Skip to main content

Sögukennsla

Sögukennsla

Hugvísindasvið

Sögukennsla

MA gráða – 120 einingar

Meistaranám í sögukennslu er tveggja ára nám á framhaldsstigi sem er ætlað að veita nemendum dýpri skilning á sagnfræði og auk þess öðlast nemendur kennsluréttindi.

Námið er sniðið að nemendum sem hafa lokið BA námi í sagnfræði.

Skipulag náms

X

Kennsla samfélagsgreina og vettvangsnám 1 (SFG105F)

Nemendur kynnast kennsluaðferðum, verkefnagerð og námsmati í samfélagsgreinum og nokkrum greinum hugvísinda, að frátöldum íslensku og námi í erlendum tungumálum, og eru þjálfaðir í að ígrunda eigin afstöðu til náms og kennslu. Verkefni í námskeiðinu eru samþætt vettvangsnámi. Lögð er áhersla á mikilvægi ígrundunar fyrir verðandi kennara. Því er gert ráð fyrir að þátttakendur ígrundi, þrói og dýpki hugmyndir sínar um nám og kennslu í samfélagsgreinum og verði þannig betur í stakk búnir til að kenna sínar greinar og til þess að halda áfram að þróast sem kennarar.

Innan námskeiðsins kynnast nemendur umgjörð og innra starfi skóla. Auk þess fá nemendur nokkra þjálfun í kennslu sinnar greinar. Starfsþjálfun fer fram í framhaldsskólum með megináherslu á faggreinakennslu og tekur mið af starfstíma framhaldsskóla. Gert er ráð fyrir umtalsverðri viðveru nemenda í skólum. Starfsþjálfun er skipulögð í samstarfi við valda skóla og felst m.a. í þátttöku í almennu skólastarfi, aðstoð við kennslu og æfingakennslu. Starfsþjálfun á haustmisseri er tengd námskeiðinu Inngangi að kennslufræði og skal þetta námskeið því tekið samhliða því.

X

Inngangur að kennslufræði (KEN104F)

Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist innsýn inn í íslenskar og alþjóðlegar rannsóknir og kenningar á sviði skólastarfs. Meginviðfangsefni námskeiðs eru kenningar um og rannsóknir á námi, samskiptum og kennsluháttum. Einnig eru kenningar um og rannsóknir á starfi og fagmennsku kennara, svo og lagaákvæði, siðareglur og þess háttar, meðal meginviðfangsefna námskeiðsins.

Við val viðfangsefna og skipulag námskeiðsins er tekið mið af því að meginstarfsvettvangur þeirra sem taka námskeiðið verður í framhaldsskóla.

X

Kenningar í hugvísindum (FOR709F)

Námskeiðinu er ætlað að breikka og dýpka þekkingu nemenda á kenningum í hugvísindum og að veita þeim innsýn í ólík kennileg sjónarmið og aðferðir sem efst eru á baugi í fræðunum. Í námskeiðinu verða kynntar og ræddar valdar kenningar sem hafa sett mark sitt á fræðilega umræðu í hugvísindum síðustu áratugi, samhliða því sem nemendum verður kennt að beita þeim á eigin rannsóknir.

X

Kennsla samfélagsgreina og vettvangsnám 2 (SFG206F)

Nemendur kynnast kennsluaðferðum, verkefnagerð og námsmati í samfélagsgreinum og nokkrum greinum hugvísinda, að frátöldum íslensku og námi í erlendum tungumálum, og eru þjálfaðir í að ígrunda eigin afstöðu til náms og kennslu. Verkefni í námskeiðinu eru samþætt vettvangsnámi. Lögð er áhersla á mikilvægi ígrundunar fyrir verðandi kennara. Því er gert ráð fyrir að þátttakendur ígrundi, þrói og dýpki hugmyndir sínar um nám og kennslu í samfélagsgreinum og verði þannig betur í stakk búnir til að kenna sínar greinar og til þess að halda áfram að þróast sem kennarar.

