Skip to main content

Sögukennsla

Sögukennsla

Hugvísindasvið

Sögukennsla

MA gráða – 120 einingar

Meistaranám í sögukennslu er tveggja ára nám á framhaldsstigi sem er ætlað að veita nemendum dýpri skilning á sagnfræði og auk þess öðlast nemendur kennsluréttindi.

Námið er sniðið að nemendum sem hafa lokið BA námi í sagnfræði.

Skipulag náms

X

Kennsla samfélagsgreina og vettvangsnám 1 (SFG105F)

Nemendur kynnast kennsluaðferðum, verkefnagerð og námsmati í samfélagsgreinum og nokkrum greinum hugvísinda, að frátöldum íslensku og námi í erlendum tungumálum, og eru þjálfaðir í að ígrunda eigin afstöðu til náms og kennslu. Verkefni í námskeiðinu eru samþætt vettvangsnámi. Lögð er áhersla á mikilvægi ígrundunar fyrir verðandi kennara. Því er gert ráð fyrir að þátttakendur ígrundi, þrói og dýpki hugmyndir sínar um nám og kennslu í samfélagsgreinum og verði þannig betur í stakk búnir til að kenna sínar greinar og til þess að halda áfram að þróast sem kennarar.

Innan námskeiðsins kynnast nemendur umgjörð og innra starfi skóla. Auk þess fá nemendur nokkra þjálfun í kennslu sinnar greinar. Starfsþjálfun fer fram í framhaldsskólum með megináherslu á faggreinakennslu og tekur mið af starfstíma framhaldsskóla. Gert er ráð fyrir umtalsverðri viðveru nemenda í skólum. Starfsþjálfun er skipulögð í samstarfi við valda skóla og felst m.a. í þátttöku í almennu skólastarfi, aðstoð við kennslu og æfingakennslu. Starfsþjálfun á haustmisseri er tengd námskeiðinu Inngangi að kennslufræði og skal þetta námskeið því tekið samhliða því.

X

Inngangur að kennslufræði (KEN104F)

Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist innsýn inn í íslenskar og alþjóðlegar rannsóknir og kenningar á sviði skólastarfs. Meginviðfangsefni námskeiðs eru kenningar um og rannsóknir á námi, samskiptum og kennsluháttum. Einnig eru kenningar um og rannsóknir á starfi og fagmennsku kennara, svo og lagaákvæði, siðareglur og þess háttar, meðal meginviðfangsefna námskeiðsins.

Við val viðfangsefna og skipulag námskeiðsins er tekið mið af því að meginstarfsvettvangur þeirra sem taka námskeiðið verður í framhaldsskóla.

X

Kenningar í hugvísindum (FOR709F)

Námskeiðinu er ætlað að breikka og dýpka þekkingu nemenda á kenningum í hugvísindum og að veita þeim innsýn í ólík kennileg sjónarmið og aðferðir sem efst eru á baugi í fræðunum. Í námskeiðinu verða kynntar og ræddar valdar kenningar sem hafa sett mark sitt á fræðilega umræðu í hugvísindum síðustu áratugi, samhliða því sem nemendum verður kennt að beita þeim á eigin rannsóknir.

X

Kennsla samfélagsgreina og vettvangsnám 2 (SFG206F)

Nemendur kynnast kennsluaðferðum, verkefnagerð og námsmati í samfélagsgreinum og nokkrum greinum hugvísinda, að frátöldum íslensku og námi í erlendum tungumálum, og eru þjálfaðir í að ígrunda eigin afstöðu til náms og kennslu. Verkefni í námskeiðinu eru samþætt vettvangsnámi. Lögð er áhersla á mikilvægi ígrundunar fyrir verðandi kennara. Því er gert ráð fyrir að þátttakendur ígrundi, þrói og dýpki hugmyndir sínar um nám og kennslu í samfélagsgreinum og verði þannig betur í stakk búnir til að kenna sínar greinar og til þess að halda áfram að þróast sem kennarar.

