Skip to main content
16. nóvember 2023

Háskólaútgáfan og Hið íslenskra bókmenntafélag saman í Sögu

Háskólaútgáfan og Hið íslenskra bókmenntafélag saman í Sögu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Kristján Garðarsson, framkvæmdastjóri Hins íslenskra bókmenntafélags, undirrituðu á dögunum samning um að félagið, Háskólaútgáfan og Listasafn HÍ deili saman rými á 1. hæð Sögu þar sem Hið íslenska bókmenntafélag er til húsa.

Skrifstofur Háskólaútgáfunnar hafa undanfarin ár verið í kjallara Aðalbyggingar en með undirritun samningsins er gert ráð fyrir að þær verði færðar í Sögu. Samningurinn kveður á um skiptingu rýmisins milli aðilanna en jafnframt er gert ráð fyrir sameiginlegu rými með funda- og vinnuaðstöðu. Þá er stefnt að því Háskólaútgáfan og Hið íslenska bókmenntafélag hafi sameiginlegan starfsmann í móttöku. Rými Listasafns HÍ á sama stað verður nýtt til sýningar á verkum safnsins.

Hið íslenska bókmenntafélag, sem er elsta félag og bókaforlag landsins með yfir 200 ára sögu, stendur fyrir umfangsmikilli bóka- og tímaritaútgáfu sem m.a. tengist fræðum og vísindum. Hið saman má segja um Háskólaútgáfuna,  sem sérhæfir sig í útgáfu bæði ritrýndra og óritrýndra fræðibóka og bóka tengdum starfsemi Háskóla Íslands. Því er óhætt að segja að starfsemin falli vel hvor að annarri.

Fulltrúar HÍ, Háskólaútgáfunnar, Listasafnsins og Hins íslenska bókmenntafélags við undirritun samningsins.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Kristján Garðarsson, framkvæmdastjóri Hins íslenskra bókmenntafélags, handsala samninginn. MYND/Kristinn Ingvarsson