Skip to main content
14. maí 2020

Förum gætilega inn í íslenskt sumar

Förum gætilega inn í íslenskt sumar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu til starfsfólks og nemenda í dag:

Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Okkur berast nú æ jákvæðari tíðindi af baráttunni við COVID-19 hérlendis. Það er afar gleðilegt að fá slíkt veganesti inn í verkefni dagsins og í sumarið sem við tökum opnum örmum. Ég vil í dag vekja athygli á vinnufyrirkomulagi og aðgengi að byggingum við rýmkun á samkomubanni og tilhögun á sumarnámi og -störfum sem munu senn standa til boða. 

Opnanir og aðgengi að byggingum Háskóla Íslands

Almennt eru byggingar Háskóla Íslands opnar nemendum og starfsfólki eins og fram kemur á vefsíðu skólans.
•    Nú hefur einnig að fullu verið fallið frá því að byggingar Háskólans séu lokaðar frá hádegi á föstudögum til hádegis á mánudögum.
•    Á Háskólatorgi, í lesrýmum og í tölvuveri er fjöldi sæta við borð takmarkaður samkvæmt 2M reglunni. Jafnframt er hámarksfjöldi í einstökum rýmum takmarkaður við 50 manns, sbr. auglýsingu stjórnvalda. Sama fyrirkomulag gildir í öðrum byggingum Háskólans.

Vinnufyrirkomulag

Á síðustu vikum meðan byggingar Háskólans voru lokaðar vann starfsfólk almennt heima. Frá og með 18. maí gildir sú meginregla að starfsfólk mæti á vinnustað nema í sérstökum tilvikum:
•    Starfsfólk með eigin skrifstofur mæti til vinnu samkvæmt venju.
•    Starfsfólk sem deilir skrifstofum mæti til vinnu í samráði við yfirmann, en gert er ráð fyrir að sem flestir geti sinnt vinnu með hefðbundnum hætti. Í opnum rýmum skulu vera a.m.k. 2 metrar (2M) á milli starfsstöðva.
•    Starfsfólki með undirliggjandi sjúkdóma, s.s. æða- og hjartasjúkdóma, sykursýki, lungnasjúkdóma, ónæmisbældum einstaklingum og þunguðum konum, er bent á að þeim er heimilt að vinna heima. Þeir sem eru með eigin skrifstofur og kjósa frekar að mæta, þurfa að gæta að heilsu sinni og virða 2M regluna.
•    Þrif húsnæðis er með hefðbundnum hætti en með sérstakri áherslu á hreinsun snertiflata.

Sumarnám

Þau ánægjulegu tíðindi bárust í vikunni að mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur veitt Háskóla Íslands 250 m.kr. styrk til að bjóða sumarnám við skólann. Við skipulag sumarnámsins hefur verið leitast við að koma til móts við þarfir núverandi háskólanema, nýnema, nema sem ekki uppfylla inntökuskilyrði skólans eða vilja styrkja undirbúning sinn fyrir háskólanám og nema sem hafa íslensku sem annað mál. 

•    Boðið verður upp á ýmis undirbúningsnámskeið og aðfaranámskeið, m.a. í raungreinum og íslensku, námskeið í akademískum vinnubrögðum, námskeið í íslensku sem öðru máli, valnámskeið á háskólastigi á öllum fræðasviðum, námskeið um nýsköpun og samfélagsþátttöku, námskeið í tæknifræði o.fl. 
•    Námskeiðin sem í boði verða eru bæði til eininga og almenn námskeið án eininga. 
•    Nemendur Háskóla Íslands sem skráðir eru til náms háskólaárið 2019-2020 geta tekið sumarnámið án þess að greiða skrásetningargjald enda tilheyrir sumarmisserið skólaárinu 2019-2020. 
•    Nánari kynning á framboði og tilhögun sumarnámsins fer fram í næstu viku.

Sumarstörf

Háskóli Íslands hefur óskað eftir að ráða 350 sumarstarfsmenn í sérstöku átaki stjórnvalda til að fjölga tímabundnum störfum fyrir nemendur í sumar. 

  • Á næstu dögum mun liggja fyrir hve mörg störf koma í hlut Háskóla Íslands.
  • Störfunum verður skipt á milli fræðasviða og miðlægrar stjórnsýslu og mun hvert svið taka ákvörðun um úthlutun starfa innan sviðsins byggt á umsóknum um sumarráðningar. 
  • Starfsfólk getur sótt um að ráða nemendur í sumarstörf til kl. 16 föstudaginn 15. maí nk. 
  • Nemendur geta sótt um störf frá þriðjudeginum 26. maí nk. 
  • Nánari upplýsingar um átakið er að finna á Uglu.
  • Átakið verður auglýst í fjölmiðlum og á vef Vinnumálastofnunar

Margir óska þess nú heitt eftir harðan vetur að ferðast til fjarlægra staða en verum líka minnug þess að landið okkar er ákjósanlegt til ferðalaga. Þegar ég sá fífla skjóta upp kollinum hérna á Melunum í vikunni varð mér hugsað til Áfanga, ljóðs Jóns Helgasonar sem bar saman skrautleg suðræn blóm, sólvermd í hlýjum garði og melgrasskúfinn harða sem þekkir ekkert nema hið bjarta íslenska sumar. Hugum áfram hvert að öðru og njótum alls sem við höfum. Nú þegar hömlur eru að losna er brýnt að við gleymum okkur ekki í amstri dagsins. Munum að við erum öll almannavarnir og berum mikla ábyrgð hvert og eitt.

Gangi ykkur vel kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Með kærri kveðju,
Jón Atli Benediktsson, rektor“

 

Askja