Skip to main content

Kynjafræði

Kynjafræði

Félagsvísindasvið

Kynjafræði

MA gráða – 120 einingar

Meistaranám í kynjafræði er þverfræðilegt og hagnýtt 120 eininga nám. Námið er skipulagt þannig að hægt sé að stunda það með vinnu og í mörgum námskeiðum er jafnframt boðið upp á fjarnám.
Kynjafræði snýst um margbreytileika mannlífsins. Nánast allt í veröldinni hefur kynjafræðilegar hliðar og fátt er kynjafræðinni óviðkomandi. Fjarnám.

Skipulag náms

X

Málstofa meistaranema í kynjafræði -fyrri hluti (KYN107F)

Markmið námskeiðsins er að skapa samfélag meistaranema í kynjafræði sem fá tækifæri til að ræða meistaraverkefni sín og meistaraverkefni samnemenda undir handleiðslu kennara.

X

Almenn kynjafræði (KYN101F)

Í námskeiðinu er fjallað um helstu viðfangsefni kynjafræða í ljósi margbreytileika nútímasamfélaga. Kynjafræðilegu sjónarhorni er beitt til að gefa yfirlit yfir stöðu og aðstæður ólíkra hópa í samfélaginu. Fjallað er um upphaf og þróun kvennabaráttu og kynjafræða. Kynnt verða helstu hugtök kynjafræða svo sem kyn, kyngervi, eðlishyggja og mótunarhyggja. Skoðað er hvernig kyn er ávallt samtvinnað öðrum samfélagslegum áhrifabreytum.

Kennslufyrirkomulag: Námið byggir á vendikennslu sem þýðir að allir fyrirlestrar verða aðgengilegir á Canvas. Stað- og fjarnemar mæta vikulega í umræðutíma í háskólanum eða á Teams og netnemar taka vikulega þátt í umræðum á Canvas.

X

Kenningar í kynjafræði (KYN211F)

Í námskeiðinu er fjallað um heimspekilegan og kenningalegan grundvöll kynjafræða og gagnrýnið og þverfræðilegt inntak þeirra. Fjallað er um birtingarform og merkingu kyns (e. sex) og kyngervis (e. gender) í tungumáli og menningu, sögu, samfélagi og vísindum. Sjónarmið fræðanna eru kynnt og tengsl þeirra við aðferðafræði. Þá eru nemendur þjálfaðir í að beita á sjálfstæðan og gagnrýninn hátt fræðilegum hugtökum og aðferðum.

X

Hagnýting jafnréttisfræða: Frá bróðurparti til systkinalags (KYN202F)

Jafnréttismál eru hluti af hinu opinberu regluverki á Íslandi og sífellt meiri kröfur eru gerðar á því sviði. Námskeiðið veitir hagnýtan undirbúning fyrir margvísleg störf í almenna og opinbera geiranum þar sem þekking og þjálfun í jafnréttismálum er nauðsynleg.

Námskeiðið er hagnýtur undirbúningur fyrir störf í stjórnun, opinberri stjórnsýslu, fræðslu, kennslu, fjölmiðlun og önnur sérhæfð störf. Markmið námskeiðsins er að kynna grundvallaratriði jafnréttisfræða og þjálfa nemendur í hagnýtu jafnréttisstarfi. Fjallað er um sögu og merkingu jafnréttishugtaksins, með sérstakri áherslu á samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða (e. gender mainstreaming) og kynjaða fjárlagagerð (e. gender budgeting). Fjallað er um birtingarform kyns og mikilvægi kynjavitundar í samfélagslegri umræðu og stefnumótun. Þá eru kynntar hugmyndir um jafnrétti margbreytileikans og samtvinnun ólíkra mismunarbreyta (e. intersectionality). Í nútímasamfélögum eru gerðar síauknar kröfur um þekkingu á jafnréttismálum. Ísland er aðili að alþjóðasamþykktum um jafnrétti og í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er kveðið á um kynjasamþættingu í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum samfélagsins. Slík samþætting krefst þekkingar á jafnréttismálum og gera jafnréttislög ráð fyrir jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum.

X

Hagnýt tölfræði (STJ201F)

Markmið þessa námskeiðs er að nemendur öðlist skilning á eðli hinnar vísindalegu aðferðar og undirstöðuþekkingu í að greina tölfræðileg gögn sem notuð eru við margs konar opinbera ákvarðanatöku. Farið er yfir hugtök á borð við orsök, réttmæti og áreiðanleika. Fjallað er bæði um lýsandi tölfræði og ályktunartölfræði, þar á meðal um breytur, gildi, miðlægni, staðalfrávik, úrtök, marktækni og tilgátuprófanir. Áhersla er lögð á að nemendur öðlist færni í að greina og meta megindlegar rannsóknir með tilliti til aðferðafræði og jafnframt að þeir geti sótt gögn og framkvæmt einfaldar tölfræðiaðgerðir í töflureikni. 

X

Aukaverkefni: Eigindleg aðferðafræði (STJ209F)

Námskeiðið er ætlað þeim sem hafa tekið námskeiðið STJ203F Eigindleg aðferðafræði. Nemendur vinna með eigindleg gögn sem þeir afla eða hafa áður aflað í námskeiðinu STJ203F Eigindleg aðferðafræði. Nemendur greina og túlka gögn sín samkvæmt þeim aðferðum sem fjallað hefur verið um í námskeiðinu. Nemendur læra að leggja mat á aðferðafræðilega framsetningu út frá fyrirliggjandi rannsóknum sem valdar eru í samráði við kennara, og vinna í framhaldinu drög að eigin aðferðafræðilegum kafla sem m.a. felst í að lýsa aðferðum og aðferðafræði í eigin rannsóknum. Loks fá nemendur þjálfun í að setja fram niðurstöður á þann hátt að það þjóni efninu.

X

Eigindleg aðferðafræði (STJ203F)

Qualitative Methods provides students with an introduction to some of the most commonly used qualitative methods and methodological tools in political science. The main focus in the course is on case studies (including process tracing) and various tools and techniques used within case studies, e.g., qualitative content analysis, interviewing, and focus groups. One part of the course is also dedicated to discourse analysis. The course begins with a very brief introduction to philosophy of science and outlines basic ontological, epistemological and methodological issues in the social sciences. The remainder of the course is dedicated to the methods and tools/techniques listed above. Students will gain a deeper understanding of the philosophical underpinnings, assumptions and ambitions of the different methods, but they will also gain practical experience as to the design and execution of research within the different traditions.

The course is designed in a highly interactive way and emphasizes active student participation. It is expected that students have done at least the required reading assigned for the given day and are ready to participate in group work and discussions in class. There are two types of classes in this course: lecture & discussion classes and workshops. Each lecture & discussion class will be divided into three parts: a short agenda-setting lecture by the lecturer (40 minutes), group work (40 minutes), and a concluding general discussion (40 minutes). This design is highly effective with regard to achieving the course’s learning outcomes, but it also requires that students have familiarized themselves with the assigned reading for the day. In the workshops, the class will be divided into two groups (A and B).

