Skip to main content
7. maí 2021

Ræktum enn frekar sambandið við samfélagið okkar

 Ræktum enn frekar sambandið við samfélagið okkar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (7. maí):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Undanfarin ár höfum við unnið einbeitt að því mikilvæga markmiði að styrkja stöðu Háskóla Íslands á meðal fremstu háskóla á alþjóðavísu og á sama tíma höfum við lagt kapp á að rækta hitt meginhlutverk skólans sem er við íslenskt samfélag og atvinnulíf. Til samans á þetta ekki síst við um þætti sem snúa að aðsteðjandi áskorunum. Undanfarnar vikur hefur þetta einna helst komið fram í rannsóknum og verkefnum Háskólans sem snúa að COVID-19 faraldrinum og ekki síður eldsumbrotum og jarðhræringum á Reykjanesi. Í vikunni kom fram að jarðvísindi við Háskóla Íslands eru í 87. sæti í heiminum samkvæmt úttekt U.S. News & World Report á bestu háskólum heims. Þessi ótrúlegi árangur okkar helgast ekki síst af fjölbreyttum rannsóknum innan Háskóla Íslands sem snúast ekki einvörðungu um náttúruvá og hreyfingar í jarðskorpunni heldur einnig fjarkönnun, nýtingu jarðhita, orkuöflun, ný tækifæri í jöfnun koldíoxíðs við jörðu og margt fleira.

Í næstu framtíðarstefnu Háskóla Íslands, sem nú liggur fyrir í lokadrögum, er markmið okkar að gera góðan háskóla enn betri og rækta enn frekar sambandið við samfélagið okkar undir yfirskriftinni „Betri háskóli, betra samfélag“. Á upplýsingafundi rektors í gær fór ég einmitt yfir fjölmarga þætti í nýju stefnunni auk þess að víkja að því sem verið hefur efst á baugi í starfi skólans að undanförnu. Á sama fundi fór Ragnhildur Ísaksdóttir, sviðsstjóri mannauðssviðs, yfir jafnlaunavottun og niðurstöður launagreiningar við skólann.

Til að meta árangurinn af starfi og stefnu skólans notum við mjög fjölbreytta mælikvarða en við fáum til okkar reglulega alþjóðlega matshópa sem leggja sína mælistiku á starfið. Einn slíkur var einmitt í stafrænni heimsókn hjá okkur í vikunni og átti mikilvæg samtöl við stóran hóp einstaklinga úr háskólasamfélaginu. Það er von okkar að þetta muni færa Háskólanum staðfestingu á því sem vel er gert og góðar ábendingar um það sem betur má fara í svo við getum eflst enn frekar að gæðum á næstu árum.

Háskóli Íslands leggur mikinn kraft í fræðslu til almennings enda er þekkingin undirstaða framfara. Háskólinn hefur unnið til fjölda verðlauna á síðustu árum fyrir verkefni sín á þessu sviði. Í því sambandi má nefna Háskóla unga fólksins, Háskólalestina, Vísindasmiðjuna og sjónvarpsþáttaröðina Fjársjóð framtíðar sem nú er einmitt endursýnd á RÚV. Þau ánægjulegu tíðindi urðu í vikunni að Háskóli Íslands tekur við verkefnum sem snúa að nýsköpunar- og frumkvöðlamennt ungmenna sem hafa hingað til verið vistuð hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Stjórnvöld ætla að styðja áfram mikilvæg verkefni af þessum toga í leik-, grunn- og framhaldsskólum auk starfsþróunar kennara í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt. Þessum verkefnum verður nú stýrt frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Kynning á sumarnámi Háskóla Íslands hefst í næstu viku en skráning í námið hefst þann 17. maí nk. Eins og síðasta sumar verður boðið upp á fjölbreytt nám, sambland af undirbúningsnámskeiðum, einingabærum námskeiðum og fræðslu fyrir almenning. Fyrstu námskeiðin hefjast í byrjun júní en þau verða ókeypis fyrir nemendur Háskólans og fyrir væntanlega nemendur skólans sem greiða skrásetningargjaldið áður en sumarskólinn hefst.

Próf standa nú yfir og þrátt fyrir hömlur vegna sóttvarna hafa þau tekist einkar vel. Fyrir það vil ég þakka ykkur, kæru nemendur, og öllum þeim sem hafa komið að framkvæmd þeirra og undirbúningi. Skólafólk tengir gjarnan vorið við próf og stífan bóklestur enda er gjarnan mikið lagt undir á endaspretti skólaársins. Námið er vissulega mikilvægt en reynum af fremsta megni að tæma hugann annað slagið, hreyfa okkur eftir bestu getu og njóta alls þess sem grær í vorblænum. Fylgjum reglum um sóttvarnir og förum að öllu með gát.

Góða helgi.

Jón Atli Benediktsson, rektor“
 

Nemendur við Háskólatorg