Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 6. júní 2019

06/2019

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2019, fimmtudaginn 6. júní var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Einar Sveinbjörnsson, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Guðrún Geirsdóttir, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Ólafur Pétur Pálsson, Ragna Árnadóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir og Siv Friðleifsdóttir. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson. Ásthildur Margrét Otharsdóttir og Benedikt Traustason boðuðu forföll og varamenn þeirra einnig.

1.    Setning fundar
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, og Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu.

a)    Ársreikningur Háskóla Íslands 2018.
Fyrir fundinum lá ársreikningur Háskóla Íslands 2018 og gerði Jenný Bára grein fyrir honum. Málið var rætt.
– Rektor falið að undirrita ársreikning Háskóla Íslands 2018 f.h. Háskólans.

b)    Fyrirkomulag fasteigna Háskóla Íslands, sbr. síðasta fund. Staða mála.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Fram kom að rektor sendi fjármála- og efnahagsráðherra bréf um málið í apríl sl. og áttu þeir fund í gær.

c)    Hús íslenskra fræða, ákvörðun um framkvæmd, sbr. síðasta fund.
Rektor gerði grein fyrir málinu og framvindu varðandi hlutdeild Háskólans í byggingarkostnaði við Hús íslenskra fræða, sbr. síðasta fund. Málið var rætt og samþykkt að auka hlutdeild Háskóla Íslands í samræmi við óskir stjórnvalda, enda breyti það ekki áformum Háskólans um aðrar byggingarframkvæmdir, innviði og starfsemi skólans.

Jenný og Guðmundur viku af fundi.

3.    Niðurstöður 23. háskólaþings 3. maí sl.
Rektor gerði grein fyrir niðurstöðum 23. háskólaþings sem haldið var 3. maí sl. þar sem einkum var fjallað um framtíðarskipulag háskólasvæðisins. Meðal annars var því beint til rektors að gangast fyrir skipun starfshóps um framtíðarskipan bílastæðamála á háskólasvæðinu, sbr. lið 10e á dagskrá þessa fundar.

4.    Starfsáætlun háskólaráðs 2018-2019. Uppgjör.
Fyrir fundinum lágu drög að uppgjöri starfsáætlunar háskólaráðs fyrir starfsárið 2018-2019. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
– Uppgjör starfsáætlunar háskólaráðs fyrir starfsárið 2018-2019 samþykkt einróma.

5.    Álit nefndar háskólaráðs um störf ráðsins á liðnu háskólaári, sbr. 10. gr. starfsreglna ráðsins.
Ingibjörg Gunnarsdóttir, varaforseti háskólaráðs og formaður nefndar ráðsins um störf þess á liðnu starfsári, gerði grein fyrir áliti nefndarinnar, en hlutverk hennar er að rýna vinnubrögð ráðsins og leggja eftir atvikum til umbætur á starfsháttum þess. Málið var rætt og tekið undir þær ábendingar sem settar eru fram í álitinu. Sameiginlegri stjórnsýslu falið að fara yfir þær og undirbúa mögulega útfærslu og framkvæmd fyrir næsta fund ráðsins eftir sumarhlé.
– Samþykkt einróma.

6.    Erindi til háskólaráðs varðandi úthlutun doktorsstyrkja, sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn komu Björn Atli Davíðsson, lögfræðingur, og Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda. Fyrir fundinum lá minnisblað Björns Atla um erindið, dags. 3. júní sl., og gerði hann grein fyrir því. Málið var rætt og svaraði Björn Atli spurningum ráðsmanna.
– Rektor falið að svara erindinu f.h. háskólaráðs.

Björn Atli vék af fundi.

7.    Innri endurskoðun: Launadeild Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Ingunn Ólafsdóttir, innri endurskoðandi, og kynnti skýrslu sína um launadeild Háskóla Íslands. Málið var rætt og svaraði Ingunn spurningum ráðsmanna.
– Samþykkt einróma að beina skýrslunni til eftirfylgninefndar um tillögur og ábendingar innri endurskoðanda.

Ingunn vék af fundi.