Innan námskeiðsins kynnast nemendur umgjörð og innra starfi skóla. Auk þess fá nemendur nokkra þjálfun í kennslu sinnar greinar. Starfsþjálfun fer fram í framhaldsskólum með megináherslu á faggreinakennslu og tekur mið af starfstíma framhaldsskóla. Gert er ráð fyrir umtalsverðri viðveru nemenda í skólum. Starfsþjálfun er skipulögð í samstarfi við valda skóla og felst m.a. í þátttöku í almennu skólastarfi, aðstoð við kennslu og æfingakennslu.

Starfsþjálfun á vormisseri er tengd námskeiðinu Námskrá og skólaþróun í framhaldsskólum og skal þetta námskeið því tekið samhliða því.

X

Námskrá og skólaþróun í framhaldsskólum (KEN213F)

Í námskeiðinu er fjallað um námskrárfræði og menntastefnu með áherslu á námskrár, nemendur og þróunarstarf í framhaldsskólum.

Viðfangsefnum í námskeiðinu er ætlað að þjálfa fagmannlegt verklag við mótun menntastefnu, námskrárgerð og skólaþróun í framhaldsskólum á Íslandi. 

X

Nýjar rannsóknir í sagnfræði (SAG201F)

Í námskeiðinu verða lesnar þekktar sagnfræðilegar rannsóknir úr vestrænni menningarsögu sem fjalla um margvísleg efni sem hafa verið ofarlega á baugi innan fagsins. Gerð verður tilraun til að sýna hvernig sagnfræðingar, bæði í lok tuttugustu aldar og í upphafi tuttugustu og fyrstu aldar, glíma við ólík efni í rannsóknum sínum. Umfjöllunin verður sett í hugmyndafræðilegt samhengi og lögð verður áhersla á að sýna fram á ólík gímutök sagnfræðinga þegar viðfangsefnið hefur tengst áðurnefndu fræðasviði. Reynt var að velja áhugaverðar bækur sem eru líklegar til að gefa okkur áhugaverða mynd af stöðu sagnfræðinnar í dag.

X

Popúlismi: Saga, hugmyndafræði og framkvæmd (SAG507M)

Uppgangur hægri popúlistaflokka og valdboðsstjórna á undanförnum árum hefur ekki aðeins vakið áleitnar spurningar um framtíð frjálslynds lýðræðis (e. liberal democracy) heldur einnig um staðsetningu þessara afla á hinu pólitíska litrófi, hugmyndafræði þeirra og sögulegar rætur. Þjóðernisorðræða þeirra hefur einkum beinst gegn ráðandi öflum í stjórnmálum og efnahagsmálum, þótt þeir hafi einnig gert málamiðlanir við þau, sem og gegn fjölmenningu, minnihlutahópum og yfirþjóðlegu valdi.  Á námskeiðinu verður fjallað um popúlisma í fortíð og samtíð. Megináhersla verður lögð á róttækar hægri hreyfingar – allt frá fasistum og nýfasistum til þjóðernisflokka samtímans – en einnig verður vikið að vinstri birtingarmyndum, eins Popúlistaflokknum í Bandaríkjunum í lok 19. aldar og vinstri leiðtogum og stjórnum í Rómönsku Ameríku, þar sem barátta gegn hefðbundnum valdahópum og ójöfnuði vegur þungt. Áhersla verður lögð á að kryfja ýmis álitamál um popúlisma sem lúta að lýðræðiskerfinu, valdboðshyggju, efnahagsmálum, þjóðernishyggju, kynjapólitík, menningu, velferðarhugmyndum og utanríkismálum. Kafað verður ofan í kenningar um popúlisma á sviði sagnfræði og stjórnmálafræði með vísan í orðræðu og baráttuaðferðir. Þá verður vikið að hugmyndafræði og stefnu popúlistaflokka í samtímanum sem og tengsl og bandalög þeirra við önnur stjórnmálaöfl eins og íhaldsflokka eða „hitt hægrið“ (e. alt-right). Loks verður gerð tilraun til að skýra popúlisma eða „popúlíska valdboðshyggju“ í framkvæmd með því að beina sjónum að hlutverki karl- og kvenleiðtoga eins og Viktor Orbán í Ungverjalandi, Donald Trump í Bandaríkjunum, Giorgiu Meloni á Ítalíu og Hugo Chávez í Venesúela.    