X

Starfsnám í jafnréttisfræði (KYN006F)

Nemendur geta fengið 5 vikna starfsþjálfun á vettvangi hagnýts jafnréttisstarfs. Nemendur vinna almenn störf og sérstök verkefni sem tengjast náminu. Kennarar í kynjafræði annast umsýslu með starfsþjálfuninni í samráði við skrifstofu Stjórnmálafræðideildar.

Tilhögun starfsþjálfunar:
Nemandinn fær umsjónarmann á þeim vinnustað eða starfseiningu þar sem hann fær starfsþjálfun. Umsjónarmaður skilgreinir í upphafi starfstíma hvaða verkefni nemandi á að sinna.

Verkefni nemanda geta verið tvenns konar:
Eitt eða fleiri veigamikil verkefni sem a.m.k. helmingur starfstímans er varið í. Hér getur verið um að ræða t.d. söfnun gagna, greiningu þeirra eða úrvinnsla, ritun og kynningu gagna eða verkefna, svo sem ritun skýrslna eða greinargerða, eða önnur verkefni á verkefnasviði viðkomandi vinnustaðar eða einingar. Nemandi mótar verkefnið í samræmi við óskir umsjónarmanns og vinnustaðarins. Verkefnið skal tengjast þeim námsþáttum sem fjallað er um í MA-námi í kynjafræði og reyna á þá þekkingu og færni sem nemandi hefur aflað sér í náminu. Umsjónarkennari námskeiðs skal samþykkja tillögu að verkefni.

Í loks starfstímans skal skila til umsjónarkennara námskeiðsins:
-Meginverkefni nemandans í skýrsluformi (sbr. hér að ofan).
-Staðfesting umsjónarmanns á ástundum nemanda og verkefnavinnu í lok starfstímans. Dagbók sem nemandi hefur haldið meðan á starfstíma stóð. Dagbókin skal fela í sér vikulegt yfirlit þar sem fram kemur hver verkefni vikunnar voru og hve miklum tíma var varið í einstök verkefni.

Einkunn er ekki gefin fyrir starfstímann. Námskeiðinu verður hins vegar ekki lokið fyrr en kennari og umsjónarmaður starfstíma telja að viðunandi árangur hafi náðst. Kennari skilar staðfestingu til deildarskrifstofu.

X

Málstofa meistaranema í kynjafræði - seinni hluti (KYN215F)

Markmið námskeiðsins er að skapa samfélag meistaranema í kynjafræði sem fá tækifæri til að ræða meistaraverkefni sín og meistaraverkefni samnemenda undir handleiðslu kennara.

X

Rannsóknaráætlanir og rannsóknarsnið meistararitgerða (STJ302F)

Námskeiðið fjallar um rannsóknir og rannsóknaraðferðir félagsvísinda og er ætlað nemendum í meistaranámi í Stjórnmálafræðideild.  Í lok námskeiðs skulu nemendur hafa öðlast undirstöðu til að vinna sjálfstætt rannsóknarverkefni svo sem MPA eða MA verkefni. Nemendur skulu þekkja grundvallarhugtök vísindaheimspekinnar og mismunandi rannsóknarsnið. Nemendur vinna rannsóknaráætlun og farið er yfir verklag við gerð fræðiritgerða og uppbyggingu þeirra. Námskeiðið er byggt upp á verkefnum.

Æskilegt er að nemendur hafi valið viðfangsefni lokaritgerðar þegar námskeiðið hefst.

X

MA-ritgerð í kynjafræði (KYN441L, KYN441L, KYN441L)

Lokaverkefni í MA-námi er sjálfstætt rannsóknarverkefni sem nemandi vinnur undir leiðsögn umsjónarkennara. Í verkefninu er tekist á við fræðilega krefjandi viðfangsefni og kenningum beitt á frumlegan hátt.

X

MA-ritgerð í kynjafræði (KYN441L, KYN441L, KYN441L)

Lokaverkefni í MA-námi er sjálfstætt rannsóknarverkefni sem nemandi vinnur undir leiðsögn umsjónarkennara. Í verkefninu er tekist á við fræðilega krefjandi viðfangsefni og kenningum beitt á frumlegan hátt.

X

MA-ritgerð í kynjafræði (KYN441L, KYN441L, KYN441L)

Lokaverkefni í MA-námi er sjálfstætt rannsóknarverkefni sem nemandi vinnur undir leiðsögn umsjónarkennara. Í verkefninu er tekist á við fræðilega krefjandi viðfangsefni og kenningum beitt á frumlegan hátt.

X

Megindleg aðferðafræði (FMÞ001F)

Meginefni námskeiðsins eru megindlegar rannsóknaraðferðir og tölfræði í félags- og menntavísindum. Lögð er áhersla á virka þátttöku nemenda og umfjöllun um þátt rannsókna í samfélaginu. Fjallað er um helstu rannsóknarsnið, úrtaksfræði og gerð spurningalista. Í tölfræðihluta er kennt um lýsandi tölfræði og ályktunartölfræði og fjallað ítarlega um dreifigreiningu og aðhvarfsgreiningu. Nemendur vinna hagnýt verkefni í tölfræðilegri úrvinnslu gagna með jamovi forritinu samhliða fyrirlestrum. Nemendur geta unnið með eigin gögn.

X

Eigindlegar rannsóknaraðferðir I (FMÞ103F)

Markmið námskeiðsins er að nemendur kynnist fjölbreytileika og fræðilegum forsendum eigindlegrar rannsóknahefðar í félagsvísindum og öðlist reynslu í að beita eigindlegum aðferðum. Um hagnýtt námskeið er að ræða þar sem hver nemandi vinnur sjálfstætt rannsóknarverkefni sem felst í því að hanna og undirbúa rannsókn, afla gagna, greina þau og skrifa um helstu niðurstöður undir handleiðslu kennara. Í námskeiðinu verður farið ítarlega í undirbúning rannsókna, gerð rannsóknaráætlunar, gagnaöflun, greiningu og skrif.

X

Menntun, félagslegur hreyfanleiki og félagsleg lagskipting (FÉL501M)

Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni? Í þessu námskeiði er skoðað hvernig félagslegur bakgrunnur einstaklings hefur áhrif á þá félagslegu stöðu sem sem viðkomandi nær að lokum í lífinu og hvernig ójöfnuður endurskapast frá einni kynslóð til annarrar. Námskeiðið fjallar um hvernig félagslegur hreyfanleiki hefur breyst í gegnum tíðina og milli landa og hvaða hlutverki menntun gegnir fyrir félagslegan hreyfanleika. Fjallað verður um helstu kenningar sem notaðar eru til að útskýra ójöfnuð í menntun og félagslegum hreyfanleika og (hugsanlegar) breytingar yfir tíma. Á námskeiðinu verður lögð áhersla á félagslegan bakgrunn einstaklinga (stétt, menntun foreldra eða félags-efnahagslega stöðu foreldra) en misrétti á grundvelli kyns og þjóðernisuppruna  verður einnig skoðað á síðustu fundum. Í málstofunni munum við lesa blöndu af klassískum og nýlegum textum. Jafnframt verður sérstök áhersla lögð á að fjalla um lestur og niðurstöður frá öðrum löndum í samanburði við Ísland.

