Skip to main content
29. október 2021

Fjarnám mikilvægur hluti af framtíðarsýn skólans

Fjarnám mikilvægur hluti af framtíðarsýn skólans - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (29. október):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Háskóli Íslands hefur sett markið hátt í nýrri stefnu skólans þar sem sjónum er sem fyrr beint að gæðum námsins. Kennsluhættir munu áfram verða í sífelldri þróun, ekki síst á grundvelli nýrrar tækni og möguleika til notkunar upplýsingatækni og fjarkennslu. Við þróun námsframboðsins skiptir mestu að hvergi verði slegið af kröfum um gæði því námið er burðarásinn í starfi skólans og lykillinn að gildi prófgráðunnar hjá þeim fjölmörgu sem ljúka hér námi. Háskólinn ætlar sér að vera áfram öflugur staðnámsskóli þar sem lifandi samfélag nemenda, kennara og vísindafólks myndar uppsprettu nýrrar þekkingar en fjarnám er einnig gríðarlega mikilvægur hluti af framtíðarsýn skólans.

Undanfarið hefur fjarnám einmitt verið í deiglunni og einkum hefur verið rætt um bætta þjónustu við nemendur á landsbyggðinni og aðra sem hafa ekki tök á að stunda staðnám. Skólinn hefur lagt áherslu á að byggja upp fjarnám á völdum námsleiðum, svo sem í kennaranámi og menntun fagstétta á Menntavísindasviði, heilbrigðisgagnafræði og opinberri stjórnsýslu. HÍ hefur því rekið fjölbreytt fjarnám í alllangan tíma, einkum á Menntavísindasviði, og má t.d. nefna að yfir þúsund nemendur af landsbyggðinni eru skráðir í a.m.k. eitt fjarnámskeið við skólann á þessu haustmisseri.

Uppbygging stafrænnar kennslu við HÍ, ásamt reynslu af kennslu á tímum COVID-19, gerir okkur kleift að efla enn frekar fjarnám á næstu misserum. Í nýrri stefnu skólans, HÍ26, er kveðið á um að fjarnám verði eflt sérstaklega og gæðaviðmið verði skilgreind með skýrum hætti. Sú vinna er langt á veg komin. Við enn frekari uppbyggingu fjarnáms er brýnt að nýta þá góðu reynslu sem nú þegar er til staðar, ekki síst á Menntavísindasviði sem hefur boðið upp á samþætt fjar- og staðnám um árabil. Við ætlum að tryggja að slíkt nám standist ávallt alþjóðleg viðmið um gæði náms og prófgráða.

Næstu skref Háskólans í styrkingu fjarnáms eru að leita eftir tillögum um hvar megi byggja upp eða styrkja fjarnám og um leið að styðja sérstaklega við deildir við þróun námsleiða í slíku námi.

Fjarnámsáætlun HÍ verður kynnt ítarlega á næstu mánuðum og þróuð frekar í samráði við deildir, fræðasvið og fulltrúa nemenda. Þá verður haft samráð við stjórnvöld og hagsmunaaðila um hvernig forgangsraða eigi auknu framboði fjarnáms við skólann. Til viðbótar þessu stendur til að veita árlega fjárhagslegan stuðning við uppbyggingu fjarnáms á völdum námsleiðum. Einnig verður búnaður til fjarnáms efldur enn frekar.

Það er okkur afar mikilvægt að skilja eðli samfélaga og ekki síst okkar sjálfra sem einstaklinga og þjóðar. Hinn árlegi Þjóðarspegill, ráðstefna Háskóla Íslands í félagsvísindum fer fram í dag og verður alfarið á netinu. Afbrot og ástarrannsóknir, kynbundið ofbeldi og COVID-19, fötlunarfræði og fjölmiðlar, dægurmenning, loftslagsmál og markaðs- og ferðamál eru aðeins brotabrot af þeim viðfangsefnum sem rúmlega 300 fyrirlesarar munu fjalla um í yfir 200 erindum í 53 málstofum. Já, óhætt er að segja að félagsvísindin við Háskóla Íslands blómstri! Ég hvet ykkur öll til að fylgjast með því sem er að gerast í rannsóknum á stærsta fræðasviði skólans.

Háskóli Íslands ætlar sér að sækja fram af snerpu á alþjóðlegum vettvangi á næstu misserum enda er það markmið okkar að eiga skapandi samtal og samstarf við háskóla um víða veröld. Það er því sérstaklega ánægjulegt að sjá að sautján nemendur og fræðimenn á fjölbreyttum fræðasviðum við HÍ og japanska háskóla hafa fengið vilyrði fyrir styrk úr Watanabe-styrktarsjóðnum. Sjóðurinn grundvallast á fimm milljóna bandaríkjadala gjöf frumkvöðulsins og Íslandsvinarins Toshizo Watanabe til HÍ, en um er að ræða eina stærstu peningagjöf sem einstaklingur hefur fært skólanum.

Á þriðjudaginn kemur hefjast svo alþjóðadagar í HÍ með það að markmiði að vekja athygli á alþjóðlegu samstarfi Háskólans og þeim fjölmörgu tækifærum sem standa nemendum og starfsfólki til boða um allan heim. Háskólarnir í Aurora-samstarfinu, sem HÍ leiðir, standa einnig fyrir viðburðaröð á netinu dagana 2.-5. nóvember nk. Markmiðið er að gefa nemendum og starfsfólki allra skólanna ellefu tækifæri til að kynna sér hina Aurora-skólana, sérstöðu þeirra og námsframboð, áfangastaðinn sjálfan og háskólasamfélagið. Auk þess verður hver skóli með umræður þar sem nemendur veita innsýn í nám og samfélag.

Með alþjóðlegu samstarfi á sem flestum sviðum eflum við ekki bara Háskóla Íslands faglega heldur fáið þið með því, kæru nemendur og samstarfsfólk, enn frekari tækifæri til að blómstra.

Því miður eru blikur enn á lofti hvað snertir útbreiðslu kórónaveirunnar og mörg erum við orðin langþreytt á bakslögum. Látum samt ekki deigan síga, gleymum ekki öllum þeim mikilvægu áfangasigrum sem eru að baki. Ég hvet ykkur, kæru nemendur og samstarfsfólk, til að standa áfram af krafti vörð um það sem hefur áunnist. Seigla ykkar og samstaða er ómetanleg í baráttunni við COVID-19. Munum að sinna einstaklingsbundnum sóttvörnum. Grímurnar hafa sannað gagnsemi sína. Þvoum hendur vandlega og sprittum. Munum líka eftir því að hlaða niður Covid-appi Landlæknis og að skrá okkur í kennslustund með QR-kóðanum sem er að finna á öllum borðum í stofunum.

Förum áfram að öllu með gát en njótum eftir sem áður helgarinnar sem best við getum.

Jón Atli Benediktsson, rektor“

""