Skip to main content
30. apríl 2021

Mikilvægi vísindalegra uppgötvana

Mikilvægi vísindalegra uppgötvana - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (30. apríl):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Háskóli Íslands hefur ríkar skyldur við samfélagið allt og leggur áherslu á að miðla þekkingu sinni til samfélagsins svo hún nýtist öllum. Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík hafa unnið undanfarna mánuði með stjórnvöldum að því að þróa vefnámskeið um gervigreind sem nú er opið almenningi. Markmiðið er að þekking á gervigreind verði aðgengileg öllum. Jafnframt er verið styrkja samkeppnishæfni Íslendinga en námskeiðið er hluti af aðgerðaráætlun fyrir Ísland í fjórðu iðnbyltingunni. Leiðarljósið er að leggja rækt við þekkingu, uppbyggingu hennar og flæði um allt samfélagið.

Fátt gefur okkur skýrari mynd af mikilvægi þekkingarinnar og vísindalegra uppgötvana þessa dagana en bólusetningar gegn óværunni. Í vikunni hefur verið bólusett af miklum krafti gegn kórónaveirunni hérlendis sem færir okkur fyrirheit um betri og bjartari daga. Gleymum okkur samt ekki því lítið má út af bregða eins og dæmin sanna. Fylgjum án undantekninga ráðum yfirvalda um nándarmörk og einstaklingsbundnar sóttvarnir. 

Stjórnvöld hafa ýtt úr vör sérstöku vinnumarkaðsátaki til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn nú í sumar. Ætlunin er að skapa á fjórða þúsund störf fyrir námsmenn hjá því opinbera og sveitarfélögum. Háskóli Íslands hefur óskað eftir að ráða 300 nemendur til starfa nú í sumar og verða störfin auglýst laus fljótlega. Framboð á sumarnámi við Háskóla Íslands mun jafnframt liggja fyrir mjög fljótlega.

Vorið hefur sannarlega leikið við okkur þessa vikuna hér syðra með sólskini og mildum þey. Vorið boðar ekki bara komu farfuglanna sem fylla nú loftið með vængjaslætti því árviss verkefni okkar fyrir börn og ungmenni eru í farvatninu. Nú er verið að undirbúa Háskóla unga fólksins af fullum krafti og ferðir Háskólalestarinnar um landið eru á næsta leiti. Þessi verðlaunaverkefni féllu bæði niður í fyrra vegna plágunnar. Háskólalestin fagnar tíu ára starfsamæli með því að heimsækja þrjá áfangastaði núna í maí, Húnaþing vestra, Strandabyggð og Fjarðabyggð. Lestin hefur eins og alltaf fjör og fræði í farangrinum og býður upp á spennandi námskeið og smiðjur fyrir nemendur og kennara.

Það er sannarlega í mörg horn að líta hjá ykkur kæru nemendur þessa dagana enda vorpróf í algleymingi. Ég þreytist samt seint á að minna á mikilvægi þess að hreinsa hugann annað slagið og líta upp úr bókunum. Í dag er til dæmis kjörið tækifæri að njóta tónlistar í hádeginu þegar strokkvartettinn Siggi lýkur afar vel heppnaðri Háskólatónleikaröð þennan veturinn. Tónleikarnir verða í beinu streymi kl. 12:15 frá Litla-Torgi. Þeir verða svo aðgengilegir áfram á netinu og því má alltaf hlusta. Gleymum líka ekki að njóta alls þess sem vorið býður. 

Góða helgi kæru nemendur og samstarfsfólk, förum að öllu með gát. 

Jón Atli Benediktsson, rektor“

Reykjavík að kvöldi