X

Kynusli í myndlist (LIS429M)

Í námskeiðinu eru myndlistarverk skoðuð í kynlegu ljósi og fjallað um kenningalegan grundvöll kynjafræða og þverfaglegt inntak þeirra. Leitast er við að greina hvernig hugmyndir um kyngervi hafa áhrif á listsköpun jafnt sem umræðu og skrif um myndlist. Birtingarform og merking kyngervis í tungumáli, samfélagi og menningu eru einnig greind með áherslu á staðalímyndir og/eða uppbrot þeirra í afstöðu og verkum listamanna. Stuðst er við hugmyndir femínista og hinsegin fræða til að afhjúpa áhrif kyngervis í verkum sumra listamanna sem hliðra staðalímyndum kven- og karlleika og skapa usla í ríkjandi orðræðu og kynjakerfi Vesturlanda. Einnig er fjallað um listheiminn út frá kynjafræðilegu sjónarhorni og kynntar rannsóknir á margbreytilegum birtingarmyndum kynjamisréttis í samtímanum.

X

Siðferðileg álitamál samtímans (HSP723M)

Áleitin siðferðileg úrlausnarefni ofarlega á baugi í nútímasamfélagi eru meginviðfangsefni þessa námskeiðs. Sjónum er beint að möguleikum siðfræðinnar á að takast á við klemmur sem upp koma, jafnt í lífi einstaklinga sem á samfélagsgrundvelli. Val á viðfangsefnum getur breyst milli ára en meðal mögulegra viðfangsefna námskeiðsins má nefna tjáningarfrelsi, stöðu flóttafólks, réttindi dýra, fátækt og ójöfnuð, kynjamisrétti, kynþáttamisrétti, umhverfismál og ýmis álitamál úr heilbrigðiskerfinu. Farið er í tengsl fræðilegrar og hagnýttrar siðfræði. Námskeiðið byggir á fyrirlestrum með ríkri áherslu á virka þátttöku nemenda í umræðum.

X

Lífshlaupið, sjálf og samfélag (FFR302M)

Aðstæður og reynsla fatlaðs fólks er miðlæg í umfjöllun námskeiðsins, þar sem áhersla er á lífshlaupið og þau meginsvið sem snerta daglegt líf, svo sem fjölskyldulíf, menntun, atvinnu og búsetu. Rýnt verður í íslenskar og erlendar rannsóknir um líf og aðstæður fatlaðs fólk og þau fjölmörgu öfl sem móta sjálfsmynd og sjálfsskilning fatlaðra barna, ungmenna og fullorðins fólks. Fræðileg umfjöllun námskeiðsins er tengd við lagasetningar, stefnumótun, þjónustu, velferðarkerfi og félagslegar aðstæður fatlaðs fólks. 

X

Siðfræði náttúrunnar (HSP722M)

Námskeiðið fjallar um samband manns og náttúru frá heimspekilegu sjónarhorni. Fjallað er um helstu frumkvöðla náttúrusiðfræðinnar og áhrifamestu kenningar sem settar hafa verið fram. Gerð grein fyrir ólíkri náttúrusýn manna og mismunandi grunnafstöðum til náttúrunnar - þ.e. mannhverfri, visthverfri og lífhverfri afstöðu. Einnig fjallað um tengsl umhverfis- og þróunarmála og tengsl umhverfishyggju og lýðræðisþróunar. Rætt um álitaefni eins og: Getur siðfræðin nýst við lausn umhverfisvandamála?, Hvers konar verur hafa siðferðisstöðu?, Geta náttúrleg fyrirbæri búið yfir eigingildi?, Hafa dýr einhver réttindi?, Er einhver grundvallarmunur á (af)stöðu karla og kvenna gagnvart náttúrunni?, og Hvert er siðferðilegt inntak sjálfbærrar þróunar?

X

Starfsnám í jafnréttisfræði (KYN006F)

Nemendur geta fengið 5 vikna starfsþjálfun á vettvangi hagnýts jafnréttisstarfs. Nemendur vinna almenn störf og sérstök verkefni sem tengjast náminu. Kennarar í kynjafræði annast umsýslu með starfsþjálfuninni í samráði við skrifstofu Stjórnmálafræðideildar.

Tilhögun starfsþjálfunar:
Nemandinn fær umsjónarmann á þeim vinnustað eða starfseiningu þar sem hann fær starfsþjálfun. Umsjónarmaður skilgreinir í upphafi starfstíma hvaða verkefni nemandi á að sinna.

Verkefni nemanda geta verið tvenns konar:
Eitt eða fleiri veigamikil verkefni sem a.m.k. helmingur starfstímans er varið í. Hér getur verið um að ræða t.d. söfnun gagna, greiningu þeirra eða úrvinnsla, ritun og kynningu gagna eða verkefna, svo sem ritun skýrslna eða greinargerða, eða önnur verkefni á verkefnasviði viðkomandi vinnustaðar eða einingar. Nemandi mótar verkefnið í samræmi við óskir umsjónarmanns og vinnustaðarins. Verkefnið skal tengjast þeim námsþáttum sem fjallað er um í MA-námi í kynjafræði og reyna á þá þekkingu og færni sem nemandi hefur aflað sér í náminu. Umsjónarkennari námskeiðs skal samþykkja tillögu að verkefni.

Í loks starfstímans skal skila til umsjónarkennara námskeiðsins:
-Meginverkefni nemandans í skýrsluformi (sbr. hér að ofan).
-Staðfesting umsjónarmanns á ástundum nemanda og verkefnavinnu í lok starfstímans. Dagbók sem nemandi hefur haldið meðan á starfstíma stóð. Dagbókin skal fela í sér vikulegt yfirlit þar sem fram kemur hver verkefni vikunnar voru og hve miklum tíma var varið í einstök verkefni.

Einkunn er ekki gefin fyrir starfstímann. Námskeiðinu verður hins vegar ekki lokið fyrr en kennari og umsjónarmaður starfstíma telja að viðunandi árangur hafi náðst. Kennari skilar staðfestingu til deildarskrifstofu.

X

Kenningar og sjónarhorn í fötlunarfræði (FFR102F)

Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist þekkingu á þróun hugmynda og kenninga um fötlun og fái innsýn í fræðilega umfjöllun og rannsóknir á því sviði. Lögð er áhersla á þróun fötlunarfræða sem þverfræðilegrar og gagnrýnnar fræðigreinar með náin tengsl við réttindabaráttu fatlaðs fólks. Fjallað verður um margbreytileg félagsleg og menningarleg sjónarhorn og kenningar fræðigreinarinnar. Sérstök áhersla verður á þá hugmyndafræði sem legið hefur til grundvallar stefnumótunar og þjónustu við fatlað fólk undanfarna áratugi, þ.e.; 1) hugmyndafræði um “eðlilegt líf” normaliseringu, 2) hugmyndafræði um “sjálfstætt líf” independent living og 3) mannréttindasjónarmið. Jafnframt verður fjallað um tengsl hugmyndafræðinnar við daglegt líf fatlaðs fólks. 