Innan námskeiðsins kynnast nemendur umgjörð og innra starfi skóla. Auk þess fá nemendur nokkra þjálfun í kennslu sinnar greinar. Starfsþjálfun fer fram í framhaldsskólum með megináherslu á faggreinakennslu og tekur mið af starfstíma framhaldsskóla. Gert er ráð fyrir umtalsverðri viðveru nemenda í skólum. Starfsþjálfun er skipulögð í samstarfi við valda skóla og felst m.a. í þátttöku í almennu skólastarfi, aðstoð við kennslu og æfingakennslu.

Starfsþjálfun á vormisseri er tengd námskeiðinu Námskrá og skólaþróun í framhaldsskólum og skal þetta námskeið því tekið samhliða því.

X

Námskrá og skólaþróun í framhaldsskólum (KEN213F)

Í námskeiðinu er fjallað um námskrárfræði og menntastefnu með áherslu á námskrár, nemendur og þróunarstarf í framhaldsskólum.

Viðfangsefnum í námskeiðinu er ætlað að þjálfa fagmannlegt verklag við mótun menntastefnu, námskrárgerð og skólaþróun í framhaldsskólum á Íslandi. 

X

Nýjar rannsóknir í sagnfræði (SAG201F)

Í námskeiðinu verða lesnar þekktar sagnfræðilegar rannsóknir úr vestrænni menningarsögu sem fjalla um margvísleg efni sem hafa verið ofarlega á baugi innan fagsins. Gerð verður tilraun til að sýna hvernig sagnfræðingar, bæði í lok tuttugustu aldar og í upphafi tuttugustu og fyrstu aldar, glíma við ólík efni í rannsóknum sínum. Umfjöllunin verður sett í hugmyndafræðilegt samhengi og lögð verður áhersla á að sýna fram á ólík gímutök sagnfræðinga þegar viðfangsefnið hefur tengst áðurnefndu fræðasviði. Reynt var að velja áhugaverðar bækur sem eru líklegar til að gefa okkur áhugaverða mynd af stöðu sagnfræðinnar í dag.

X

Málaðu eins og maður, kona! Konur, kyngervi og íslensk listasaga (1875-1975) (SAG606M)

Námskeiðið er hugsað sem endurskoðun á þáttum úr íslenskri listasögu (1875 til 1975) með áherslu á framlagi íslenskra myndlistarkvenna til listasögunnar. Brugðið verður upp mynd af fjölbreyttri listsköpun kvenna á tímabilinu í hinum ýmsu listmiðlum (s.s. málara-og höggmyndalist, ljósmyndun og textíl) og litið til samhljóms og sérstöðu íslenskra myndlistarkvenna í alþjóðlegu, listsögulegu samhengi. Kynnt verða helstu hugtök og rannsóknarspurningar innan femínískrar listfræði, með áherslu á kyngervi og hvernig hægt er að nota orðræðugreiningu til að varpa ljósi á kynjaða orðræðu um myndlist sem beint og óbeint mótaði hugmyndina og skilgreininguna á (karl) snillingnum og íslenskri myndlist.  Einnig verður vikið að mikilvægri baráttu kvenna almennt á tímabilinu gegn mismunun á sviði menningar og lista. Þá verður skoðað hvernig hægt er að beita þverfaglegri nálgun til að fá heildstæðari mynd af stöðu kynjanna í samfélags, list-og menningarsögulegu samhengi hverju sinni. Námskeiðið byggir að mestum hluta á niðurstöðum doktorsritgerðar kennara námskeiðsins í sagnfræði og listfræði, frá haustinu 2023 (sjá, Paint like a man, woman! Women, gender and discourse on art in Iceland fom the late nineteenth century to 1960, sem hægt er að nálgast á opinvisindi.is). 

