Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 7. desember 2023

10/2023

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2023, fimmtudaginn 7. desember var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Brynhildur Ásgeirsdóttir, Davíð Þorláksson, Guðvarður Már Gunnlaugsson (varamaður fyrir Arnar Þór Másson og Þorvald Ingvarsson), Hólmfríður Garðarsdóttir (á fjarfundi), Ingvar Þóroddsson (varamaður fyrir Katrínu Björk Kristjánsdóttur, á fjarfundi), Katrín Atladóttir (á fjarfundi), Ólafur Pétur Pálsson, Silja Bára Ómarsdóttir og Vilborg Einarsdóttir (á fjarfundi). Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að fundargerð síðasta fundar hefði verið samþykkt og hún birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur. Loks spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki.

Áður en gengið var til dagskrár greindi rektor frá því að í hádeginu hefðu hann og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, undirritað samkomulag um framlag ráðuneytisins til að fjölga nemendum í heilbrigðisvísindum, félagsráðgjöf og STEM-greinum. Samkomulagið felur m.a. í sér að nemendum í læknisfræði verður fjölgað úr 60 í 75 árið 2024 og svo upp í 90 í áföngum til ársins 2028, nemendum í hjúkrunarfræði verður fjölgað úr 120 í 150 frá og með haustinu 2025 og nemendum til starfsréttinda í félagsráðgjöf verður fjölgað úr 40 í 60 haustið 2024. Jafnframt verður gripið til aðgerða til að mæta skorti á fjölda sérfræðinga í tækni- og verkfræðigreinum og minnka brottfall, auk þess sem byggð verður brú á milli Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og Menntavísindasviðs í þeim tilgangi að fjölga kennurum í STEM-greinum.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn kom Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri sameiginlegrar stjórnsýslu.

a.    Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2024. Staða mála.
Rektor greindi frá stöðu mála varðandi meðferð fjárlagafrumvarps fyrir árið 2024 á Alþingi.

b.    Forsendur og tillögur fjármálanefndar háskólaráðs vegna fjárhags-áætlunargerðar fyrir 2024.
Rektor og Guðmundur fóru yfir framlagðar forsendur og tillögur fjármálanefndar háskólaráðs um skiptingu fjár innan Háskóla Íslands. Fram kom m.a. að útlit er fyrir umtalsverðan rekstrarhalla að óbreyttu. Málið var rætt og svöruðu rektor og Guðmundur spurningum fulltrúa í háskólaráði. Ákvörðun um skiptingu fjár verður tekin á fundi ráðsins í janúar nk. Málið var rætt ítarlega.

Silja Bára og Hólmfríður lögðu fram svohljóðandi bókun:

„Tveir fulltrúar háskólasamfélagsins í háskólaráði hvetja fjármálanefnd ráðsins til að draga til baka tillögu sína um að fjárveitingum í Sáttmálasjóð verði hætt frá komandi áramótum og reglur um úthlutun styrkja úr sjóðnum verði felldar úr gildi. Þessi tillaga kemur fram með mjög stuttum fyrirvara og án samráðs við fagfélög starfsfólks skólans, sem margt hefur gert ráð fyrir að geta sótt styrki í Sáttmálasjóð við skipulagningu þátttöku sinnar í alþjóðlegu rannsóknastarfi á næstunni. Aðgerðin takmarkar tækifæri starfsfólks til að taka þátt í slíku starfi, en sjóðir fagfélaga – sem eru fjármagnaðir af launum starfsfólks – greiða einungis fargjöld og gistingu. Sáttmálasjóður kom til sem hluti af kjarasamningum og var að hluta til settur fram í stað hækkunar launa en á nú að skera niður í aðdraganda kjaraviðræðna. Framlög úr Sáttmálasjóði stuðla að aukinni rannsóknarvirkni og endurmenntun kennara. Metnaðarfullri stefnu HÍ um að vera opinn og alþjóðlegur skóli verður ekki náð með því að draga úr tækifærum starfsfólks til að taka þátt í alþjóðastarfi.  

