Skip to main content
10. september 2021

Háskólar eru vagga nýrra hugmynda

Háskólar eru vagga nýrra hugmynda - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (10. september):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Innan Háskóla Íslands er afar frjór jarðvegur fyrir hugmyndir sem leiða oft til hagnýtingar og nýrra tækifæra í atvinnulífi og samfélagi. Snertiskjárinn í farsímunum, sem flest okkar nota oft á dag, á t.d. uppruna sinn í grunnrannsóknum háskóla. Fyrirtæki tóku svo þessa tækni upp á sína arma til frekari þróunar og hagnýtingar. Ýmsar lausnir við COVID-19 voru fyrst mótaðar í akademíunni og urðu síðan að lyfjum í þróunardeildum fyrirtækja. Til þess að okkur farnist vel þurfa því bæði fyrirtæki og háskólar að leggjast saman á árarnar.

Samstarf okkar í HÍ við atvinnulífið er gríðarlega mikilvægt og virkar í báðar áttir. Það getur leitt til þróunar á starfsnámi og nýjum námsleiðum, eflt doktorsnám, fætt af sér sameiginlegar rannsóknir og nýjar hugmyndir, vörur og þjónustu sem aftur skapar ný störf og jafnvel nýja tegund af iðnaði. Sannast þar að þekkingin er traustasti gjaldmiðill framtíðarinnar.

Góð dæmi um þetta er samstarf Háskóla Íslands og fyrirtækjanna sem skotið hafa rótum í Vísindagörðum HÍ í Vatnsmýrinni. Eitt þeirra er lyfjaþróunarfyrirtækið Alvotech sem hélt í gær afar vel heppnað málþing ásamt HÍ þar sem m.a. var farið yfir mikilvægi samvinnu við þróun nýjunga í líftækni. Slík þróun hefur einmitt hefur verið einn helsti vaxtabroddur lyfjaþróunar á síðustu árum. Sesselja Ómarsdóttir, sem leiðir vísindasvið Alvotech, er jafnframt prófessor við Háskóla Íslands og hefur hún leiðbeint mörgum doktorsnemum við skólann undanfarin ár.

Doktorsnám er iðulega vagga nýrra hugmynda og í gær hlutu tveir brautskráðir doktorar frá Háskóla Íslands hin eftirstóttu Hvatningaverðlaun Vísinda- og tækniráðs sem veitt eru efnilegasta vísindafólki okkar á ári hverju. Þau Martin Ingi Sigurðsson, prófessor í svæfinga- og gjörgæslulækningum við HÍ og yfirlæknir við Landspítalann, og Erna Sif Arnardóttir, lektor við verkfræði- og tölvunarfræðideildir Háskólans í Reykjavík, hlutu þessi eftirsóttu verðlaun í þetta skiptið.

Martin Ingi hefur verið afar virkur í rannsóknum hérlendis og erlendis undanfarin 15 ár og hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir vísindaframlag sitt á alþjóðlegum vettvangi. Erna Sif hefur verið leiðandi vísindamaður á sviði svefnrannsókna hér á landi, m.a. sem nýdoktor og aðjúnkt við Læknadeild HÍ. Hún leiðir nú þverfaglegt Svefnrannsóknasetur við HR. Háskóli Íslands er afar stoltur af þessum tveimur fyrrverandi nemendum sínum. Staðreyndin er sú að brautskráðir nemendur HÍ hafa ekki bara áhrif á íslenskt samfélag heldur taka þeir einnig veigamikinn þátt í mótun þess til hagsbóta fyrir okkur öll.

Síðustu daga höfum við átt afar góða fundi með fulltrúum stjórnamálaflokkanna í aðdraganda Alþingiskosninga. Þeir hafa sýnt starfi skólans mikinn áhuga, ekki síst á sviði rannsókna og nýsköpunar, auk þess sem athygli hefur beinst að mikilvægu starfi Vísindagarða HÍ. Með Vísindagörðunum er enda byggð traust brú á milli HÍ og atvinnulífsins og þannig stuðlað markvisst að aukinni nýsköpun á Íslandi. Ný atvinnutækifæri fyrir vel menntað ungt fólk eru úrslitaatriði fyrir framtíð okkar Íslendinga.

Í vikunni hefur mannlífið blómstrað hér á háskólasvæðinu. Við megum vera stolt af því hversu vel okkur tókst upp á þeim tíma þegar fjarnám einkenndi nær allt starfið. En ekkert fær því breytt að við erum samfélag sem kraumar og stefnumót fólks með ólíkar hugmyndir er tær uppspretta tækifæra. Það hefur verið frábært að sjá hvernig nemendur og starfsfólk hafa sýnt ábyrgð í verki og tekið höndum saman við að verja dýrmætt samfélag okkar allra með því að framfylgja sóttvarnarreglum. Höldum áfram á sömu braut.

Förum að öllu með gát kæru nemendur og samstarfsfólk og njótum helgarinnar sem best við megum.

Jón Atli Benediktsson, rektor."

""