Mikill áhugi á samstarfi við Háskólann í Vesturheimi | Háskóli Íslands Skip to main content
12. júlí 2018

Mikill áhugi á samstarfi við Háskólann í Vesturheimi

""

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands hefur verið á ferðalagi í Vesturheimi þar sem hann hefur heimsótt fjölda háskóla og stofnana með samstarf í huga. Í ferð sinni átti Jón Atli fundi í Calgary, Markerville og Edmonton í Alberta. Háskóli Íslands er nú mjög eftirsóttur samstarfsaðili víða um lönd enda raðast hann á meðal bestu háskóla í heiminum samkvæmt alþjóðlegum mælingum.

Skemmst er að minnast þátttöku skólans í nýlegu neti Aurora þar sem níu af fremstu háskólum Norður-Evrópu vinna saman að rannsóknum og fjölbreyttu kennslu- og vísindastarfi.

Þjóðskáldið Stephan G.

Á ferð sinni fundaði Jón Atli, rektor Háskólans með Stephan V. Benediktson í Calgary en hann er barnabarn Stephans G. Stephanssonar, þjóðskálds okkar Íslendinga. Stephan G. Stephansson fæddist hinn 3. október árið 1853 á Kirkjuhóli í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði og var skírður Stefán Guðmundur Guðmundsson.

Hartnær tvítugur fluttist hann ásamt foreldrum sínum vestur um haf til að vitja betra lífs í Wisconsin í Bandaríkjunum. Þar vann hann meðal annars við lagningu járnbrautar og í skógarhöggi við erfið kjör. Árið 1889 flutti hann svo til Alberta-fylkis í Kanada við rætur Klettafjalla og gerðist bóndi og höfuðskáld. Stephan G. hefur oft verið kallaður Klettafjallaskáldið en hann orti eins og íslensku skáldin flest um árstíðirnar og veðrið en þetta tvennt mótaði án efa líf fyrstu íslensku landnemanna á þessu svæði:

Vestur í Kletta vorið senn
vetur grettan rekur.
Þá skal réttast úr oss enn
er það sprettinn tekur.

Nýr sjóður í nafni Stephan G.

Einn megintilgangur ferðar rektors Háskóla Íslands var að kynna söfnun sem er í gangi varðandi sérstakan sjóð, svokallaðan Stephan G. Stephansson Endowment Fund. Honum var komið á fót í tengslum við vígslu Veraldar ‒ hús Vigdísar vorið 2017.  Stephan V. Benediktson lagði til stofnfé sjóðsins í minningu afa síns ásamt eiginkonu sinni, Adriönu. 

Markmiðið með sjóðnum er að Háskóli Íslands treysti enn frekar tengslin við Vestur-Íslendinga í Kanada og Bandaríkjunum, og stuðli jafnframt að rannsóknasamstarfi fræðimanna á Íslandi og í Vesturheimi á sviði innflytjendabókmennta. Ætlunin er að setja í háskerpu þau skáld sem fluttu frá Íslandi til Norður-Ameríku og er hugmyndin sú að rannsaka enn frekar verk og áhrif þessara skálda og einnig menningartengsl Íslands og Vesturheims. Stephan G. er eitt þessara skálda en hann var bóndi við erfiðar aðstæður í Alberta og hafði lítinn tíma til annars en brauðstrits. Hann orti því öll sín bestu ljóð að næturlagi og er talsverð kaldhæðni í því að ljóðasafn hans nefnist einmitt Andvökur.

Rektor lagði blóm frá Háskóla Íslands á leiði Stephans G. en þetta fræga þjóðskáld okkar í Vesturheimi gekk aldrei í skóla vegna fátæktar.  Hann nam hins vegar fjölmargt í hörðum skóla lífsins og las mikið. Þekkt er vísan hans „Baslhagmennið” sem lýsir vel lífsbaráttu Stephans G.:

Löngum var ég læknir minn,
lögfræðingur, prestur,
smiður, kóngur, kennarinn,
kerra, plógur, hestur.

Rektor Háskóla Íslands heimsótti einnig hús Stephans G. og ýmsa aðra merka staði í Markverville, þ.á.m. mjólkurvinnsluna þar sem Íslendingar voru þungamiðjan.

Fundir í háskólum í Calgary og Edmonton og listaakademíunni í Banff

Á ferð sinni um Vesturheim átti Jón Atli Benediktsson fund með stjórnendum Háskólans í Calgary og kom fram mikill áhugi á auknu samstarfi milli skólanna.  Meðal annars var rætt um samstarf á sviði verkfræði, hug- og félagsvísinda og í nýsköpun og heilbrigðisvísindum. Vestur-Íslendingurinn Hallgrímur Benediktsson, sem er prófessor í læknisfræði við skólann, sat fundinn en hann er jafnframt heiðurskonsúll Íslands í Calgary. Rektor ræddi einnig samstarf milli skólanna við Elizabeth Cannon, rektor Háskólans í Calgary.

Jón Atli heimsótti einnig Háskólann í Alberta í Edmonton og ræddi þar bæði við stjórnendur skólans og vísindamenn. Mikill áhugi er á að auka samstarf milli skólanna í verkfræði, norðurslóðarmálum, nýsköpun, orkurannsóknum og fötlunarfræði svo eitthvað sé nefnt.

Þá átti rektor fund með forvígismönnum Banff Center sem er akademía lista og sköpunar í Banff, stofnsett árið 1933. Jón Atli fundaði með rektor akademíunnar, Janice Price, en hann hitti að auki íslensku listakonuna Karlottu Blöndal sem starfaði um tíma í Banff Centre og sýndi hún rektor listsköpun sína.

Rektor átti auk þess fjölda funda með hollvinum Íslendinga og Íslands í Vesturheimi og meðal annars með The Icelandic Club á þremur stöðum, þ.e. í Calgary, Markerville og Edmonton. Beverly Arason–Gaudet, forseti Icelandic National League (INL) of North America, sótti fund The Icelandic Club í Edmonton og ræddu rektor og hún m.a. um 100 ára afmæli INL á næsta ári og fundarhöld í tengslum við það.

Rektor kynnti hvar sem hann fór fjölbreytta starfsemi og stöðu Háskóla Íslands og tengsl hans við Vesturheim bæði í fortíð og framtíð og var á öllum stöðum mikill áhugi á Íslandi, á Háskólanum og á auknum samskiptum milli landanna.

Rektor ásamt föruneyti fyrir framan hús Klettafjallaskáldsins Stephans G.
Rektor fyrir framan stjórnsýslubyggingu Háskólans í Alberta
Rektor leggur blóm á leiði þjóðskáldsins Stephans G. Stephanssonar
Rektor með Beverly Arason–Gaudet, forseta Icelandic National League (INL) of North America, Þau funduðu í Edmonton.
Rektor Háskóla Íslands með Stephan Benediktson, afabarni skáldsins Stephans G.
Rektor hitti fjölmarga hollvini Íslands í förinni - hér er hann með fólki úr Íslendingaklúbbnum í Calgary