8.    Matskerfi opinberra háskóla. Endurskoðun, staða mála.
Inn á fundinn kom Róbert H. Haraldsson, sviðsstjóri kennslusviðs, og gerði ásamt Guðbjörgu Lindu grein fyrir stöðu mála varðandi endurskoðun matskerfis opinberu háskólanna og fyrirliggjandi hugmyndir um umbun fyrir kennslu annars vegar og samfélagsvirkni hins vegar. Málið var rætt og svöruðu þau Róbert og Guðbjörg Linda spurningum ráðsmanna. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs.

Róbert vék af fundi.

9.    Sameiginleg umsókn nokkurra aðildarháskóla Aurora samstarfsnetsins og fleiri stofnana um aðild að verkefninu „European Universities Network”, sbr. fund ráðsins 10. janúar sl. Staða máls.
Inn á fundinn komu Friðrika Harðardóttir, forstöðumaður Skrifstofu alþjóðasamskipta, og Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs. Gerðu þau grein fyrir stöðu mála varðandi sameiginlega umsókn nokkurra aðildarháskóla Aurora samstarfsnetsins og fleiri háskóla um aðild að verkefninu „European Universities Network“. Málið var rætt og svöruðu rektor, Friðrika og Halldór spurningum fulltrúa í háskólaráði. Málið verður áfram á dagskrá ráðsins.

10.    Bókfærð mál.
a)    Nýr fulltrúi Heilbrigðisvísindasviðs í jafnréttisnefnd háskólaráðs.
    – Samþykkt að nýr fulltrúi Heilbrigðisvísindasviðs í jafnréttisnefnd háskólaráðs verði Sævar Ingþórsson, aðjunkt. Varafulltrúi er Margrét Þorsteinsdóttir, prófessor.

b)    Frá Heilbrigðisvísindasviði: Tillaga að breytingu á 1. mgr. 98. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Varðar námsframvindu í Hjúkrunarfræðideild.
    – Samþykkt.

c)    Tillaga að breytingu á verklagsreglum um greiðslur vegna aukastarfa innan Háskóla Íslands sem kostuð eru af öðru fé en opinberum fjárveitingum til Háskóla Íslands.
– Samþykkt.

d)    Formaður siðanefndar Háskóla Íslands.
– Samþykkt að Hjördís Hákonardóttir, fyrrverandi hæstaréttardómari, sitji áfram sem formaður siðanefndar til áramóta.

e)    Skipun starfshóps um framtíðarfyrirkomulag bílastæðamála, sbr. háskólaþing 3. maí sl.
– Samþykkt. Starfshópinn skipa þau Sigríður Sigurðardóttir, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, formaður, Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs, Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu, Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, og NN, fulltrúi stúdenta. Sigurlaug I. Lövdahl, skrifstofustjóri framkvæmda- og tæknisviðs, vinnur með starfshópnum.

f)    Samþykktir fyrir Auðnu – Tæknitorg ehf., ásamt tillögu að breytingu á erindisbréfi Hugverkanefndar.
– Samþykkt.

11.    Mál til fróðleiks.
a)   Dagskrá ársfundar Háskóla Íslands 6. júní.
b)   Skipan starfshóps um endurskoðun siðareglna Háskóla Íslands, sbr. fund ráðsins 4. apríl sl.
c)   Ársreikningur Keilis ehf.
d)   Viðbrögð í kjölfar ábendinga innri endurskoðanda um skjalastjórnun, sbr. samþykkt háskólaráðs 8. desember 2016. Staða mála.
e)   Viðbrögð í kjölfar ábendinga innri endurskoðanda um nemendaskráningu og nemendakerfi, sbr. samþykkt háskólaráðs 5. október 2017. Staða mála.
f)    Brautskráning kandídata í Laugardalshöll 22. júní nk.
g)   Dagatal Háskóla Íslands 2019-2020.

h)   Fjöldi umsókna um nám í Háskóla Íslands háskólaárið 2019-2020.
i)    Fréttabréf Háskólavina, dags. 29. maí 2019.
j)    Tilkynning um stofnunarúttekt á Háskóla Íslands skv. rammaáætlun Gæðaráðs háskóla, og ferilskrár fulltrúa í úttektarnefnd.
k)   Aukið samstarf við Manitobaháskóla á sviði íslenskukennslu.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.