Hólmfríður Garðarsdóttir og Silja Bára R. Ómarsdóttir“

c.    Rekstraráætlanir einstakra starfseininga fyrir árið 2024.
Rektor og Guðmundur gerðu grein fyrir stöðu mála varðandi rekstraráætlanir einstakra starfseininga. Eins og fram kom í lið 2.b er staðan alvarleg þar sem horft er fram á umtalsverðan rekstrarhalla að óbreyttu. Staða fjárhagsáætlana 2024 sýnir halla upp á tæpa 1,2 milljarðja króna og er halli á öllum fræðasviðum og í sameiginlegri stjórnsýslu. Rætist ekki úr fjárveitingum til skólans mun þurfa að grípa til umfangsmeiri aðhaldsaðgerða í rekstri skólans en áður hafa sést. Málið var rætt.

d.    Tillaga að framkvæmda- og viðhaldsáætlun fyrir árið 2024 ásamt drögum áætlunar fyrir næstu ár.
Inn á fundinn kom Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, og fór yfir tillögu að framkvæmda- og viðhaldsáætlun fyrir árið 2024 ásamt drögum áætlunar fyrir næstu ár. Málið var rætt og kemur til ákvörðunar á næsta fundi ráðsins.

Kristinn vék af fundi.

e.    Stefna HÍ [ríkisaðila] til þriggja ára og starfsáætlun, sbr. 31. gr. laga um opinber fjármál nr. 123/2015.
Rektor fór yfir framlagða stefnu Háskóla Íslands [ríkisaðila] til þriggja ára og starfsáætlun, sbr. 31. gr. laga um opinber fjármál nr. 123/2015. Samþykkt var að senda skjalið eins og það var lagt fram til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins í kjölfar fundarins.

f.    Djúptæknikjarni, sbr. fund háskólaráðs 2. júní sl.
Fyrir fundinum lá minnisblað vegna samkomulags um djúptæknikjarna og mögulega aðkomu Háskóla Íslands að því verkefni. Rektor og Guðmundur gerðu grein fyrir málinu og aðdraganda þess. Fram kom m.a. að lögð verði áhersla á samráð um verkefnið innan Háskóla Íslands og að það verði vel kynnt.
– Samþykkt samhljóða, en Hólmfríður sat hjá.

Guðmundur vék af fundi.

3.    Skrásetningargjald, sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn komu Björg Gísladóttir, verkefnisstjóri á skrifstofu framkvæmdastjóra, og Magnús Jökull Sigurjónsson, lögfræðingur á skrifstofu rektors. Á síðasta fundi var rædd ósk fyrrverandi nemanda um að háskólaráð tæki aftur fyrir kröfu um endurgreiðslu skrásetningargjalds, sbr. lið 2d í fundargerð síðasta fundar. Á þeim fundi kom fram að hafin væri vinna innan skólans við að afla útreikninga þeirra kostnaðarliða sem felldir hafa verið undir skrásetningargjald það sem nemendur greiða árlega og að stefnt væri að því að ljúka þeirri vinnu eins fljótt og hægt er.

Fyrir fundinum lá skýring á því hvernig staðið hefur verið að útreikningi kostnaðarliða skrásetningargjaldsins. Til viðbótar var sent út skömmu fyrir fund ítarlegt skjal með útreikningum á einstökum kostnaðarliðum gjaldsins.

Björg fór yfir framlagða útreikninga á einstökum kostnaðarliðum að baki skrásetningargjaldinu. Málið var rætt og verður kæranda í málinu boðið að kynna sér útreikningana og koma á framfæri sjónarmiðum sínum.  

Brynhildur og Ingvar lögðu fram tvær bókanir:

„Bókun um vinnubrögð og starfsreglur ráðsins:
Fulltrúar stúdenta gagnrýna vinnubrögð hvað varðar fundargögn fyrir 3. lið fundarins. Meðal annars þykir fulltrúum stúdenta miður að mikilvæg fundargögn birtist tæpum þremur klukkustundum fyrir fund. Til að tryggja fagleg vinnubrögð ráðsins er nauðsynlegt að fundargögn berist tímanlega. Þá sérstaklega þegar um er að ræða mikilvægan lið sem krefst undirbúnings og ákvarðanatöku af hálfu ráðsmeðlima.

Samkvæmt starfsreglum háskólaráðs skulu mál að jafnaði ekki borin upp til ákvörðunar á fundum háskólaráðs nema fulltrúar í ráðinu hafi fengið gögn málsins eða fullnægjandi upplýsingar um það fyrir fundinn og haft ráðrúm til að kynna sér efni þess. Fulltrúar stúdenta setja spurningamerki við hvort þessari starfsreglu hafi verið fylgt og ítreka enn og aftur mikilvægi þess að fundargögn berist ráðsmeðlimum með viðeigandi fyrirvara.

