Skip to main content
16. október 2020

Látum gott af okkur leiða

""

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi orðsendingu til stúdenta og starfsfólks í dag (16. október):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Hjartans þakkir enn og aftur fyrir samstöðu ykkar og seiglu. Við sjáum þessi orð oft saman, og þau virðast kannski ekki mikils virði út af fyrir sig, en þau tákna samt það sem er hvað mikilvægast fyrir okkur öll í baráttunni við COVID-19. Þau eru líka lykillinn að árangri í öllu námi og rannsóknastarfi. 

Þótt veiran sé síst vægari nú en í fyrri bylgjum þá getum við eftir sem áður horft til framtíðar með ákveðinni bjartsýni. Þetta ástand mun ekki vara að eilífu og vísindamenn hafa lagt saman krafta sína með afgerandi hætti við að þróa bóluefni og lyf til lausnar fyrir mannkynið allt. Við vitum hins vegar ekki upp á hár hvenær bóluefni munu bjóðast eða hver virkni þeirra verða. Við megum því alls ekki slaka á fylgni við þær reglur sem okkur eru settar. Samstaðan og seiglan eru ein besta sóttvörnin. 

Öll finnum við nú aukna þreytu gagnvart langvinnri baráttu við heimsfaraldurinn og kvíði fer vaxandi hjá mörgum. Margt getum við samt gert til sjálfshjálpar. Ég vek athygli á afar mikilvægri þjónustu náms- og starfsráðgjafar við skólann á sviði slökunar og núvitundar og í formi fjölbreyttrar fræðslu um geðheilbrigði. Á heimasíðu einingarinnar eru líka gagnlegar ráðleggingar varðandi nám á sérstæðum tímum auk þess sem nálgast má upplýsingar um sálfræðiráðgjöf háskólanema

Ég hvet starfsfólk og nemendur einnig til að huga vel að líkamlegri heilsu og minni á að fjarleikfimi er í boði fyrir starfsfólk á meðan íþróttahúsið er lokað.

Verum jákvæð og hlúum að þeim sem standa okkur næst. Höfum hugsun írska skáldsins Oscars Wilde að leiðarljósi inn í helgina en hann fæddist einmitt á þessum degi fyrir tæpum tveimur öldum. Að sýna góðvild í sinni smæstu mynd er meira virði en hin mestu áform um slíkt.

Látum gott af okkur leiða, kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Jón Atli Benediksson, rektor.“

 

nemendur á Háskólatorgi