X

Aðstæðubundið sjálfræði og kynverund (ÞRS102F)

Í námskeiðinu er fjallað um kenningar um aðstæðubundið sjálfræði og með hvaða hætti megi nota þær til að stuðla að auknu sjálfræði þeirra sem þurfa mikinn stuðning í daglegu lífi. Einnig er fjallað um hugtökin kyngervi og kynverund í samhengi við líf og reynslu fatlaðs fólks. Leitast verður við að fjalla um hugtakið sjálfræði út frá siðfræðilegum skilningi og í því skyni verður fjallað um kenningar femínista um hugtakið aðstæðubundið sjálfræði. Skoðaðar verða ýmsar hliðar sjálfræðis eins og til dæmis hvernig megi auka virðingu fyrir persónueinkennum, sjálfstæði, kynhlutverkum og kynverund. Sjónum er beint að því hvernig litið hefur verið á fatlað fólk sem eilíf börn, kynlaus eða með hömlulausa kynhvöt. Þessar mótsagnakenndu staðalmyndir hafa orðið til þess að fatlað fólk hefur takmarkað aðgengi að fullorðinshlutverkum. Í námskeiðinu er sjálfræðishugtakið tengt við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

X

Kynjajafnrétti í skólastarfi (KME101F)

Í námskeiðinu verður fjallað um kynjafræði og hvernig helstu hugtök þeirra, svo sem kyn, jafnrétti, kyngervi, kynhlutverk, samtvinnun, hinsegin fræði, kynímynd, staðalmyndir, kynbundið ofbeldi, kynfræðsla, karlmennska og kvenleiki, nýtast til að skilja og skipuleggja skólastarf. Þá verður kynnt löggjöf um kynjajafnrétti og kynjajafnréttisfræðslu og fjallað um tengsl kynjajafnréttis og annars jafnréttis, sbr. aðalnámskrá leik-, grunn- og framhaldsskóla. Sérstök áhersla er lögð á að nemendur í námskeiðinu geti greint námsumhverfi, aðferðir og námsefni frá kynjasjónarhorni. Einnig að þeir geti greint val leikja í leikskóla og í frímínútum og skólaíþróttum.

Nemendur þurfa að mæta í lok nóvember til að kynna lokaverkefni sitt í námskeiðinu.

Í námskeiðinu verður gengið verður út frá því grundvallarsjónarmiði sem kemur fram í aðalnámskrá leik-, grunn- og framhaldsskóla að menntun um jafnrétti kynjanna feli í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu í því augnamiði að kennarar geti kennt börnum og ungmennum að greina þær aðstæður sem leiða til mismununar sumra og forréttinda annarra á forsendum kyns.

Námsmat mun felast í lestrardagbókum, hugtakakönnun og hagnýtum verkefnum tengdum skólastarfi á viðkomandi skólastigi. Skyldumæting er í kynningu lokaverkefnis. 

X

Hið hæfa foreldri? Orðræður um foreldrahlutverkið (FFU102M)

Í þessu námskeiði verða orðræður um foreldrahlutverkið teknar til skoðunar. Fjallað verður um samfélagslegt samhengi þeirra krafna sem gerðar eru til foreldra, meðal annars um einstaklingsvæðingu foreldrahlutverksins og ákafa mæðrun. Til skoðunar verða þær kröfur sem eru gerðar til foreldra í dag svo sem skólaval, tómstundaval, samskipti heimilda og skóla/tómstunda, heimanám, matarræði, skjátímastjórnun, örvun, brjóstagjöf og kröfuna um að vera upplýst og meðvitað foreldri. Skoðað verður í gagnrýnu ljósi hvaðan þessar kröfur koma, hvaða áhrif þær hafa á foreldra og þær settar í samhengi við nýfrjálshyggju, markaðsvæðingu og orðræðu frá sérfræðingum. Ríkjandi menntastraumar gera ráð fyrir foreldrum sem eins konar „neytendum“ á „menntamarkaði“ og því er skólaval og –þátttaka á menntavettvangi vaxandi rannsóknarsvið í skóla- og uppeldisrannsóknum. Lesnar verða erlendar og íslenskar rannsóknir um foreldrahlutverkið og hvernig forréttindi og jaðarsetning mótar möguleika foreldra til að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru. Áhersla verður lögð á að skoða sérstaklega þá hópa fólks sem hafa fengið stöðu „hæfra“ og „vanhæfra“ foreldra og tengja við kenningar um kyn, stétt, uppruna, fötlun, kynhneigð og kynvitund. Nemendur fá innsýn inn í foreldrarannsóknir á sviði gagnrýnnar félagsfræði, félagssálfræði, menntunarfræði og kenninga um vald og jaðarsetningu.

X

Ofbeldisbrot frá sjónarhóli kvennaréttar (LÖG104F)

Í kjörgreininni verður fjallað um eftirfarandi fjóra brotaflokka: Nauðgun og önnur brot gegn kynfrelsi fólks. Kynferðisbrot gegn börnum. Vændi. Heimilisofbeldi. Gerð verður grein fyrir skilyrðum refsiábyrgðar fyrir brot, sem falla undir þessa brotaflokka og viðurlögum fyrir þau. Þá verður fjallað um nokkra þætti opinbers réttarfars sem sérstaklega tengjast meðferð þessara brota, t.d. reglur um sönnun og réttarstöðu brotaþola. Sérstök áhersla verður lögð á að nálgast viðfangsefnið út frá þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið í kvennarannsóknum síðustu ára. Auk þess að fjalla um refsiréttarlega þætti efnisins verður vikið að refsipólitískum viðhorfum, þ.e. á hvern hátt þyrfti að breyta gildandi ákvæðum, svo að þau þjóni betur hagsmunum kvenna. Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist þekkingu á eðli og inntaki kynbundins ofbeldis og verði færir um að leysa úr lögfræðilegum álitaefnum á því sviði. Námskeiðið er að jafnaði kennt annað hvert ár. Minnt er á að framboð námskeiða er háð ýmsum fyrirvörum, þar á meðal að deild hefur heimild til að fella niður fámenn námskeið.

X

Hnattvæðing (MAN095F)

Í námskeiðinu verða skoðaðar nýlegar kenningar og rannsóknir sem tengjast hnattvæðingu og hnattrænum ferlum. Markmið námskeiðsins er að gefa nemendum yfirsýn yfir mikilvæg þemu sem tengjast hnattvæðingarferlum.  Skoðaðar verða rannsóknir sem varpa ljósi á ólíkar hliðar hnattvæðingar og afleiðingar fyrir félagslegan, efnislegan og pólitískan veruleika. Í námskeiðinu er bæði fjallað á gagnrýnin hátt um fyrrnefnd hugtök en einnig lögð áhersla á að skoða rannsóknir á hvernig fólk er þátttakendur/þolendur/gerendur í hnattvæðingarferlum.

Kennslan felst í fyrirlestrum og umræðum. 

Námskeiðið er kennt á ensku, en hægt er að skila inn verkefnum á íslensku.

