfélag sem er eitt af markmiðum skólans í stefnu hans, HÍ 21. Með því getur háskólinn lagt sitt af mörkum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum með minnkun kolefnisspors nemenda. Jafnframt mun uppbygging í nágrenni háskólans auka félagslegt samneyti stúdenta og mynda heildstæða byggð með möguleikum á aukinni þjónustu í nágrenni háskólasvæðisins.

Háskóli Íslands getur aukið samkeppnishæfni sína með uppbyggingu stúdentaíbúða á háskólasvæðinu en aðlaðandi umhverfi og öruggt húsnæði vegur sífellt þyngra þegar kemur að vali stúdenta á háskólum. Stúdentar vilja því slást í lið með háskólanum og í sameiningu halda áfram að skara fram úr.“

7.    Kynning á starfsemi Menntavísindasviðs.
Inn á fundinn kom Kolbrún Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs og gerði grein fyrir starfsemi og áherslum fræðasviðsins. Málið var rætt og svaraði Kolbrún spurningum ráðsmanna.

Kolbrún vék af fundi.

8.    Bókfærð mál.
a)    Skipulagsskrá fyrir Doktorssjóð Styrktarsjóða Háskóla Íslands.

    Inn á fundinn kom Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda og svaraði spurningum um fyrirkomulag Doktorssjóðs Styrktarsjóða Háskóla Íslands.
– Samþykkt.

b)    Samþykktir fyrir Listasafn Háskóla Íslands.
    – Samþykkt.

c)    Tillaga að breytingu á reglum Háskóla Íslands nr. 569/2009 um heimild deilda til að veita prófgráðuna M.Phil.
    Guðbjörg Linda og Þórður Kristinsson svöruðu spurningum um prófgráðuna M.Phil.
– Samþykkt.

d)    Stjórn Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands.
    – Samþykkt. Stjórnin er skipuð þeim Bjarna Bessasyni, prófessor á Verkfræði- og náttúruvísindasviði sem er formaður, Hróbjarti Árnasyni, lektor á Menntavísindasviði, Ebbu Þóru Hvannberg, prófessor á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, Oddnýju G. Sverrisdóttur, prófessor á Hugvísindasviði, Vilborgu Lofts, rekstrarstjóra Heilbrigðisvísindasviðs og Trausta Fannari Valssyni, dósent á Félagsvísindasviði. Rektor gengur frá skipun varamanna.

9.    Mál til fróðleiks.
a)    Dagatal Háskóla Íslands fyrir háskólaárið 2018-2019, þ.m.t. fundaáætlun háskólaráðs.
b)    Yfirlit um nefndir, stjórnir og ráð sem háskólaráð hefur aðkomu að og fyrirséð er að skipa þurfi eða tilnefna í á misserinu.
c)    Samstarf við háskóla í Vesturheimi.
e)    Ársreikningur Háskóla Íslands 2017.
f)    Lykiltölur Háskóla Íslands 2018.
g)    Hvað er að frétta? Fréttabréf Háskólavina.
h)    Innra gæðamat. Skýrsla innri endurskoðunar Háskóla Íslands, dags. 23. ágúst 2018.
i)    Árleg skýrsla OECD um menntatölfræði, Education at a Glance 2018.
j)    Þátttaka Team Spark í Formula Student Spain.
k)    Fjöldi erlendra nýnema haustið 2018.
l)    Framkvæmdir að hefjast við Hringbraut.
m)  Framgangur akademískra starfsmanna Háskóla Íslands og nýir deildarforsetar.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.