X

Skjalalestur 1550-1850 (SAG813F)

Nemendur öðlast færni í að lesa íslenska skrift frá tímabilinu, einkum frá 17. og 18. öld. Farið verður í helstu atriði skriftarþróunar, rætt um varðveislu ritheimilda og kynntar aðferðir við útgáfu gamalla texta.

X

Saga – kennsla og miðlun (SAG411M)

Meginmarkmið þessa námskeiðs er að þátttakendur efli þekkingu sína á fjölbreyttri miðlun sögu og hæfni sína til að fjalla um hana með fræðilega viðurkenndum hætti.   Í námskeiðinu er miðlun sögu í víðu samhengi skoðuð, hvort sem er í skóla, á safni eða annars staðar. Fjallað er um leiðir til að greina og miðla hvernig söguleg þekking verður til, hvernig ólíkum sjónarhornum er beitt þegar ákvarðað er hvað telst mikilvæg söguleg þekking og hvaða áhrif viðtakendur hafa á framsetningu sagnfræðilegs efnis. Þátttakendur rýna í svokölluð þröskuldshugtök sagnfræðinnar og leita leiða til að miðla þeim á fjölbreyttan hátt sem höfðað getur til ólíkra hópa.  Byggt er á fyrirlestrum, kynningum, umræðum, sjálfstæðri vinnu, samvinnunámi, lestri og upplýsingaleit. Lögð er áhersla á að þátttakendur tengi umfjöllunarefni fræða og rannsókna við raunverulegar aðstæður á margvíslegum vettvangi. Lokaverkefni námskeiðsins er samvinnuverkefni sem verður kynnt á málstofu í lokin.

X

Brenndu bréfið. Skriftarkunnátta á 19. öld og sendibréf sem heimild (SAG410M)

Í námskeiðinu verður rætt um sendibréf frá lokum átjándu aldar til upphafs þeirrar tuttugustu. Fjallað er um sendibréf sem heimild en einnig sem vettvang tjáningar, sköpunar og sjálfsmótunar. Skoðað verður hverjir skrifuðust á og um hvað. Spurt verður um sannleika og lygi í bréfum. Og hvað segja bréf okkur um stétt, stöðu, kyn? Lesin verða innlend og erlend verk um rannsóknir á sendibréfum og skriftarkunnáttu og sérstök áhersla lögð á hið hversdagslega í bréfaskrifum. Loks verða lesin sendibréf frá þessu tímabili, einkum í útgefnum bréfasöfnum. 

X

Rannsóknarverkefni í sagnfræði vegna MA-ritgerðar (SAG704F)

Rannsóknarverkefni vegna MA-ritgerðar er undanfari að ritgerðinni sjálfri. Nemandi vinnur að rannsóknaráætlun í samráði við leiðbeinanda sinn. Í verkefninu er lýst markmiðum og aðferð, niðurskipan efnis og helstu heimildum sem unnið verður með. Æskilegt er að einnig fylgi drög að nokkrum blaðsíðum af eiginlegum texta. Hámarkslengd er 5000 orð. Að verkefni loknu tekur nemandi til við frekari rannsóknir og skrifar ritgerðina. Námsbraut í sagnfræði annast mánaðarlega málstofu fyrir nemendur sem eru skráðir í Rannsóknarverkefni þar sem nemendum gefst færi á að bera saman bækur sínar og stilla strengi. Umsjón með málstofunni hefur fastráðinn kennari við námsbrautina. Ekki er gefin einkunn heldur lýkur verkefninu með umsögninni „staðið“ eða „fallið“. Leiðbeinandi og umsjónarmaður ákveða niðurstöðuna í sameiningu.