X

Innbyrðing kúgunar (ÞRS003M, SFG004M)

Kúgun minnihlutahópa er málefni sem félagsvísindi hafa skoðað töluvert síðustu áratugina en styttra er síðan farið var að rannsaka sálfræðileg áhrif kúgunar sem birtist oft í innbyrðingu kúgunarinnar. Í þessu námskeiði verða nemendum kynntar gagnrýnar kenningar sprottnar upp úr síð-nýlendu sálfræði. Farið verður bæði í það hvernig kúgun er innbyrt en einnig verður varpað ljósi á innbyrðingu kúgunar ákveðinna hópa, t.d. fatlaðra, innflytjenda og hinsegin fólks. Þekking samfélagsins á sálrænum áhrifum innbyrðingar þessara hópa er mikilvæg og þegar fagfólk starfar á vettvangi er þýðingarmikið bregðast rétt við birtingarmyndum innbyrðingar og reyna að draga úr neikvæðum áhrifum hennar eins og hægt er. 

X

Málaðu eins og maður, kona! Konur, kyngervi og íslensk listasaga (1875-1975) (SAG606M)

Námskeiðið er hugsað sem endurskoðun á þáttum úr íslenskri listasögu (1875 til 1975) með áherslu á framlagi íslenskra myndlistarkvenna til listasögunnar. Brugðið verður upp mynd af fjölbreyttri listsköpun kvenna á tímabilinu í hinum ýmsu listmiðlum (s.s. málara-og höggmyndalist, ljósmyndun og textíl) og litið til samhljóms og sérstöðu íslenskra myndlistarkvenna í alþjóðlegu, listsögulegu samhengi. Kynnt verða helstu hugtök og rannsóknarspurningar innan femínískrar listfræði, með áherslu á kyngervi og hvernig hægt er að nota orðræðugreiningu til að varpa ljósi á kynjaða orðræðu um myndlist sem beint og óbeint mótaði hugmyndina og skilgreininguna á (karl) snillingnum og íslenskri myndlist.  Einnig verður vikið að mikilvægri baráttu kvenna almennt á tímabilinu gegn mismunun á sviði menningar og lista. Þá verður skoðað hvernig hægt er að beita þverfaglegri nálgun til að fá heildstæðari mynd af stöðu kynjanna í samfélags, list-og menningarsögulegu samhengi hverju sinni. Námskeiðið byggir að mestum hluta á niðurstöðum doktorsritgerðar kennara námskeiðsins í sagnfræði og listfræði, frá haustinu 2023 (sjá, Paint like a man, woman! Women, gender and discourse on art in Iceland fom the late nineteenth century to 1960, sem hægt er að nálgast á opinvisindi.is). 

X

Kynferðisbrot, lög og réttlæti (FÉL601M)

Umræðan um kynferðisbrot og hvernig eigi að bregðast við þeim hefur farið hátt síðustu misseri, þá sérstaklega í kjölfar #MeToo hreyfingarinnar. Rannsóknir sýna að einungis lítill hluti kynferðisbrotamála eru kærð til lögreglunnar og aðeins örlítill hluti þeirra lýkur með sakfellingu. Því má segja að málaflokkurinn einkennist af réttlætishalla. Í auknum mæli sjáum við einnig þolendur kynferðisbrota segja sögu sína á samfélagsmiðlum eða í fjölmiðlum og í sumum tilvikum eru meintir gerendur ásakaðir opinberlega sem getur vakið ólík viðbrögð og haft ýmiss konar afleiðingar.

Í þessu námskeiði verður leitað skýringa á þessari samfélagsþróun út frá sjónarhóli félags- og afbrotafræði. Í námskeiðinu verður meðal annars leitað svara við eftirfarandi spurningum: Hverjir fremja kynferðisbrot og af hverju? Hvernig er reynsla karla sem verða fyrir kynferðisbrotum önnur en reynsla kvenna? Hver er munurinn á réttarstöðu sakborninga og réttarstöðu brotaþola? Af hverju er munur á ætlun og framkvæmd laganna? Hvernig hefur refsivörslukerfið þróast? Hver er munurinn á lagalegu réttlæti og félagslegu réttlæti? Hvernig eru óhefðbundin réttarkerfi betri eða verri en hefðbundin réttarkerfi? 

X

Fötlun og menning (FFR102M)

Meginviðfangsefni námskeiðsins er að rýna í stöðu og ímynd fatlaðs fólks og birtingarmyndir fötlunar í (dægur)menningu og listum. Fjallað verður um ímyndir og hlutverk fatlaðs fólks í sögulegu samhengi, dægurmenningu, fjölmiðlum, bókmenntum, listum og almennri orðræðu. Sérstök áhersla verður lögð á (list)menningu fatlaðs fólks, sjálfskilning, kvenleika og karlmennsku. Rýnt verður í fötlun sem einn lið í fjölbreytileika samfélaga og staðsetningu fatlaðs fólks í menningu og sögu.

X

Hegðunarvísindi í opinberri stefnumótun (OSS225F)

Í þessu námskeiði læra nemendur um valin hugtök og rannsóknir úr félagssálfræði, atferlishagfræði og ákvarðanatökufræðum sem nýta má við gerð, greiningu og framkvæmd stefnumótunar. Bornar verða saman kenningar skynsemishyggju og fjötraðrar skynsemishyggju. Nemendur munu öðlast skining á því hvernig fólk tekur ákvarðanir og leggur mat á áhættu, áhrifum hvata á ákvarðanir og hvernig hafa má áhrif á viðhorf og hegðun. Fjallað verður um millihópasamskipti og samninga. Loks verða tengsl stefnumótunar og hagsældar tekin til umræðu.

X

Menning og vegferð ungmenna (UME009M)

Námskeiðið tekur til félagsfræðilegra og þverfaglegra kenninga og rannsókna um ungmenni, menningu þeirra, vegferð og menntun. Ungmennahugtakið á við breytilegan aldurshóp eftir samfélögum og söguskeiðum en í okkar síðnútíma einkum aldurshópinn 16-25 ára. Líf og aðstæður ungmenna verða skoðuð sitt á hvað frá ólíkum sjónarhornum félagsfræði og ýmissa skyldra greina og áhersla lögð á þverfaglega, menntavísindalega samþættingu. Hugtakið vegferð ungmenna (e. transition to adulthood) var fram undir 1990 notað um leið ungmenna frá skólanámi til fastrar atvinnu, en hefur síðan verið víkkað út til fjölskyldumyndunar, samfélagsþátttöku og fleiri atriða.

Í námskeiðinu verður sjónum beint að nýlegum rannsóknum á vegferð í mismunandi löndum og eftir félagslegum bakgrunni. Rýnt verður sérstaklega í rannsóknir sem gerðar hafa verið á menningu ungmenna á Íslandi og öðrum Norðurlöndum. Vegferðin er sérstaklega könnuð í gegnum þrenns konar kerfi, þ.e. a) reynslu og val þeirra innan framhalds- og háskólakerfisins, b) vegferð innan vinnumarkaðar og c) í kynverundarkerfinu.

