Skip to main content
19. ágúst 2019

HÍ í hópi 500 bestu háskóla heims samkvæmt Shanghai-listanum

Háskóli Íslands er í 401.-500. sæti á lista ShanghaiRanking Consultancy yfir bestu háskóla heims 2019 sem birtur var í fyrir helgi. Hann er eini íslenski háskólinn sem kemst á listann.

ShanghaiRanking Consultancy birti fyrr í sumar lista yfir bestu háskóla heims innan 54 fræðigreina og eins og fram kom í frétt á vef skólans fyrr í liðinni viku raðast Háskóli Íslands m.a. í 6. sæti yfir þá sem fremstir standa í fjarkönnun. Þá er skólinn í hópi hundrað bestu innan jarðvísinda og í hópi 150 fremstu í hjúkrunarfræði svo dæmi séu tekin.

Listinn sem ShanghaiRanking Consultancy birti fyrir helgi nær til háskóla í heild og tekur til fræðasviða náttúruvísinda, lífvísinda, læknavísinda, verkfræði og félagsvísinda. Listinn grundvallast enn fremur á sömu mælikvörðum og listarnir yfir fremstu háskóla heims í einstökum fræðasviðum, þ.e. á birtingu vísindagreina í virtum fræðitímaritum, fjölda tilvitnana annarra vísindamanna í rannsóknir á vegum hvers skóla, frammistöðu háskóla út frá starfsmannafjölda og fjölda starfsmanna sem hjóta vísindaverðlaun fyrir framlag sitt innan einstakra fræðagreina. Í ár tekur mat ShanghaiRanking Consultancy til 1.000 háskóla og sem fyrr segir er Háskóli Íslands í sæti 401-500.

Háskólinn komst í fyrsta sinn á Shanghai-listann, eða Academic Ranking of World Universities (ARWU) eins og hann heitir formlega, árið 2017 en hann er annar af tveimur virtustu matslistunum yfir bestu háskóla heims. Hinn er Times Higher Education World University Rankings en Háskóli Íslands hefur verið á  þeim lista allt frá árinu 2011. Þess má geta að Háskóli Íslands er eini íslenski háskólinn sem komist hefur á báða þessa lista. 

Samkvæmt hinum nýja Shanghai-lista er Harvard-háskóli í Bandaríkjunum besti háskóli heims og er þetta í 17. sinni sem skólinn er efstur á blaði. Bandarískir og breskir háskólar raða sér í flest af efstu 20 sætunum en athygli vekur að Kaupmannahafnarháskóli er efstur norrænna háskóla á listanum, í 26. sæti.

Listann í heild og grundvöll mats ShanghaiRanking Consultancy má nálgast á vefsíðu samtakanna.

Háskólatorg