Skip to main content
14. maí 2020

Stjórnvöld styðja sumarnám við Háskóla Íslands

Háskóli Íslands býður upp á fjölbreytt sumarnám sem mun henta bæði þeim sem eru nú þegar í námi og öðrum sem hyggja á háskólanám eða vilja efla færni sína. Stjórnvöld hafa veitt háskólum landsins samtals hálfan milljarð króna til sumarnáms og fær Háskólinn helming þeirrar upphæðar. Greint var frá þessu á blaðamannafundi mennta- og menningarmálaráðherra og félags- og barnamálaráðherra um aðgerðir í þágu námsmanna vegna COVID-19-faraldursins í gær. 

Með þessari aukafjárveitingu til háskóla vilja stjórnvöld sporna gegn atvinnuleysi og efla menntun meðal ungs fólks en fyrirséð er að hefðbundin sumarstörf nemenda í háskólum standa ekki til boða í sama mæli og áður vegna samfélagsástandsins.  

Markhópur þessara sérstöku námsúrræða eru bæði núverandi háskólanemar, nemendur sem ljúka námi úr framhaldsskóla nú í vor og vilja sækja undirbúningsnám fyrir háskólanám, aðrir framtíðar háskólanemar og þau sem vilja styrkja stöðu sína á vinnumarkaði, brúa færnibil eða skipta um starfsvettvang.

Háskóli Íslands hefur líkt og aðrir háskólar unnið með stjórnvöldum að skipulagningu sumarnáms undanfarnar vikur en gert er ráð fyrir að það fari fram á tímabilinu 1. júní til 15. ágúst og getur lengd einstakra námskeiða verið frá einni og upp í tíu vikur. 

Í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 í gær sagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands að skólinn myndi bjóða núverandi nemendum bæði upp á sérstök valnámskeið og vefnámskeið í samstarfi við erlenda háskóla. Nemendum sem hygðust hefja háskólanám í haust yrði enn fremur boðið upp á fjölbreytt undirbúningsnámskeið. „Þar á meðal erum við með ýmis tungumálanámskeið og námskeið í íslensku sem öðru máli,“ sagði Jón Atli.

Reiknað er með að námsframboð sumarsins verði aðgengilegt á vefjum Háskóla Íslands í lok næstu viku en Jón Atli bendir á að námskeiðin dreifist yfir sumarið og verður umsóknarfrestur auglýstur í næstu viku. 

Sem fyrr segir veita stjórnvöld 500 milljónir króna til sumarnáms í háskólum landsins og munu 250 milljónir koma í hlut Háskóla Íslands.

Almennt er gert ráð fyrir að einvörðungu verði innheimt skráningargjöld af nemendum að hámarki 3.000 krónur fyrir hvert námskeið en nemendur sem eru þegar innritaðir í nám í háskólum á vorönn 2020 þurfa ekki að greiða skráningargjald vegna sumarnáms í sama skóla. Undantekningar geta verið ef efniskostnaður telst vera umtalsverður þ.e. kostnaður umfram kennslu og kennslubúnað. 

Til viðbótar sumarnámi hyggst Háskóli Íslands bjóða upp á fjölmörg sumarstörf fyrir námsmenn en unnið er að skilgreiningu þeirra í samstarfi við bæði stjórnvöld og Vinnumálastofnun. 

frá Háskólatorgi