X

Hinseginlíf og hinseginbarátta (KYN212F)

Námskeiðið er inngangsnámskeið sem varpar ljósi á sögu hinseginfólks (sam-, tvíkynhneigðra, pansexual, transfólks og fleiri) á Íslandi, reynsluheim þeirra, baráttumál og menningu. Sagan er sett í alþjóðlegt samhengi og gerð er grein fyrir helstu vörðum í mannréttinda¬baráttunni, réttarstöðu og löggjöf. Fjallað er um mikilvæga þætti félagsmótunar¬innar, svo sem sköpun sjálfsmyndar og þróun sýnileika, samband við upprunafjölskyldu og leit að eigin fjölskyldugerð. Rætt er um muninn á samkynhneigðum fræðum og hinsegin fræðum, og kynntar eru kenningar um mótun kynferðis, kyngerva (sex og gender) og kyngervisusla (gender trouble). Vikið er að samræðu hinseginfólks við stofnanir samfélagsins og fjallað um líðan þeirra og lífsgæði. Fjallað er um þátt kynhneigðar í mótun menningar og ýmsar menningargreinar eru teknar sem dæmi um það hvernig veruleiki hinseginfólks birtist í listum og menningu. 

X

Eldhúsnautnir, megrunarkúrar og matreiðsluþættir (ÞJÓ609M)

Námskeiðið verður lotukennt alla daga vikunnar 10.-14. maí 2021 (sem er vikan eftir að lokaprófum á vormisseri lýkur) í sex stundir hvern dag (samtals 30 stundir). Nemendur verða að lesa allt námsefnið áður en námskeiðið hefst. Þeir vinna verkefni í vikunni og skrifa lokaritgerð eftir að námskeiðinu lýkur.

Í slow motion sleikir sjónvarpskokkurinn Nigella á sér fingurinn eftir að hafa dýft honum í rjómalagaða sveppasósu. Hún gefur frá sér nautnalegt hljóð, horfir í myndavélina með blik í auga og vill að við njótum með sér. Á annarri stöð öskrar sjónvarpskokkurinn Gordon Ramsey látlaust á aðra kokka sem berjast við að bjarga veitingastöðunum sínum. Margir þeirra fella tár undir reiðilestrinum.

Nautn, reiði, stress, spenna, karlremba, kvenleiki, rjómi, megrunarkúrar, heilsusamlegt mataræði, matarblogg, baksturskeppnir og barátta fyrir bættum og réttlátum matarháttum endurspeglar vinsældir matar sem afþreyingar og tækis til að rækta manneskjur og samfélag. Hvað útskýrir þennan gífurlega áhuga, jafnvel þráhyggju, samtímans gagnvart matarháttum og næringu?

Í námskeiðinu verður rýnt í nokkur vel valin hráefni sem umbreytt hefur verið í girnilegar menningarafurðir og sérstök áhersla lögð á hvernig hugmyndir um kyngervi og lífsstíl endurspeglast í matartengdum fyrirbærum á borð við matreiðsluþætti, matreiðslubækur, matarkeppnir og matarblogg.

X

Fjölbreytileiki og inngilding (inclusion) í skipulagsheildum (VIÐ288F)

Námskeiðið veitir nemendum tækifæri til að bera kennsl á þörfina á að þróa vinnuumhverfi sem byggir á jafnréttishugsun og inngildingu ólíkra hópa þar sem fjölbreytt framlag er velkomið. Nemendur læra að bera kennsl á félagslegt réttlæti/útilokun minnihlutahópa t.d. vegna kynþáttar, uppruna, aldurs, kyns, trúarbragða, kynhneigðar, fötlunar/færni, stéttar og annara fjölbreytileikaþátta í skipulagsheildum og nýta þekkinguna til að greina og beita aðferðum stjórnunar fjölbreytileika og  inngildingar í skipulagsheildum. Nemendur kynnast nýjum rannsóknum á sviðinu til að efla gagnrýna hugsun um viðfangsefni eins og sjálfsmynd (identity), (ó)meðvitaða hlutdrægni, samvinnu í fjölbreyttum teymum, (ó)jöfn tækifæri í skipulagsheildum og tækifærum sem felast í fjölbreytileikanum. 

Námskeiðið er kennt á ensku

X

Lesnámskeið á sérsviði (KYN008F)

Í námskeiðinu rýnir nemandinn í afmarkað svið og gerir fræðilega samantekt á efni sem hann hefur áhuga á og tengist áherslu hans í náminu. Nemandinn setur fram námsmarkmið og tímaáætlun í samráði við leiðbeinanda, leitar eftir fræðilegum heimildum, um 400 blaðsíður, greinir þær og gagnrýnir, og nýtir upplýsingarnar til að setja fram þekkingu á nýjan hátt í lestardagbók sem skilað er fjórum sinnum yfir misserið. Umfang lestardagbókar er um 5.000 orð

X

Trans börn og samfélag (UME204M)

Markmið:

Markmið námskeiðsins er að nemar kynnist hugmyndum, kenningum og rannsóknum í fræðum sem koma inn á veruleika og upplifanir trans fólks (trans fræði). Einnig verða meginhugmyndir gagnrýnna bernskufræða kynntar. Áhersla verður lögð á að þátttakendur verði meðvitaðir um veruleika trans ungmenna og trans barna og samfélagslega orðræðu um málaflokkinn.

Viðfangsefni:

Unnið verður meðal annars með hugtökin kyngervi, kynjatvíhyggja, kynsegin, kynvitund, samtvinnun, trans* hugtakið, síshyggja, umhyggja, barnavernd og réttindi barna. Fjallað verður um megininntak transfræða/hinseginfræða og hvernig hægt er að nýta sér þá nálgun til varpa ljósi á uppeldi, menntun, samfélag, tómstunda- og félagsstarf og íþróttir. Nálgunin verður í anda gagnrýnna trans- og bernskufræða og félagslegrar mótunarhyggju. Enn fremur verður fjallað um skólakerfi og aðrar stofnanir, hérlendis og erlendis, og hvernig margs konar mismunun skapast og viðhelst og getur ýtt undir stofnanabundna transfóbíu og síshyggju. Lesnar verða nýjar íslenskar og erlendar rannsóknir í tengslum við efnið. Þá verður lögð áhersla á að þjálfa verðandi uppeldis- og menntunarfræðinga, þroskaþjálfa, foreldrafræðara, kennara, tómstunda- og félagsmálafræðinga, stjórnendur og annað fagfólk til að skapa hinsegin/trans vænt andrúmsloft í viðeigandi hópum sem unnið er með.

X

Landmiðuð skrif: Femínísk umhverfi í bókmenntum 20. aldar (ENS620M)

Áður en samtímagreiningar á eyðandi áhrifum mannmiðaðrar hugsunar á umhverfi og lífkerfi komu fram höfðu sögur árþjóða og femínískra höfunda gagnrýnt hugmyndina að maðurinn drottnaði yfir öðrum lífverum. Í þessu námskeiði munum við nota hugtökin „femínismi“ og „umhverfi“ sem leiðarstef til að greina verk kvenhöfunda eins og Leslie Marmon Silko, bell hooks, Willa Cather, Maria Lugones og Muriel Rukeyser og skoða hvernig verk þeirra flækja og dýpka skilning okkar á hugtökunum.