Í ljósi þess að fulltrúar stúdenta hafa ítrekað bókað um vinnubrögð ráðsins óska fulltrúar stúdenta eftir formlegum svörum við því hvernig reynt verður að koma í veg fyrir að gögn berist seint til ráðsmeðlima, í framtíðinni.

Brynhildur K Ásgeirsdóttir
Ingvar Þóroddsson“

„Bókun um skrásetningargjaldið og stöðu mála nú:
Fulltrúar stúdenta ítreka fyrri bókun sína frá fundi háskólaráðs 2. nóvember 2023. Viljum við sérstaklega ítreka að í úrskurði áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema er skýrt að þeir liðir sem nefndin gerði athugasemdir við „eigi ekki fullnægjandi lagastoð og uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar eru til álagningar þjónustugjalda“. Grundvöllur fyrir innheimtu skrásetningargjaldsins sé því ekki fullnægjandi og brjóti gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins. Skortur á fullnægjandi forsendum að baki umræddum kostnaðarliðum vekur enn spurningar um grundvöll annarra kostnaðarliða.

Fulltrúar stúdenta óska áfram eftir því að fyrir ráðið verði lögð þau gögn og forsendur sem að baki skrásetningargjaldinu hafa legið undanfarin 10 ár.

Brynhildur K. Ásgeirsdóttir
Ingvar Þóroddsson“

Björg og Magnús Jökull viku af fundi.

4.    Erindi frá nemanda vegna einkunnar. Umsögn kærunefndar í málefnum nemenda.
Inn á fundinn kom Eyvindur G. Gunnarsson, prófessor við Lagadeild og formaður kærunefndar í málefnum nemenda. Fyrir fundinum lá álit kærunefndar í máli nr. 2023/2 og gerði Eyvindur grein fyrir því. Málið var rætt og að því búnu vék Eyvindur af fundi.

– Háskólaráð samþykkir samhljóða þau rök og niðurstöðu sem fram koma í áliti kærunefndar í málefnum nemenda. Brynhildur og Ingvar sátu hjá.

5.    Aurora-samstarfið. Staða mála og næstu skref.
Inn á fundinn komu Friðrika Harðardóttir, sviðsstjóri alþjóðasviðs, og Fanney Karlsdóttir, verkefnisstjóri. Gerðu þær grein fyrir stöðu mála varðandi Aurora samstarfsnetið sem styrkt hefur verið af ESB til ársins 2027. Málið var rætt.

6.    Bókfærð mál.
a.    Tillögur um fjöldatakmörkun í einstakar greinar 2024-2025 ásamt tillögum að breytingum á reglum nr. 153/2010 um takmörkun á inntöku nemenda í tilteknar námsgreinar og viðeigandi breytingum á öðrum reglum.

Eftirfarandi tillögur fræðasviða og deilda um takmörkun á fjölda nýnema háskólaárið 2024-2025 samþykktar (tölur í sviga sýna fjölda nýnema háskólaárið 2023-2024. Ef skástrik er á milli talna táknar fyrri talan hámarksfjölda og sú síðari lágmarksfjölda) sem og viðeigandi breytingar á reglum um takmörkun á inntöku nemenda í tilteknar námsgreinar við Háskóla Íslands nr. 153/2010 og öðrum reglum.

I. Heilbrigðisvísindasvið

a.    Læknadeild
       − Læknisfræði, BS                                    75*    (60)
       − Sjúkraþjálfunarfræði, BS                         35      (35)
       − Sjúkraþjálfun, MS                                   35     (35)
    * Unnt er að fjölga nemendum í 60 vegna
       sérstaks fjárstuðnings frá stjórnvöldum.

b.    Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild
       − Hjúkrunarfræði (240 e til BS)               120    (120)
       – Hjúkrunarfræði fyrir fók með
          annað háskólapróf                               10   (20/15)
      − Ljósmóðurfræði til starfsréttinda, MS      14/8      (14)
      − Geðhjúkrun, MS [tekið inn annað
         hvert ár]                                             15/12      (0)
      − Viðbótardiplómanám í skurðhjúkrun
         [tekið inn annað hvert ár]                     17/10       (0)
      − Viðbótardiplómanám í svæfingahjúkrun
         [tekið inn annað hvert ár]                     15/10       (0)

c.    Tannlæknadeild
      − Tannlæknisfræði                                   8           (8)
      − Tannsmíði, BS                                      5           (5)

d.    Sálfræðideild
       − Hagnýt sálfræði, MS, klínísk sálfræði     20        (20)
       − Hagnýt sálfræði, MS, megindleg
          Sálfræði og félagsleg sálfræði              15         (15)

e.    Lyfjafræðideild
      − MS-nám í klínískri lyfjafræði                    4**      (2)
         ** Fyrirvari gerður um aðstöðu á Landspítala,
              sbr. greinargerð Heilbrigðisvísindasviðs.

