Skip to main content
16. apríl 2021

Helgarkveðja

Helgarkveðja - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (16. apríl):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Það er sannarlega gleðilegt að sjá lífið færast aftur í aukana á háskólasvæðinu. Tökum nýjum tilslökunum stjórnvalda af ábyrgð og verum samt minnug reynslunnar því lítið má út af bregða. Fylgjum áfram tilmælum þríeykisins góðkunna, hugum að einstaklingsbundnum sóttvörnum og þeim reglum sem gilda um skólastarf

Nú er hafinn einn mesti álagstími hvers árs í skólastarfinu því námsmat vormisseris er fram undan og lokapróf verða samkvæmt auglýstri próftöflu. Á henni má m.a. sjá fyrirkomulag prófanna, þ.e. hvort um sé að ræða staðpróf eða heimapróf. Við munum að sjálfsögðu gæta ítrustu sóttvarna við framkvæmd prófanna og fylgja tilmælum heilbrigðisyfirvalda í hvívetna. Þær sóttvarnarreglur sem nú eru í gildi gera framkvæmd staðprófa mögulega.

Ég brýni fyrir ykkur kæru nemendur að fylgja einstaklingsbundnum sóttvörnum í tengslum við staðprófin. Á vefsvæði skólans er að finna leiðbeiningar sem gagnast vel bæði varðandi próftökurnar sjálfar og við undirbúning þeirra.  

Á síðastliðnu ári hafa nemendur og starfsfólk Háskóla Íslands tekist á við fjölda áskorana í námi og kennslu. Í dag hefst viðburðaröðin Drögum lærdóm af reynslunni: Samtal um gæði náms og kennslu, sem er skipulögð af kennsluþróunarstjórum fræðasviða í samvinnu við kennslusvið. 

Fyrir viku ræddi ég áform stjórnvalda um sumarnám og sumarstörf. Stefnt er að því að bjóða sumarnám á ný við Háskóla Íslands í sumar og var umsókn send til menntamálaráðuneytisins þess efnis í upphafi vikunnar. Beðið er niðurstöðu ráðuneytisins áður en námsframboðið verður kynnt sérstaklega. 

Undirbúningur að ráðningu sumarstarfsfólks fyrir komandi sumar er nú í gangi og er beðið útfærslu Vinnumálastofnunnar en í fyrra voru fjölmörg sumarstörf í boði við Háskóla Íslands í samstarfi við stofnunina.  

Afar ánægjulegur viðburður var í gær þegar grænlenska ljóðskáldið, málvísinda- og baráttukonan Katti Frederiksen, fékk alþjóðleg menningarverðlaun Vigdísar Finnbogadóttur. Verðlaunin voru nú veitt í annað sinn en þau voru afhent á afmælisdegi Vigdísar. Katti, sem er núverandi mennta- og menningarmálaráðherra Grænlands, hefur vakið feiknarathygli með verkum sínum á mikilvægi  grænlenskunnar jafnt innan lands sem utan. Hún hefur undirstrikað nauðsyn þess að börn og unglingar á Grænlandi tali og skrifi á móðurmáli sínu til að styrkja sjálfsmynd Grænlendinga, vitund þeirra um eigin menningu og trú á framtíðina.

Vigdís hefur sjálf margsinnis lagt áherslu á hversu mikilvægt það er hverri þjóð að hlúa að eigin tungu. Hluti af núverandi stefnu Háskóla Íslands felst einmitt í að efla íslenskuna, okkar eigin þjóðtungu. Það er því mikið gleðiefni að lagður verður hornsteinn að nýju Húsi íslenskunnar í næstu viku. Háskóli Íslands á þriðjung í húsinu sem rís nú hratt á háskólasvæðinu vestan Suðurgötu. Þar verða höfuðstöðvar íslenskunnar í Háskóla Íslands og  Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. 

Kæru nemendur og samstarfsfólk. Nú getum við komið aftur í byggingar Háskóla Íslands og nýtt þá frábæru aðstöðu sem hér er til náms og starfa. Höfum að minnsta kosti 1 metra á milli okkar og notum grímur þar sem ekki er unnt að viðhafa fjarlægðarmörk. Verum aldrei fleiri en 50 í hverju rými.  

Þótt margir undirbúi sig nú fyrir lokapróf og skil á mikilvægum verkefnum er áríðandi að huga líka að þáttum sem hreinsa hugann og veita okkur í raun aukið úthald. Veitum vorinu athygli sem alls staðar er að vakna með kvaki farfuglanna. Njótum augnabliksins og helgarinnar framundan sem best við getum, en förum að öllu með gát. 

Jón Atli Benediktsson, rektor“
 

Nemandi á Háskólatorgi