Skip to main content
3. febrúar 2021

Í úrslit alþjóðlegrar keppni um gerð spálíkana fyrir COVID-19

Í úrslit alþjóðlegrar keppni um gerð spálíkana fyrir COVID-19 - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þriggja manna lið skipað starfsmanni og tveimur nemendum Háskóla Íslands er í hópi tæplega 50 liða sem komust í úrslit í alþjóðlegri samkeppni um gerð spálíkana um kórónuveirufaraldurinn. Liðið er það eina frá Íslandi sem er í úrslitunum og á möguleika á að vinna sér inn 250 þúsund dollara, jafnvirði rúmlega 30 milljóna króna.

Keppnin er á vegum bandarísku fyrirtækjanna XPRIZE og Cognizant og nefnist Pandemic Response Challenge. Hún snýst um að nýta bæði gögn og aðferðir gervigreindar til þess að spá fyrir um þróun kórónuveirufaraldursins í löndum heims og leggja til áætlanir sem bæði stjórnvöld og heilbrigðisyfirvöld á einstökum svæðum, í löndum og samfélögum geta nýtt til þessa draga úr áhrifum faraldursins og um leið tryggja örugga dreifingu bólefna. Markmið keppninnar er jafnframt að ýta undir notkun gervigreindar og gagna við lausn ýmissa annarra áskorana mannkyns.

Keppnin hófst í nóvember og upphaflega voru 200 lið skráð til leiks sem skiluðu inn sínum tillögum. Að undangengnu mati óháðrar dómnefndar voru svo 48 lið frá 17 löndum valin í úrslit keppninnar í lok janúar og í þeirra hópi var liðið Klakinn frá Íslandi. Það er skipað þeim Alexander Berg Garðarssyni, sérfræðingi í gagnavísindum við Háskóla Íslands, og þeim Kára Rögnvaldssyni og Rafael Vias, BS-nemum í stærðfræði við skólann. Allir hafa þeir starfað í teymi Háskóla Íslands og samstarfsaðila sem unnið hefur að þróun spálíkans um þróun COVID-19-faraldursins hér á landi undir stjórn Thors Aspelund, prófessors í líftölfræði. Þá hefur Tómas Philip Rúnarsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands, verið liðinu til ráðgjafar.

Hér má sjá lista yfir liðin sem komust áfram

Verkefni þremenninganna í úrslitunum verður að þróa líkan sitt áfram og m.a. taka enn frekar mið að bólusetningum vegna COVID-19 og ýmum öðrum gögnum en um leið leggja til aðgerðir sem tryggja örugga opnun samfélaga og lágmarka útbreiðslu veirunnar. Frestur þeirra til að skila inn hugmyndum sínum rann út 3. febrúar og úrslit keppninnar verða kunngjörð í lok mánaðarins.

Til mikils er að vinna því þau tvö lið sem teljast hafa skilað bestu spálíkönunum deila með sér 500 þúsund dollara verðlaunafé, jafnvirði um 65 milljóna króna.

Ávinningur samkeppninnar er þó ekki síst fyrir samfélög heimsins sem mörg hver berjast nú við hraða útbreiðslu kórónuveirunnar en nú þegar hafa yfir 100 milljónir manna sýkst af henni og 2,3 milljónir látið lífið af hennar völdum.

Nánar um samkeppnina