Skip to main content
5. febrúar 2021

Helgarkveðja 5. febrúar 2021

Helgarkveðja 5. febrúar 2021 - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á stúdenta og starfsfólk í dag (5. febrúar):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Nú er að komast lag á starf okkar í framhaldi af þeim miklu framkvæmdum sem fram hafa farið eftir vatnsflóðið í byggingum Háskólans þann 21. jan. sl. Fyrir liggur að tjónið er gríðarlegt og enn er verið að meta afleiðingarnar og ljóst að skemmdir koma ekki allar strax fram. Mikið starf hefur verið unnið við þurrkun allra rýma til að lágmarka raka eins og frekast er unnt. Þá er verið að lagfæra eða skipta út tækjum og búnaði til að tryggja að starf okkar skerðist ekki frekar. 

Febrúar er ætíð annasamur mánuður í starfi Háskóla Íslands því þá eru bæði brautskráning og opið hús í tilefni Háskóladagsins. Hvorugur viðburður verður með hefðbundnu sniði að þessu sinni vegna tilmæla sóttvarnaryfirvalda. Verið er að útfæra tilhögun brautskráningar þannig að allir kandídatar geti fengið prófskírteini sín afhent 20. febrúar nk. Nánar verður upplýst um tilhögunina á næstu dögum. 

Háskóladagurinn verður haldinn 27. febrúar nk., en hann er sameiginlegt átak allra háskóla landsins til að kynna væntanlegum nemum fjölbreytt námsframboð. Að þessu sinni verður Háskóladagurinn alfarið stafrænn. Háskóli Íslands mun kynna í beinu streymi allt grunnnám í boði þar sem kennarar og nemendur svara spurningum sem víkja að námi og starfi innan skólans. 

Stúdentaráð Háskóla Íslands fagnaði á síðasta ári aldarafmæli sínu og Háskóli Íslands er 110 ára á þessu ári. Í vikunni hófst þáttaröð í Sjónvarpinu um hagsmunabaráttu stúdenta í áranna rás. Fróðlegt er að rýna í söguna og sjá með hvaða hætti mikilvægt starf stúdenta við Háskóla Íslands hefur haft áhrif á samfélag okkar innan og utan Háskólans. Ég hvet ykkur til að fylgjast með þessum fróðlegu þáttum. 

Vísinda- og fræðafólk Háskólans hefur lagt mikið af mörkum við rannsóknir á COVID-19 faraldrinum og á lausnir í þágu samfélagsins á þessum sérstæðu tímum. Eitt það nýjasta er að lið Háskóla Íslands er komið í úrslit í alþjóðlegri keppni um gerð spálíkana um kórónuveirufaraldurinn. Markmið keppninnar er m.a. að ýta undir notkun gervigreindar í báráttunni við ýmsar áskoranir samtímans.

Það hefur vart farið fram hjá neinum að mikill árangur hefur náðst í sóttvörnum hérlendis að undanförnu og það ber ekki síst að þakka því að farið hefur verið eftir ígrunduðum sóttvarnarreglum. En þetta er langhlaup og við skulum sýna áfram þolgæði og fylgja tilmælum Almannavarna og Landlæknis. 
 
Kæru nemendur, vakin er athygli á því að próftafla vormisseris hefur verið birt. Gert er ráð fyrir að fyrirkomulag prófa verði með eins hefðbundu sniði og hægt er m.a. með lokaprófum í stofum þar sem það á við. Nemendur er hvattir til að leita frekari upplýsinga varðandi fyrirkomulag námsmats í hverju námskeiði hjá deildum eða kennurum. 

Þótt nú ríki Þorri samkvæmt fornu tímatali þá lengjast dagarnir hægt og bítandi. Njótum nýfenginnar birtu um helgina sem mest við megum og förum áfram að öllu með gát. 

Jón Atli Benediktsson, rektor“ 

""