Skip to main content
15. apríl 2021

Katti Frederiksen hlýtur Vigdísarverðlaunin 2021

Katti Frederiksen hlýtur Vigdísarverðlaunin 2021 - á vefsíðu Háskóla Íslands

Grænlenska málvísindakonan, ljóðskáldið og baráttukonan Katti Frederiksen, núverandi mennta- og menningarmálaráðherra Grænlands, hlýtur alþjóðleg menningarverðlaun sem kennd eru við Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, árið 2021. Verðlaunin eru veitt árlega þann 15. apríl, á afmælisdegi Vigdísar Finnbogadóttur.

Íslensk stjórnvöld, Háskóli Íslands og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum settu verðlaunin á fót í tilefni á af 90 ára afmæli Vigdísar Finnbogadóttur í fyrra og þess að þá voru liðin 40 ár frá sögulegu forsetakjöri hennar. Markmiðið með verðlaununum er að heiðra og vekja athygli á lofsverðu framlagi Vigdísar til tungumála og menningar sem ætíð hafa verið henni afar hugleikin. Sem velgjörðarsendiherra tungumála hjá UNESCO, Mennta-, menningar- og vísindastofnun Sameinuðu þjóðanna, hefur Vigdís lagt ríka áherslu á að efla tungumál fámennra málsamfélaga og standa þannig vörð um þann menningararf alls mannkyns sem felst í fjölbreytni tungumála.

Vigdísarverðlaunin eru veitt árlega einstaklingi sem brotið hefur blað með störfum sínum í þágu menningar og þá einkum tungumála. Færeyski málvísindamaðurinn, kennarinn og útgefandinn Jonhard Mikkelsen varð fyrstur til að hljóta verðlaunin í fyrra en í dag tilkynnti Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, að starfssystir þeirrar fyrrnefndu á Grænlandi, Katti Frederiksen, hlyti verðlaunin í ár fyrir lofsvert framlag í þágu tungumála.

Íslensk stjórnvöld, Háskóli Íslands og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum settu verðlaunin á fót í tilefni á af 90 ára afmæli Vigdísar Finnbogadóttur í fyrra og þess að þá voru liðin 40 ár frá sögulegu forsetakjöri hennar.

Katti Frederiksen hefur með eftirtektarverðum hætti vakið athygli á málefnum grænlenskunnar jafnt innan lands sem utan. Með ljóðum sínum, fræðaskrifum, barnabókum og þátttöku í opinberri umræðu hefur hún verið óþreytandi við að minna á mikilvægi grænlenskunnar fyrir grænlenskt samfélag og hve brýnt sé að stuðla að vexti og viðgangi tungunnar svo hún megi nýtast á öllum sviðum mannlífs og þjóðlífs. Jafnframt hefur Katti Frederiksen lagt áherslu á mikilvægi þess að læra aðrar tungur.

Katti Frederiksen hefur víða látið til sín taka. Hún lauk meistaraprófi í grænlensku, bókmenntafræði og fjölmiðlafræði frá Háskóla Grænlands í Nuuk, Ilisimatusarfik, árið 2011, en hluta námsins tók hún við University of Alaska í Fairbanks. Hún hefur átt sæti í Málnefnd Grænlands og starfað til fjölda ára hjá Oqaasileriffik, Málráð Grænlands, fyrst sem deildarstjóri (2008-2015) en síðar sem framkvæmdastjóri (2015–2020). Árið 2020 varð hún menntamálaráðherra Grænlands.

Með störfum sínum hjá Oqaasileriffik hefur Katti Frederiksen ásamt samstarfsfólki sínu fyrr og síðar lagt drjúgan skerf til verkefna sem er ætlað að efla og þróa grænlenska tungu og gera hana í stakk búna til að takast á við áskoranir á tímum þar sem allt veltur á  þátttöku í og aðild að stafrænum lausnum. 

Loks hefur Katti Frederiksen undirstrikað nauðsyn þess að börn og unglingar temji sér að tala og skrifa grænlensku til að styrkja sjálfsmynd Grænlendinga, vitund þeirra um eigin menningu og trú á framtíðina. Síðast en ekki síst sé kunnátta í móðurmálinu styrkasta stoðin í öllu námi þeirra. 

Það var Þorbjörn Jónsson, ræðismaður Íslands á Grænlandi, sem afhenti Katti Frederiksen verðlaunin en þau nema sex milljónum íslenskra króna.

„Ég er með ýmislegt á prjónunum sem snertir tungumál og bókmenntir og þess vegna skipta Vigdísarverðlaunin gríðarlega miklu máli fyrir þau verkefni sem eru fram undan. Þau hvetja mig til dáða og gefa mér þrótt til að halda ótrauð áfram í átt að því marki sem ég hef sett mér,“ sagði Katti Frederiksen í þakkarávarpi sínu þegar hún tók við verðlaununum. 

Í úthlutunarnefnd Vigdísarverðlaunanna sitja Guðmundur Hálfdanarson, formaður, tilnefndur af rektor Háskóla Íslands, Auður Hauksdóttir, tilefnd af Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, og Sveinn Einarsson, tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðherra, en Magnús Diðrik Baldursson starfaði með nefndinni.

Þakkarorð Katti Frederiksen við móttöku Vigdísarverðlaunanna 2021

Það var Þorbjörn Jónsson, ræðismaður Íslands á Grænlandi, sem afhenti Katti Frederiksen verðlaunin en þau nema sex milljónum íslenskra króna.
Katti Frederiksen