X

Konur á 20. öld (SAG711M)

Í námskeiðinu verður fjallað um líf og stöðu íslenskra kvenna á 20. öld. Í því samhengi verður skoðað hvernig þjóðfélagsbreytingar, tækniþróun og nýir menningarstraumar mótuðu og breyttu lífi kvenna. Jafnframt því verður spurt hvernig og að hvaða marki konur tóku þátt að móta þessar breytingar. Sjónum er verður ekki aðeins beint að breytingum á formlegri stöðu þeirra, eins og því þegar konur fengu kosningarétt og kjörgengi. Áherslan verður ekki síður á að skoða hvernig konur nýttu sér breyttar aðstæður til að móta sér líf sem var í grundvallaratriðum öðru vísi en líf formæðra þeirra á 19. öld. Þannig verður leitast við að skoða upplifun og reynslu fjölbreytts hóps kvenna, ólíkra kynslóða sem og kvenna úr mismunandi þjóðfélagshópum. Við sögu koma kvenréttindakonur, menntakonur, óskólagengnar alþýðukonur, íhaldssamar konur og róttækar, konur í peysufötum, þröngum pilsum og mussum, sveitastelpur og borgarpíur, fegurðardísir og pönkstelpur. Lögð er áhersla á að kynna og ræða erlendar kenningar og rannsóknir á þessu sviði og skoða í samhengi við íslenskan veruleika og rannsóknir. Jafnframt því verður nemendum falið að gera litla frumrannsókn á afmörkuðu efni og leggja þannig sitt af mörkum til að búa til sögu sem enn er að miklu leyti óskrifuð.

X

Rannsóknarverkefni í sagnfræði vegna MA-ritgerðar (SAG704F)

Rannsóknarverkefni vegna MA-ritgerðar er undanfari að ritgerðinni sjálfri. Nemandi vinnur að rannsóknaráætlun í samráði við leiðbeinanda sinn. Í verkefninu er lýst markmiðum og aðferð, niðurskipan efnis og helstu heimildum sem unnið verður með. Æskilegt er að einnig fylgi drög að nokkrum blaðsíðum af eiginlegum texta. Hámarkslengd er 5000 orð. Að verkefni loknu tekur nemandi til við frekari rannsóknir og skrifar ritgerðina. Námsbraut í sagnfræði annast mánaðarlega málstofu fyrir nemendur sem eru skráðir í Rannsóknarverkefni þar sem nemendum gefst færi á að bera saman bækur sínar og stilla strengi. Umsjón með málstofunni hefur fastráðinn kennari við námsbrautina. Ekki er gefin einkunn heldur lýkur verkefninu með umsögninni „staðið“ eða „fallið“. Leiðbeinandi og umsjónarmaður ákveða niðurstöðuna í sameiningu.

X

Kjósendur og kjörstaðir: Ísland og hnattræna samhengið, ca. 1800–2000 samtímans (SAG508M)

Krafan um að allir fullorðnir einstaklingar hafi jafnan rétt til að kjósa kom snemma fram, en fram til okkar daga hafa ýmsar formlegar og óformlegar hindranir komið í veg fyrir að hún næði fram að ganga. Í námskeiðinu verður fjallað um hvernig kapítalískar hugmyndir, kynja- og kynþáttahyggja höfðu áhrif bæði á mótun laga um kosningarétt og framkvæmd kosninga. Þróunin á Íslandi verður skoðuð í hnattrænu samhengi; litið verður til annarra ríkja í Evrópu, sem og ríkja í Asíu, Norður- og Suður-Ameríku. Gert er ráð fyrir að nemendur vinni sjálfstæða rannsókn byggða á kosningagögnum sem til eru á Þjóðskjalasafni Íslands og/eða öðrum opinberum skjalasöfnum.

X

Einstaklingsverkefni A (SAG014F, SAG602F)

Ekki má taka meira en 20e í einstaklingsverkefnum. Heimilt er að taka tvö 10e verkefni. Í samráði við kennara á M.A.-stigi velur nemandi sér verkefni til úrlausnar. Umsjónarkennara er heimilt að fela öðrum kennara í greininni að hafa verkstjórn með verkefninu. Sem dæmi um verkefni má nefna samningu kennsluefnis, samningu yfirlitsrits í sagnfræði, gerð fræðilegrar bókaskrár í sagnfræði, útgáfustarfsemi og verkefni, sem veita nemendum þjálfun fyrir störf á skjalasöfnum.

