Skip to main content
22. október 2021

Frjótt samstarf HÍ, Matís og atvinnulífsins hefur leitt til efnahagslegra framfara

Frjótt samstarf HÍ, Matís og atvinnulífsins hefur leitt til efnahagslegra framfara - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (22. október):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Að brautskrást frá Háskóla Íslands er gríðarlega mikilvægur áfangi sem markar lokin á kafla í lífi hvers einstaklings um leið og hann er upphafið að öðrum. Háskóli Íslands hefur verið settur á meðal bestu háskóla heims í röskan áratug á þeim listum sem hæst eru metnir, einn íslenskra háskóla.

Nú í vikunni var HÍ metinn í 50. sæti á lista tímaritsins Times Higher Education yfir þá háskóla sem best standa meðal þjóða þar sem efnahagslífið er í hraðri framþróun. Þetta er enn einn gæðastimpillinn á allt starf skólans og áhrif hans á samfélagið.

Þessi vitnisburður minnir okkur enn og aftur á að prófgráða frá HÍ stenst fyllilega alþjóðlegar gæðakröfur og veitir aðgang að framhaldsnámi í flestum virtustu háskólum heims auk þess að vera gjaldgeng í atvinnulífi, ekki bara hér heima heldur um víða veröld.

Í dag taka hartnær þrjú hundruð kandídatar við prófskírteinum sínum frá Háskóla Íslands en metfjöldi hefur brautskrást frá skólanum á þessu 110. afmælisári skólans. Engin formleg athöfn er að þessu sinni en kandídötum býðst að sækja prófskírteini sín í anddyri Háskólabíós milli kl. 9 og 15 í dag.

Þessir tæplega þrjú hundruð kandídatar munu nú tilheyra hópi þeirra nær 55 þúsund brautskráðra nemenda HÍ sem hafa mótað íslenskt samfélag allar götur síðan 1911. Ég óska þeim innilega til hamingju með þennan merka áfanga og velfarnaðar í framtíðinni.

Í gær beindi Félag háskólakvenna, með málþingi í Hátíðarsal HÍ, sjónum okkar að stöðu drengja og ungra karlmanna í menntakerfinu, óháð skólastigi, en konur eru nú meirihluti háskólanema á Íslandi. Félag háskólakvenna hefur starfað síðan 1928 m.a. með það að markmiði að hvetja og styrkja konur til mennta. Það er okkur sem samfélagi mikilvægt að tryggja fjölbreytileika og jafnrétti í víðum skilningi innan háskólasamfélagsins og var málþing Félags háskólakvenna gott innlegg í umræðuna.

Háskóli Íslands er uppspretta skapandi hugsunar og vettvangur frjálsrar þekkingarleitar sem leiðir af sér nýsköpun á öllum sviðum. Þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir íslenskt atvinnulíf og okkur öll. Í gær var hér í skólanum þing til heiðurs Sigurjóni Arasyni, prófessors emeritus í matvælaverkfræði sem hefur látið mikið að sér kveða í nýsköpun og þróun hugmynda sem hafa skipt sköpum fyrir fjölda fyrirtækja í íslenskum sjávarútvegi og fyrir greinina í heild.

Hugmyndir Sigurjóns og samstarfsaðila hafa orðið kveikjan að nær óteljandi breytingum í matvælaiðnaði sem hafa ekki aðeins aukið verðmæti íslenskra sjávarafurða um milljarða króna, á sama tíma og afli hefur dregist saman, heldur stuðlað að aukinni sjálfbærni í íslensku atvinnulífi. Afar frjótt samstarf Háskóla Íslands, Matís og atvinnulífsins undir leiðsögn Sigurjóns hefur sýnt hvernig þekkingarsköpun og rannsóknir hafa víðtæk áhrif og nýtast til að styðja við efnahagslegar framfarir í anda heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Þetta sýnir okkur svart á hvítu að það er þekkingin og hugvitið sem munu skipta öllu máli varðandi lífskjör okkar í framtíðini.

Kæru nemendur og samstarfsfólk. Í vikunni bárust afar góð tíðindi frá stjórnvöldum þegar létt var á sóttvarnarreglum. Grímuskyldu hefur verið aflétt og almennar fjöldatakmarkanir eru nú bundnar við 2.000 manns. Regla um nándarmörk er áfram 1 metri. Þrátt fyrir að nú horfi til betri vegar hvað varðar útbreiðslu kórónuveirunnar vil ég hvetja ykkur öll til að sinna áfram einstaklingsbundnum sóttvörnum til verndar þeirri góðu stöðu sem hefur áunnist með ykkar seiglu og samstöðu.

Njótum helgarinnar sem best við getum núna þegar sumar og vetur mætast, en fyrsti dagur vetrar er einmitt á laugardag.

Jón Atli Benediktsson, rektor“

Frá afhendingu prófskrírteina við Háskóla Íslands.