Skip to main content
23. október 2020

Helgarkveðja í sumarlok

""

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi orðsendingu til stúdenta og starfsfólks í dag (23. október):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Það er ánægjuefni að sjá að smitum hefur fækkað hér á landi síðustu dagana en eftir sem áður er of snemmt að fagna áfangasigri. Við vitum samt af reynslunni að samstillt átak í sóttvörnum skilar miklum árangri. 

Vissulega er margt sem eykur byrði okkar þessa dagana. Í nýrri könnun Stúdentaráðs meðal nemenda kemur skýrt fram að þeir eru áhyggjufullir og upplifa bæði álag og vanlíðan vegna veirufaraldursins. Í könnun sem Menntavísindasvið Háskóla Íslands gerði nýlega á meðal starfsmanna skólans kemur einnig fram að álag á starfsfólk hafi aukist mjög í samkomubanni og að fleiri upplifi streitu en áður. 

Það er hins vegar ánægjulegt að sjá að samkvæmt könnun Menntavísindasviðs finnur flest starfsfólk til öryggis á vinnustað þrátt fyrir miklar áskoranir. Flestir telja líka að vel hafi verið gætt að sóttvörnum innan skólans. Hluti þess að skapa vellíðan er að draga úr óvissu og það er ánægjulegt að sjá að mikill meirihluti kynnir sér reglulega upplýsingar um aðgerðir vegna COVID-19 faraldursins á vefsíðu okkar. Enn hærra hlutfall starfsfólks telur að upplýsingar frá neyðarstjórn skólans hafi verið markvissar. 

Við munum rýna í báðar þessar mikilvægu kannanir og taka mið af þeim eftir því sem kostur er.

Þrátt fyrir að aðstæður séu nú erfiðar hvet ég ykkur öll, kæru nemendur og samstarsfólk, til huga vandlega að námi og starfi því einbeiting og ástundun skilar jafnan mestum árangri. 

Þrátt fyrir samkomubann verða byggingar Háskólans áfram opnar nemendum til kl. 19 daglega og komast þeir inn með aðgangskorti til kl. 21. Nemendur geta þá nýtt sér vinnuaðstöðu og lesrými Háskólans, en gangar eru áfram skilgreindir eingöngu sem ferðarými. Ég hvet ykkur öll eindregið til að fylgja reglum um nándarmörk og að huga vel að eigin sóttvörnum og hlífðargrímunotkun. 

Ég vek athygli á því að umsóknarfrestur um framhaldsnám á komandi vormisseri hefur verið framlengdur til 31. október nk. Ég hvet þau ykkar sem nú eru að ljúka grunnnámi til að skoða námsframboðið á vefsíðu skólans þar sem einfalt er að sækja um nám. 

Nú er helgi fram undan og þannig hagar til að fyrsti vetrardagur er á morgun. Þrátt fyrir skammdegi færir veturinn okkur fjölmörg ný tækifæri til dægradvalar sem við skulum grípa fegins hendi. Hugur okkar mannanna er ekki einungis uppspretta nýjunga og aflvaki allra framfara, hann getur líka verið vopn gegn mörgu af því sem vekur kvíða og streitu. Hugsum jákvætt eins og þjóðskáldið Þorsteinn Erlingsson gerði þegar hann vék frá sér vetrinum með sumri í hugskotinu. 

Þegar vetrar þokan grá
þig vill fjötra inni:
svífðu burt og sestu hjá
sumargleði þinni.

Stöndum saman, hugum hvert að öðru og að okkur sjálfum. 

Jón Atli Benediktsson, rektor“

frá háskólasvæðinu