Saman munum við skoða hvernig áhrif nýlendustefnu birtast í því hvernig hugtökin „femínismi“ og „umhverfi“ eru notuð sem lýsing á verkum ákveðinna höfunda og ekki annarra. Við munum takast á við spurningar eins og; hvaða ólíku hugmyndir um umhverfisvernd má sjá í verkum höfunda námskeiðsins? Hvaða merkingu má leggja í hugtakið „umhverfisbókmenntir“ og hvernig gætu femínísk fræði hjálpað okkur að svara þeirri spurningu?

X

Menntun og kyngervi (UME004M)

Markmið: Markmið námskeiðsins er að nemar kynnist hugmyndum, kenningum  og rannsóknum um uppeldi og menntun í ljósi kynjafræðilegra sjónarmiða og hugtaksins kyngervi (gender).

Viðfangsefni. Unnið verður með hugtökin, kyngervi, kynjun, kynímyndir, staðalmyndir, kvenfrelsi, félagsleg mismunun, kynhlutverk, kynjablinda, tvíhyggja og valdatengsl. Fjallað verður um hvernig hugmyndir um menntun kynjanna hafa þróast sögulega, rýnt í orðræðuna um drengi og stúlkur og staðreyndir og gagnrýni á menntun og kynferði á öllum skólastigum. Sjónarmið félagslegar mótunarhyggju og eðlishyggju verða notuð til að útskýra mismunandi hugmyndir um kynjamismunun. Athyglinni verður beint sérstaklega að nýjum rannsóknum á sviðinu og fræðilegri nálgun mismunandi fræðimanna. Að síðustu verður athyglinni beint að íslenska skólakerfinu, stöðu drengja og stúlkna, leiðtogum og stjórnendum, námskrám og stöðu lögbundinnar jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum. Lesnar verða nýjar íslenskar og erlendara rannsóknir á kyngervi og skólastarfi, t.d. rannsóknir á námsframmistöðu kynjanna, mismunandi hugmyndum stelpna og stráka um námsgreinar, námshæfni og námsval og hvernig skólar bregðast við kynjun skóla og samfélags.

Vinnulag
Námskeiðið er skipulagt sem staðnám, með möguleikum til fjarnáms ef þörf krefur. Námskeiðið byggist á fyrirlestrum, umræðum, málstofum, hópvinnu og verkefnavinnu.

X

Sjónrænar rannsóknaraðferðir (FMÞ001M)

Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist aðferðarfræðilega þekkingu, skilning og verklega færni til að greina myndir og önnur sjónræn rannsóknargögn (ljósmyndir, kvikmyndir, teikningar, auglýsingar, netmiðla, o.s.frv.). Farið verður í ýmsar aðferðir við greiningu á sjónrænu efni og hugað verður að sjónrænum gagnasöfnum og vinnu með þau. Nemendur fá þjálfun í því að kynna sér og leggja sjálfstætt mat á fyrirliggjandi rannsóknir. Námskeiðið byggist upp á hagnýtum verkefnum, þar sem nemendur undirbúa og hanna rannsóknaáætlanir, afla gagna og spreyta sig á greiningu þeirra. Námskeiðið er þverfaglegt og hentar nemendum á hug- og félagsvísindasviði, sem og öðrum sviðum.

X

Eigindlegar rannsóknaraðferðir II (FMÞ201F)

Fjallað er þá fjölbreytni sem er að finna í  eigindlegum rannsóknum. Rýnt er í fimm mismunandi rannsóknarhefðir, þ.e. tilviksathuganir, frásögurannsóknir, etnógrafíu, fyrirbærafræði og grundaða kenningu. Nemendur öðlast aukna færni í að afla rannsóknargagna á vettvangi og beita mismunandi greiningaraðferðum á eigindleg gögn. Þeir fá jafnframt þjálfun í framsetningu niðurstaðna í tengslum við fræðiskrif. Þá fá nemendur tækifæri til að ígrunda eigin rannsóknir og sjálfa sig sem eigindlega rannsakendur.

X

Fjölmenning og fólksflutningar (MAN017F)

Oft er talað um fólksflutninga og fjölmenningu sem eitt megin einkenni samfélaga samtímans. Í námskeiðinu eru kynntar helstu kenningar og stefnur sem fram hafa komið í tengslum við rannsóknir á fólksflutningum og fjölmenningu. Fjallað er á gagnrýninn hátt um margskonar kenningar sem tengjast þessum rannsóknarviðfangsefnum og gagnsemi þeirra skoðuð. Skoðuð eru hugtök eins og menning, samlögun, aðlögun og samþætting, en jafnframt gert grein fyrir hreyfanleika fortíðar og tengslum hans við fjölmenningu. Í námskeiðinu eru ólíkar nálganir og kenningarmótun fræðimanna fyrst og fremst dregnar fram og gerð grein fyrir helstu viðfangsefnum félagsvísindamanna á þessu sviði.

Kennslan fer fram í formi fyrirlestra og umræðna.

X

Póstfemínismi og skvísusögur (ABF841F)

Póstfemínismi sem stundum er kallaður þriðju bylgju femínismi er talinn hefjast við upphaf níunda áratugar síðustu aldar. Hugtakið er afar umdeilt í femínískum fjölmiðla- og menningarfræðum og sumir ganga jafnvel svo langt að segja að póstfemínismi hafi enga ákveðna tilvísun; um sé að ræða mótsagnakennda og margræða orðræðu sem aðallega megi finna innan dægurmenningar, afþreyingar og neyslumenningar. Burtséð frá öllum ágreiningi er póstfemínismi hluti af nútímalegu samfélagi nýfrjálshyggju og síðkapítalisma – og tilheyrir sem slíkur neyslumenningu, einstaklingshyggju og póstmódernísku ástandi. Hann einkennist jafnframt af minnkandi áhuga á stofnanabundnum stjórnmálum og aðgerðastefnu.

Hér birtist ákveðin tvíræðni, því um leið og þess er krafist að konan sé frjáls er hún niðurnjörvuð inn í hefðbundin kynhlutverk innan neyslumenningar. Póstfemínistar leggja áherslu á rétt konunnar til að njóta kynlífs og skemmta sér; konur eigi að hafa val og frelsi til þess að vera kynverur. Birtingarmyndir póstfemínismans má finna víða í samtímamenningu, í ýmis konar sjálfshjálparkerfum sem kynnt eru í sjónvarpi og bókum, í vinsælum sjónvarpsþáttum síðasta áratugar á borð við Aðþrengdar eiginkonur (Desperate Housewives, 2004–2012) og Beðmál í borginni (Sex and the City,1998–2004), í glanstímaritum og skvísusögum höfunda á borð við Candace Bushnell, Helen Fielding og Sophie Kinsella.