X

„Söguleg áföll og fortíðarvandi þjóða“: Stjórnmál minninga og gleymsku á 20. og 21. öld (SAG815M)

Á námskeiðinu verður fjallað um „fortíðarvanda“ þjóða út frá hugmyndum um „minni“ og „gleymsku“ og leiðir til að takast á við söguleg áföll. Sjónum verður beint að viðbrögðum við „svörtum köflum“ í sögum ríkja á 20. og 21. öld eins og Þýskalandi (nasisminn og helförin), Rússlandi (stalínismi og Úkraínustríðið), Japan (síðari heimsstyrjöld og afleiðingar kjarnorkuárása), Spáni (borgarastríðið og valdatíð Francos), Bandaríkjunum (Víetnam), fyrrverandi Júgóslavíu (þjóðernishreinsanir og nauðganir í stríði), Rúanda (þjóðarmorð) Japan (hernám), Frakklandi (Vichy-stjórnin og nýlendustríð í Alsír) og Suður-Afríku (aðskilnaðarstefnan). Viðfangsefnið verður m.a. greint út frá kenningum um „minni“, „gleymsku“, goðsagnir og „staði minninga, „sekt“ samfélaga og einstaklinga“ og stjórnkerfisbreytingar á umbreytingatímum eins og eftir stríð eða borgarastyrjaldir (e. transitional justice).  Fjallað verður um hvernig söguleg pólitísk átök, þar á meðal þjóðernisdeilur, hafa verið notuð til að skapa og endurskapa sjálfsmyndir þjóða og bæla niður eða takast á við „fortíðarvanda“. Í því skyni verður hugað sérstaklega að hlutverki goðsagna og táknmynda sem og að sannleiksskýrslum, sáttanefndum og stríðsglæparéttarhöldum. Stuðst verður við kenningar og aðferðir í stjórnmálasögu, menningarsögu, stjórnmálafræði og alþjóðalögum, þar sem áhersla verður lögð á samspil sögu, minnis, menningar, kyns og þjóðernishyggju.

X

Hugmyndasaga mannréttinda: Hugsjónir, sigrar, þverstæður og átök (SAG720M)

Hugmyndinni um almenn og algild mannréttindi er stundum lýst sem einkennismerki nútímanns og einu helsta framfaraskrefi stjórnmálasögunnar. Saga mannréttinda er þó um margt þversagnakennd og einkennist af djörfum aðgerðum, fjöldasamstöðu og sigrum en jafnframt blóðugum átökum og útilokun einstaklinga og hópa. Einhugur hefur hvorki ríkt um inntak né umfang mannréttinda – né heldur hvort „mannréttindaorðræðan“ sé nógu beitt vopn gegn misrétti og kúgun. Í námskeiðinu verður kafað ofan í sögulega þróun og heimspekilegar- og pólitískar undirstöður hugmynda um algild og almenn mannréttindi og þann mannskilning sem hefur legið til grundvallar þeim. Hugsjónir á borð við almennt jafnrétti og jöfnuður, einstaklingsfrelsi til athafna, tjáningar og menntunar og frelsi frá nauðung og fátækt verða settar í samhengi við valda sögulega atburði og aðstæður sem þær hafa komist í hámæli. Í námskeiðinu lesum við frumtexta frá mismunandi tímaskeiðum í bland við nýleg yfirlit og greiningar fræðafólks.