X

Einstaklingsverkefni C (SAG014F, SAG602F)

Ekki má taka meira en 20e í einstaklingsverkefnum. Heimilt er að taka tvö 10e verkefni. Í samráði við kennara á M.A.-stigi velur nemandi sér verkefni til úrlausnar. Umsjónarkennara er heimilt að fela öðrum kennara í greininni að hafa verkstjórn með verkefninu. Sem dæmi um verkefni má nefna samningu kennsluefnis, samningu yfirlitsrits í sagnfræði, gerð fræðilegrar bókaskrár í sagnfræði, útgáfustarfsemi og verkefni, sem veita nemendum þjálfun fyrir störf á skjalasöfnum.

X

Norðurlönd: Saga og samfélag. Frá miðstýrðum konungsveldum til velferðarsamfélaga. (SAG704M)

Námskeiðið miðar að því að auka þekkingu og skilning nemenda á sögu Norðurlanda og Vestnorrænu-landanna frá 19. öld til samtímans og sameiginlegum menningar- og stjórnmálaarfi þeirra. Fjallað er um myndun þjóðríkja á 19. öld, iðnvæðingu og almenna efnahagsþróun, stjórnmál og flokka, Norðurlönd á alþjóðavettvangi frá 19. öld til samtímans og samvinnu norrænu ríkjanna sín á milli. Kannað verður hugtakið norræn samfélagsgerð, den nordiske model, sérkenni norrænu velferðarríkjanna í alþjóðlegum samanburði og söguleg þróun þeirra á 20. öld. Sérstök áhersla verður lögð á þróun mála í Vestnorrænu löndunum, Færeyjum, Grænlandi og Íslandi.

X

Hugmyndasaga eftir 1750 (SAG706F)

Hugmyndasaga Vesturlanda eftir 1750 er stórbrotin og um margt þversagnakennd. Tímabilið er gjarnan er tengt við upphaf nútímanns með öllu því sem einkennir hann hvað varðar m.a. hugmyndir um þekkingu, stjórnmál, tækniþróun og gildi. Á þessu tímabili hafa fjölmargar hugmyndir, stefnur og straumar tekist á en í námskeiðinu verður sérstökum sjónum beint að arfi upplýsingarinnar. Meðal þeirra hugmynda og hugmyndastrauma sem einkenna tímabilið er skynsmis- og andskynsemishyggja, vísindatrú, framfarahyggja, fortíðarþrá og síðast en ekki síst margskonar hugmyndir um náttúru og menningu. Stjórnmálasaga tímabilsins einkennist af byltingum og hafa fjölmargar hugmyndir tengdar frelsi (einstaklinga, stétta eða hópa) tekist á. Námskeiðinu er ætlað að veita yfirlit yfir nokkra af helstu hugmyndastraumum og stefnum frá upplýsingu og fram að 7. áratug síðustu aldar. Nemendum gefst síðan kostur á að velja þema til að kafa dýpra í og öðlast þannig færni á að rýna í frumtexta frá tímabilinu og lesa þá með sjónarhornum hugmyndasögunnar.

Gefinn verður kostur á fjarnámi í samráði við kennara. 

X

Norðurheimur á miðöldum (SAG716M)

Sögulegt yfirlit og saga rannsóknarhefðar um valin þemu norrænna miðalda, með áherslu á Ísland og Noreg frá víkingaöld fram til fjórtándu aldar. Þemu telja, m.a.: vald, konungur og ríki; lög og fæðardeilur; kyngervi, mægðir og félagstengsl; trú og hugarfar; kristnitaka, kristni og kirkja; efnahagur. Grunnþekking í atburðasögu tímabilsins er hjálpleg en ekki skilyrði. Leskunnátta í þýsku og norrænum málum er einnig hjálpleg en ekki skilyrði (skyldulesefni er allt á ensku). Nemendur semja eina ritgerð og stýra umræðum; ekkert skriflegt próf.

X

Meistararitgerð í sögukennslu (SAG442L)

.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hafðu samband

Þjónustuborð Hugvísindasviðs
s.525 4400 hug@hi.is.
Opið virka daga frá kl 10:00–12:00 og 13:00–15:00.

3. hæð Aðalbyggingar.
Sæmundargötu 2, 102 Reykjavík.

Nemendur á Hugvísindasviði geta einnig nýtt sér þjónustuborð á Háskólatorgi.

Fylgstu með Hugvísindasviði

 Instagram   Youtube 
 Facebook

Aðalbygging Háskóla Íslands

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.