Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 5. september 2019

07/2019

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2019, fimmtudaginn 5. september var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Benedikt Traustason, Einar Sveinbjörnsson, Guðbrandur Benediktsson (varamaður fyrir Rögnu Árnadóttur), Guðvarður Már Gunnlaugsson, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Jóhann Óli Eiðsson (varamaður fyrir Ragnhildi Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur), Jón Ólafsson (varamaður fyrir Guðrúnu Geirsdóttur), Ólafur Pétur Pálsson og Siv Friðleifsdóttir. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.

Dagskrá

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2.    Minnisblað um framkvæmd ábendinga nefndar háskólaráðs um störf ráðsins á liðnu háskólaári, sbr. 10. gr. starfsreglna ráðsins og fund ráðsins 6. júní sl.
Rektor gerði grein fyrir minnisblaði um framkvæmd ábendinga nefndar háskólaráðs um störf ráðsins á liðnu háskólaári, sbr. 10. gr. starfsreglna ráðsins og fund ráðsins 6. júní sl. Málið var rætt og tóku ráðsmenn undir tillögur í minnisblaðinu um viðbrögð við ábendingum nefndarinnar.

3.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, og Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu.

a)    Rekstraryfirlit Háskóla Íslands janúar-júní 2019.
Jenný Bára gerði grein fyrir yfirliti um rekstur Háskóla Íslands fyrstu sex mánuði ársins 2019. Málið var rætt og svaraði Jenný Bára spurningum fulltrúa í háskólaráði.

b)    Staða kjaraviðræðna.
Guðmundur R. reifaði stöðu mála varðandi kjarasamninga framundan. Málið var rætt og svaraði Guðmundur R. spurningum ráðsmanna.

    Jenný Bára og Guðmundur R. viku af fundi.

4.    Tíma- og verkáætlun fyrir frágang sjálfsmatsskýrslu Háskóla Íslands, heimsókn ytri matshóps og ritun ytri matsskýrslu, sbr. rammaáætlun Gæðaráðs háskóla.
Inn á fundinn kom Áslaug Helgadóttir, gæðastjóri Háskóla Íslands, og gerði grein fyrir tíma- og verkáætlun fyrir sjálfsmat og ytra mat á Háskóla Íslands sem framundan er. Málið var rætt. Fram kom m.a. að fjallað verður um drög að sjálfsmatsskýrslu á háskólaþingi í byrjun nóvember nk. og er ráðgert að sjálfsmatsskýrslan verði afgreidd í háskólaráði 5. desember nk. Ytri matshópur mun heimsækja Háskóla Íslands um mánaðamótin mars/apríl 2020 og m.a. funda með háskólaráði. Málið verður áfram á dagskrá ráðsins.

Áslaug vék af fundi.

5.    Skilagrein stýrihóps HÍ21, stefnu Háskóla Íslands 2016-2021.
Inn á fundinn kom Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslumála og þróunar, og gerði grein fyrir skilagrein stýrihóps HÍ21, stefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2016-2021. Málið var rætt og svaraði Steinunn spurningum fulltrúa í háskólaráði.

Steinunn vék af fundi.

6.    Starfsáætlun háskólaráðs 2019-2020. Drög.
Rektor gerði grein fyrir fyrirliggjandi drögum að starfsáætlun háskólaráðs fyrir starfsárið 2019-2020. Málið var rætt og beindi rektor því til ráðsmanna að koma á framfæri við sig hugmyndum um efnisatriði fyrir starfsáætlunina í kjölfar fundarins. Ráðgert er að afgreiða starfsáætlunina á næsta fundi ráðsins.

Guðbrandur Benediktsson vék af fundi.

7.    Helstu byggingar- og framkvæmdamál Háskóla Íslands næstu árin.
Inn á fundinn komu Sigríður Sigurðardóttir, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, og Guðmundur R. Jónsson. Rektor gerði ásamt þeim grein fyrir framlögðu minnisblaði um helstu framkvæmdir sem ráðgerðar eru á næstu árum og fjármögnun þeirra. Málið var rætt.

Sigríður, Guðmundur R. og Ásthildur viku af fundi.

8.    Skipan háskólaráðs starfsárið 2019-2020, sbr. lið 10d.
Rædd voru sjónarmið og vinnulag við val vali nýs fulltrúa í háskólaráði í stað Rögnu Árnadóttur sem sagt hefur sig úr ráðinu, sbr. lið 10d. Málið var rætt. Að umræðu lokinni lagði rektor fram tillögu um að Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur, taki sæti sem aðalmaður í háskólaráði út starfstíma núverandi háskólaráðs sem lýkur 30. júní 2020.
– Samþykkt einróma.

9.    Bókfærð mál.
a)    Frá Heilbrigðisvísindasviði: Tillaga að breytingu á reglum nr. 890/2016 um doktorsnám og doktorspróf við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands.
    – Samþykkt.

b)    Frá Heilbrigðisvísindasviði: Tillaga að breytingu á 7. og 8. gr. reglna nr. 290/2016 um diplómanám á meistarastigi við Hjúkrunarfræðideild.
– Samþykkt.

c)    Frá Heilbrigðisvísindasviði: Tillaga að breytingu á 100. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009 um námsframvindu í Lyfjafræðideild.
– Samþykkt.

d)    Samstarfssamningur Háskóla Íslands og Háskólans á Bifröst um upplýsingatækniþjónustu, dags. 14. júní 2019.
– Samþykkt.

10.    Mál til fróðleiks.
a)    Dagatal Háskóla Íslands 2019-2020.
b)    Yfirlit um nefndir, stjórnir og ráð sem háskólaráð hefur aðkomu að og fyrirséð er að skipa þurfi eða tilnefna í á haustmisseri 2019.
c)    Ársreikningur Háskóla Íslands 2018.
d)    Bréf Rögnu Árnadóttur, dags. 13. ágúst sl., þar sem hún segir sig úr háskólaráði frá 1. september 2019 þar sem hún tekur við starfi skrifstofustjóra Alþingis.
e)    Nýr sviðsstjóri starfsmannasviðs miðlægrar stjórnsýslu Háskóla Íslands.
f)    Endurnýjaður samstarfssamningur Háskóla Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, dags. 20. ágúst 2019.
g)    Samstarfssamningur Háskóla Íslands og Bjarkar ehf. um klíníska kennslu í ljósmóðurfræði, dags. 27. júní 2019.

h)    Álit í samráðsgátt varðandi drög að frumvarpi um Styrktarsjóð íslenskra námsmanna.
i)    Ársskýrsla Hugverkanefndar Háskóla Íslands og Landspítalans 2017 og 2018.
j)    Háskóli Íslands í hópi 500 bestu háskóla heims samkvæmt Shanghai-listanum.
k)    Jón Atli Benediktsson og Magnús Tumi Guðmundsson kjörnir í Evrópsku vísindaakademíuna fyrir framlag sitt til vísindarannsókna í Evrópu.
l)    Fréttabréf Háskólavina, dags. 28. ágúst 2019.
m)    Fjöldi nemenda við Háskóla Íslands. Áætlun 30. ágúst 2019.
n)    Opið bréf frá IOGT á Íslandi vegna Októberfest Stúdentaráðs.
o)    Í hópi þeirra bestu. Grein rektors í Fréttablaðinu, dags. 2. september 2019.
p)    Háskóli Íslands undirstaða atvinnulífs og framfara. Viðtal við Ólöfu Vigdísi Ragnarsdóttur, verkefnisstjóra nýsköpunar á vísinda- og nýsköpunarsviði Háskóla Íslands, Fréttablaðinu, dags. 1. september 2019.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.05.