Skip to main content
6. júlí 2018

Framkvæmdir að hefjast við Hringbraut

Framkvæmdir hefjast senn við meðferðarkjarna nýs Landspítala. Um er að ræða 20 mánaða framkvæmdatíma, allt fram á vorið 2020, þar sem unnið verður við götur, göngustíga, bílastæði og annan lóðafrágang á afmörkuðum svæðum við Hringbraut, auk þess sem jarðvinna verður í grunni meðferðarkjarnans.

Nemendur og starfsmenn Háskóla Íslands verða varir við þessar framkvæmdir og verða upplýsingar um þær því birtar reglulega á vefjum Háskólans og Landspítala. Eins verður tilkynnt ef miklar breytingar verða á umferðarfyrirkomulagi.

Nú í júlí hefst vinna við bílastæðareit norðan megin við BSÍ. Svæðið verður girt af og síðan verður hafist handa við að jarðvegsskipta á svæðinu til að undirbúa bílastæðin. Þetta ætti ekki að hafa afgerandi afleiðingar fyrir starfsemina í för með sér eða hindra umferð að og frá svæðinu. Gert er ráð fyrir því að verkið taki um 5-6 vikur.

Um svipað leyti hefst vinna við kaldavatnslögn frá Eiríksgötu og inn í aðalbyggingu Landspítalans. Svæðið verður girt af og síðan hafist handa við skurðgröft og lagnavinnu. Sett verður keyrslubrú á skurðstæðið til að tryggja að- og fráakstur á bílastæði við eldhúsbyggingu. Vatnslagnaframkvæmdin tekur u.þ.b. þrjár vikur.

Á meðfylgjandi korti eru sýndir hringir utan um svæðin þar sem framkvæmdir hefjast.

Kort af Landspítalasvæðinu við Hringbraut