Að sama skapi standa þeir gagnrýnendur sem skrifa um póstfemínisma og skvísumenningu frammi fyrir ákveðnu vandamáli; svo virðist sem þeir séu annaðhvort of jákvæðir og sjái ekkert athugavert við það póstfemíníska ástand sem kvenhetjurnar eru mótaðar af, eða þeir eru of gagnrýnir og fullir fordóma og rífa niður höfundinn jafnt sem aðalkvenpersónu bókarinnar, en eitt af viðfangsefnum námskeiðsins verður að spyrja sig þeirrar spurningar hvernig hægt sé að fjalla um póstfemínískt ástand á gagnrýninn hátt án þess að falla ofan í gryfju vandlætingar og fyrirlitningar.

            Meðal verka sem verða lesin í námskeiðinu eru: Dagbækur Bridget Jones eftir Helen Fielding, Beðmál í borginni eftir Candace Bushnell, Kaupalkabækur Sophie Kinsella, og íslenskar skvísusögur, t.d. eftir Tobbu Marínós og Björgu Magnúsdóttur. Sjónvarpsþáttaraðir og kvikmyndir verða skoðaðar, sjálfshjálparrit og sjónvarpsþættir sem beint er að konum. Auk þess verða rætur þessarar menningar skoðaðar hjá klassískum höfundum á borð við Jane Austen, Brontë-systur og Edith Wharton.

 

Úrval fræðigreina og fræðirita verða lesin, m.a.: Stéphanie Genz, Postfemininities in Popular Culture. Houndmills, Basingstoke: Palgrave, Macmillan 2009. Rosalind Gill, Gender and the Media: Cambridge/Malden: Polity Press, 2007. Stephanie Harzewski, Chick Lit and Postfeminism, Charlottesville and London: University of Virgina Press, 2011. Anthea Taylor, Single Women in Popular Culture: The Limits of Postfeminism, London: Palgrave, 2012.

X

Rannsóknasemínar C: Fear, like and subscribe: Internet Moral panics and reactionary backlash (MFR602M)

Siðfár eru menningarbundnar frásagnir sem hafa smogið inn í og haft áhrif á vestræn stjórnmál áratugum saman. Vestrænt fjölmiðlalandslag hefur löngum verið gegnsýrt af siðfárum, allt frá svokölluðum „Satanic Panic“ og „Stranger Danger“ til mansals með börn og kynsegin íþróttafólks. Þessar meintu ógnir eru ýmist ýktar eða ekki fyrir hendi og bera í mörgum tilvikum vott um undirliggjandi samfélagslegan kvíða sem er varpað yfir á minnihlutahópa. Þessu námskeiði er ætlað að vera kynning á helstu siðfárum sem hafa mótað Vesturlönd og þeim aðferðafræðilegu nálgunum sem er beitt til að bera kennsl á og greina þau. Í námskeiðinu verður fjallað um hlutverk Internetsins þegar kemur að dreifingu og tilurð yfirstandandi siðfára, með sérstakri áherslu á samtímasiðfár á borð við slaufunarmenningu og íhaldsbakslagið gegn #MeToo-hreyfingunni, og það hvernig þessar frásagnir rata inn í meginstraumsfjölmiðla og – stjórnmál.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir verkefnastýra Jafnréttisskóla Reykjavíkurborgar
Þorsteinn Einarsson
Ragnheiður Davíðsdóttir
Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir
MA í kynjafræði

Ég skráði mig í MA í kynjafræði haustið 2013 eftir að hafa verið grunnskólakennari í nokkur ár. Jafnrétti er ein af grunnstoðum menntunar en þó upplifði ég að almennt væri skortur á þekkingu og færni til að jafnréttismálum væri vel sinnt í skólakerfinu. Mig langaði því að dýpka þekkingu mína og finna leiðir til að miðla henni til annarra í skóla- og frístundastarfi.  
Það er óhætt að segja að kynjafræðinámið stóðst allar mínar væntingar og meira til. Námið er bæði fjölbreytt og skemmtilegt og það krefur nemendur um að líta inn á við og rýna tilveru sína á nýjan hátt. Helsti kostur kynjafræðinámsins er samþætting á fræðilegri þekkingu og hagnýtingu. Hver og einn getur aðlagað innihald námsins að sínum vettvangi, því sjónarhorn kynjafræðinnar má máta við öll viðfangsefni daglegs lífs. Í starfi mínu sem verkefnastýra Jafnréttisskóla Reykjavíkur nýti ég verkfærin sem ég öðlaðist í náminu á hverjum einasta degi í þágu barna og unglinga borgarinnar. 

Þorsteinn Einarsson
MA í kynjafræði

Meistaranám í kynjafræði var eins og ferðalag á kunnuga staði en samt var eins og ég hefði aldrei séð þá áður. Sjónarhornið, baksagan og samhengið sem kennarar veittu í gegnum námið gerðu ferðalagið krefjandi en á sama tíma algjörlega ógleymanlegt. Þetta kemur til af því að námið er lifandi, krítískt, hagnýtt og stundum óþægilega nærgöngult, þar sem ég þurfti að takast á við mínar hugmyndir, fordóma og fékk verkfæri til að beita á samfélagið. Ég öðlaðist færni í að greina kynjun, valdatengsl, orðræðu og dýptina í mynstrum og þemum sem dulin eru í samfélagsgerðinni og nærir víðtækt misrétti. Nám í kynjafræði hentar öllum sem brenna fyrir réttlæti og jafnrétti og vilja hafa áhrif á samfélagið sitt. 

Ragnheiður Davíðsdóttir
Kynjafræði

Ég ákvað að fara í meistaranám í kynjafræði af því að ég ólst upp með kynjagleraugun og þetta sjónarhorn hefur alltaf verið hluti af minni sýn bæði í námi og starfi. Í náminu hefur verið ótrúlega gefandi að kynnast nýjum sjónarhornum og öðlast fræðilega þekkingu um margt það sem ég hef brotið heilann um nær allt mitt líf. Ég finn hvernig ég hef vaxið í kynjafræðinni. Þar hefur áhersla verið lögð á að hugsa út fyrir boxið, kynnast nýjum sjónarhornum, rannsóknarhugmyndum og samfélagsstraumum. Ég hef kynnst frábæru samstarfsfólki bæði hér á landi og erlendis. Kennararnir eru fyrsta flokks, knúnir áfram af áhuga, sérþekkingu og metnaði um kennsluna. Deildin er náin, sveigjanleg og heldur vel utan um hvern nemanda og ólíkar námsþarfir. Þetta er gefandi, hagnýtt og skemmtilegt nám. Umfram allt skerpir námið gagnrýna hugsun og fyllir nemendur eldmóði til að bæta og breyta samfélaginu sem við tilheyrum. 

Hafðu samband

Nemenda- og kennsluþjónusta Félagsvísindasviðs er á
Þjónustutorgi í Gimli
s. 525 4500 
Netfang: nemFVS@hi.is

Opið virka daga frá 09:00 - 15:00 
Gimli - Sæmundargötu 10, 102 Reykjavík

Bóka viðtal við nemenda- og kennsluþjónustu Félagsvísindasviðs

Stjórnmálafræðideild á samfélagsmiðlum

 Instagram   Facebook

Gimli, Háskóli Íslands

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.