Skip to main content

Klínísk sálfræði

Klínísk sálfræði - á vefsíðu Háskóla Íslands

Klínísk sálfræði er eitt af fjórum kjörsviðum MS-náms í hagnýtri sálfræði. Námið er 120 eininga starfstengt kandídatsnám. Það veitir nemendum réttindi til að starfa sem sálfræðingar á Íslandi eftir að þeir hafa lokið náminu og 12 mánaða starfsþjálfun í kjölfar þess. Námið skiptist í tvær línur: klínísk sálfræði fullorðinna og klínísk barnasálfræði. Á fyrra árinu er áherslan á námskeið en seinna árið felst einkum í starfsþjálfun og vinnu að lokaverkefni (30e). Hægt er að velja um tvö áherslusvið:

  • Klínísk sálfræði fullorðinna
  • Klínísk barnasálfræði

Í náminu er boðið upp á fjölbreytt námskeið sem fjalla meðal annars um greiningar á geðröskunum og öðrum sálfræðilegum vanda, sálfræðileg próf, sálmeinafræði barna og unglinga og sálmeinafræði fullorðinna. Einnig eru kenndar aðferðir við meðferð barna, unglinga og fullorðinna, meðferð hegðunar- og námsvanda í skólum auk hagnýtrar atferlisgreiningar. 

Kennslan er fræðileg og hagnýt og miðar að þjálfun nemenda í að takast á við sálfræðileg viðfangsefni og að taka faglega afstöðu til álitamála með vísindalega aðferð að leiðarljósi.

Áhersla er lögð á starfsþjálfun undir handleiðslu sálfræðinga og er hún um fjórðungur af náminu.

Starfsþjálfunin fer víða fram á stofnunum utan háskólans, meðal annars hjá:

  • Landspítala
  • Geðheilsumiðstöð barna hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
  • Þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar
  • Reykjalundi
  • Kvíðameðferðarstöðinni
  • Ráðgjafar- og greiningarstöð ríkisins

Nemendur öðlast einnig mikilvæga þjálfun í Sálfræðiráðgjöf háskólanema sem Sálfræðideildin rekur.

Meðal fastráðinna kennara í náminu má nefna fimm kennara með sérhæfingu í klínískri sálfræði, einn kennara með sérhæfingu á sviði atferlisgreiningar og atferlismeðferðar og kennara sem sérhæfa sig í próffræði og tölfræði.

Sjá nánari upplýsingar um kjörsviðið Klínísk sálfræði og inntökuskilyrði í Kennsluskrá HÍ.

Sjá einnig upplýsingar um nauðsynleg fylgigögn með umsókn og umsókn um framhaldsnám við HÍ.

Klínísk sálfræði (barna- og fullorðinslína)