f.    Matvæla- og næringarfræðideild
      − MS-nám í klínískri næringarfræði             4         (4)

II. Félagsvísindasvið

a.    Félagsfræði-, mannfræði- og
       þjóðfræðideild
       − MA-nám í náms- og starfsráðgjöf           40       (40)

b.    Félagsráðgjafardeild
      − MA-nám í félagsráðgjöf til starfsréttinda  60*      (40)
      * Unnt er að fjölga nemendum í 60 vegna
         sérstaks fjárstuðnings frá stjórnvöldum.

c.    Stjórnmálafræðideild
      − BA-nám í blaðamennsku                        20    

III. Hugvísindasvið

a.    Íslensku- og menningardeild
      – MA-nám í ritlist                                    15       (18)

IV. Þverfaglegt nám

a.    Nám í hagnýtri atferlisgreiningu
      (samstarf Menntavísindasvið og
      Heilbrigðisvísindasviðs
    – Nám til MS-prófs, M.Ed. prófs
        eða diplómu                                        20***  (20)
   *** Fyrirvari gerður um að hægt verði að útvega
          starfsþjálfunarpláss fyrir þennan fjölda.

b.    Tillögur fræðasviða að nýjum eða breyttum námsleiðum:
(i) Frá Miðstöð í lýðheilsuvísindum: Faralds- og líftölfræði, MS, 120 einingar (formbreyting).
(ii) Frá Hugvísindasviði: Pólsk fræði, grunndiplóma, 60 einingar.
(iii) Frá Hugvísindasviði: Franska í alþjóðasamskiptum, grunndiplóma, 60 einingar.
(iv) Frá Félagsvísindasviði: Blaða- og fréttamennska, BA, 120 einingar (formbreyting).

– Samþykkt.

c.    Frá vísinda- og nýsköpunarsviði: Tillaga að endurskoðuðum verklagsreglum (frá 8. desember 2016) um skyldur styrkþega rannsóknastyrkja og þjónustu við þá, sbr. fund ráðsins 1. júní sl. Varðar að þjónusta verði færð frá fræðasviðum til vísinda- og nýsköpunarsviðs.
– Samþykkt.

d.    Frá kennslusviði: Tillaga að breytingu á 1. gr. verklagsreglna um einkunnaskil vegna samræmingar kennslualmanaks Háskóla Íslands.
– Samþykkt.

e.    Frá rektor: Tillaga um nýjan fulltrúa í stjórn Styrktarsjóða Háskóla Íslands til ársloka 2025.
– Samþykkt. Nýr fulltrúi í stjórn Styrktarsjóða Háskóla Íslands er Valgerður Sólnes, prófessor við Lagadeild. Hún kemur í stað Ólafar Vigdísar Ragnarsdóttur sem senn lætur af störfum við Háskóla Íslands.

7.    Mál til fróðleiks.
a.    Umsögn Háskóla Íslands um tillögu háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins um árangurstengda fjármögnun háskóla (reiknilíkan), sbr. síðasta fund.
b.    Umsögn Háskóla Íslands um drög að frumvarpi til breytinga á lögum um háskóla, nr. 63/2006.
c.    Varamenn í stjórn Háskólabíós.
d.    Glærur frá upplýsingafundi rektors 29. nóvember 2023.
e.    Handhafar árlegrar viðurkenningar Háskóla Íslands fyrir lofsverðan árangur í starfi 2023.
f.    Erindi frá Safnaráði ásamt minnisblaði frá stjórn Listasafns Háskóla Íslands um mögulega geymsluaðstöðu safnsins til framtíðar.
g.    Háskólaútgáfan og Hið íslenska bókmenntafélag saman í Sögu.
h.    Erindi til Háskóla Íslands vegna skerðingar á þjónustu Félagsstofnunar stúdenta.
i.    Sjálfbærniskýrsla Háskóla Íslands 2022.

j.    Bæklingur í tilefni af Hátíð brautskráðra doktora 1. desember 2023.
k.    Fréttabréf Háskólavina, dags. 4. desember 2023.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.40.