X

Einkaskjöl: Vitnisburður hinna valdalausu? (SAG816M)

Einkaskjöl eru einn þýðingarmesti heimildaflokkur sem sagnfræðingar vinna með í rannsóknum sínum. Á tíunda áratug 20. aldar tóku sagnfræðingar bæði erlendis og á Íslandi að vinna markvisst með þessa tegund heimilda og finna áhugaverðar leiðir til að nýta þær við rannsóknir. Mikil grósaka hljóp í heimildaútgáfur þar sem þessi heimildaflokkur var unnin upp í hendurnar á leikum sem lærðum. Í þessu námskeiði verða ólíkar birtingarmyndir einkaskjala könnuð, eðli þeirra og notkunarmöguleikar rannsakaðir og spáð í tengsl einstaklingsins og fræðimannsins er við mismunandi tegundir þeirra eins og dagbækur, einkabréf, ljósmyndir, fræðilega spurningalista, munlegar heimildir, minningaskrif, rafræna miðlun sjálfsins, sjálfsævisögur, endurminningarrit, skáldævisögur og samtalsbækur svo eitthvað er nefnt. Nemendur munu meðal annars fá það hlutverk að kanna þau einkaskjöl sem þau sjálf hafa safnað að sér og mikilvægi þeirra fyrir þeirra eigin líf.

X

Einstaklingsverkefni A (SAG014F, SAG602F)

Ekki má taka meira en 20e í einstaklingsverkefnum. Heimilt er að taka tvö 10e verkefni. Í samráði við kennara á M.A.-stigi velur nemandi sér verkefni til úrlausnar. Umsjónarkennara er heimilt að fela öðrum kennara í greininni að hafa verkstjórn með verkefninu. Sem dæmi um verkefni má nefna samningu kennsluefnis, samningu yfirlitsrits í sagnfræði, gerð fræðilegrar bókaskrár í sagnfræði, útgáfustarfsemi og verkefni, sem veita nemendum þjálfun fyrir störf á skjalasöfnum.

X

Einstaklingsverkefni C (SAG014F, SAG602F)

Ekki má taka meira en 20e í einstaklingsverkefnum. Heimilt er að taka tvö 10e verkefni. Í samráði við kennara á M.A.-stigi velur nemandi sér verkefni til úrlausnar. Umsjónarkennara er heimilt að fela öðrum kennara í greininni að hafa verkstjórn með verkefninu. Sem dæmi um verkefni má nefna samningu kennsluefnis, samningu yfirlitsrits í sagnfræði, gerð fræðilegrar bókaskrár í sagnfræði, útgáfustarfsemi og verkefni, sem veita nemendum þjálfun fyrir störf á skjalasöfnum.

X

Norðurheimur á miðöldum (SAG716M)

Sögulegt yfirlit og saga rannsóknarhefðar um valin þemu norrænna miðalda, með áherslu á Ísland og Noreg frá víkingaöld fram til fjórtándu aldar. Þemu telja, m.a.: vald, konungur og ríki; lög og fæðardeilur; kyngervi, mægðir og félagstengsl; trú og hugarfar; kristnitaka, kristni og kirkja; efnahagur. Grunnþekking í atburðasögu tímabilsins er hjálpleg en ekki skilyrði. Leskunnátta í þýsku og norrænum málum er einnig hjálpleg en ekki skilyrði (skyldulesefni er allt á ensku). Nemendur semja eina ritgerð og stýra umræðum; ekkert skriflegt próf.

X

Meistararitgerð í sögukennslu (SAG442L)

.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hafðu samband

Þjónustuborð Hugvísindasviðs
s.525 4400 hug@hi.is.
Opið virka daga frá kl 10:00–12:00 og 13:00–15:00.

3. hæð Aðalbyggingar.
Sæmundargötu 2, 102 Reykjavík.

Nemendur geta einnig nýtt sér þjónustuborð í Gimli og þjónustuborð Háskólans á Háskólatorgi.

Fylgstu með Hugvísindasviði

 Instagram   Youtube 
 Facebook

Aðalbygging Háskóla Íslands

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.