Skip to main content
7. febrúar 2023

„Alltaf mikið nám farið fram í þessu húsi“

„Alltaf mikið nám farið fram í þessu húsi“ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Ingibjörg Ólafsdóttir var hótelstjóri Radisson Sas Hótel Sögu frá 2012 allt til lokunar árið 2020 og því síðasti hótelstjóri hótelsins. Í dag starfar Ingibjörg hjá Háskóla Íslands og vinnur meðal annars að undirbúningi flutnings Menntavísindasviðs og fleiri starfseininga í Sögu en óhætt er að segja að fáir þekki bygginguna og sögu Sögu jafn vel.  

„Ég fylgdi með kaupunum,“ segir Ingibjörg brosandi og segist spennt fyrir því að fá að koma vonandi að framhaldsrekstri í húsinu og að því að halda á lofti sögu og menningu hússins. „Segja má að Hótel Saga hafi ekki einungis verið hótel heldur menningarstofnun, þar sem alls konar starfsemi fór fram. Á þessum tíma var þetta fyrsta stóra hótelið sem opnaði. Loftleiðir er opnað stuttu síðar, svo Hótel Esja. Upphaflega hugmyndin að Hótel Sögu var að vera afdrep fyrr bændur þegar þeir kæmu í bæinn, sem svo varð að þessu stóra húsi og því yfirleitt kölluð Bændahöllin.

Hótel Saga var opnuð árið 1962 og hönnuð af Halldóri H. Jónssyni arkitekt, sem er kunnur höfundur þjóðþekktra bygginga í Reykjavík á þessum tíma. Þess ber að geta að nýlega kom út samnefnt bókverk um byggingar sem hann teiknaði, þar á meðal Hótel Sögu. Byggingin hafði sögulegt og menningarlegt gildi á svo margan hátt. Bæði var þetta fyrsta stóra hótelið í bænum auk þess sem Halldór bæði hannaði hótelið og valdi öll húsgögnin og var undir miklum áhrifum hönnunar Royal hótelsins í Kaupmannahöfn sem er hannað af Arne Jakobsen.“

Hvernig var andrúmsloftið á Hótel Sögu í upphafi?

„Þetta var eina hótelið sem gat hýst erlent fyrirfólk. Hingað komu þjóðhöfðingjar og listamenn og gistu í forsetasvítunni sem var sú glæsilegasta á þeim tíma. Þetta var á sjöunda áratugnum, glamúr og síðkjólar. Kóngar og drottningar Norðurlanda- og Evrópuþjóða gistu á Sögu og fjöldinn allur af listafólki. Á meðal þeirra sem gistu á Hótel Sögu voru Ella Fitzgerald, Louis Armstrong, tónlistarmaðurinn Prince og Leonard Cohen gisti hér reglulega svo það er mikil listasaga í þessu húsi.“

Súlnasalurinn var opnaður fyrst, svo Grillið skömmu síðar og Átthagasalurinn í kjölfarið. Grillið var opið frá sjö á morgnana til ellefu á kvöldin. Á þessum tíma var ekki mikil samkeppni í veitingageiranum, Naustið var starfandi á Vesturgötu, svo Grillið var kærkomin viðbót við veitingaflóruna. Yfirleitt voru um tíu til tólf þjónar á vakt á Grillinu í einu og þar voru allar opinberar veislur haldnar meira og minna, allt þar til Hilton opnaði að sögn Ingibjargar.

„Það fór heilmikið nám hér fram á Hótel Sögu. Þótt það hafi ekki verið akademískt nám líkt og stefnt er að í húsinu næst þá fór heilmikill skóli hér fram. Hótel Saga var eitt af þeim hótelum sem lagði mikið upp úr fagmennsku og hér störfuðu nánast eingöngu faglærðir þjónar og kokkar. Gríðarlega margir nemar fóru í gegnum hótelið og lærðu hér. Þegar horft er yfir veitingahúsaflóruna hér á landi þá sést að margir lykilstarfsmanna á hótelum í dag lærðu á Hótel Sögu. Hér hafa orðið til hjónabönd og hér hafa þrjár kynslóðir starfað. Mikil fjölskyldustemning hefur ríkt í húsinu en ávallt lögð gríðarleg áhersla á fagmennsku. Það má því segja að í þessari byggingu hafi verið mikil uppspretta nýrrar þekkingar.“

„Andinn hefur alltaf haldist. Fyrrverandi starfsfólk hér og fjöldi fólks fylgist vel með og er áhugasamt um framtíð hússins. Ég hef trú á því að þessi góði andi muni haldast í þessu merka húsi sem er svo fullt af minningum, menningu og sögu. Mér finnst dásamlegt að húsið muni áfram vera fullt af ungu fólki og fjölbreyttar starfsstöðvar,“ segir Ingibjörg Ólafsdóttir, fyrrverandi hótelstjóri Hótel Sögu.

Átti að taka upp Bachelorette á Hótel Sögu

Saga hótelsins spannar áratugi en það verður ekki hjá því komist að spyrja út í tímann þegar COVID-19-heimsfaraldurinn skall á
„Þetta er súrrealískt tímabil í raun og veru en rekstrarerfiðleikar hótelsins áttu sér lengri sögu. Það var farið í gríðarlegar framkvæmdir árið 2016 þegar hálfri hæð var breytt í herbergi sem skilaði góðum hagnaði, svo ákveðið var að gera meira. Í kjölfarið var farið í uppbyggingu á veitingahlutanum þegar byrjað var að endurgera Súlnasal í fyrsta sinn frá 1962. Sú framkvæmd olli miklu raski og truflun, samkeppnin var orðin mikil á þessum tíma svo mikil viðskipti duttu niður. Svo þegar heimsfaraldurinn skall á stóð Hótel Saga ekki vel. Reksturinn stóð ekki undir skuldum fasteignafélagsins. Aftur á móti átti árið 2020 að verða stórt. Búið var að skrifa undir risasamning um að taka upp þáttaröð af Bachelorette á Hótel Sögu sem við vorum búin að vinna að í langan tíma. Ýmsar ráðstefnur höfðu einnig verið skipulagðar en svo skellur heimsfaraldurinn á og við horfðum á allar bókanir hverfa. Segja þurfti fyrst stórum hluta starfsfólks upp svo á endanum þurfti að segja öllum upp og loka hótelinu. Hótel Sögu var því lokað þann 1. nóvember árið 2020. Þetta var ofboðslega skrítið ástand. Auðvitað var fólk sárt að svona skyldi málum vera háttað en það voru engin leiðindi eða særindi og þrátt fyrir að hótelinu hafi verið lokað þá er mikil velvild í garð þessa húss.“ 

„Þetta er miklu meira en hús, þetta er þorp.“

Í tíð Hótel Sögu fór oft um tvö þúsund manns í gegnum húsið á góðum degi. Veislur oft haldnar samtímis í öllum sölum, fullt var í öllum fundasölum og öll herbergi bókuð jafnvel. „Þetta er því miklu meira en hús, þetta er þorp. Meðalstórt þorp út á landi. Hér hefur verið veitt mikil þjónusta og fólk er vant því að hlaupa fram og til baka til sinna gestum eða samstarfsfólki. Það gerir þetta að svona góðu húsi með góðum anda. Andinn hefur alltaf haldist. Fyrrverandi starfsfólk hér og fjöldi fólks fylgist vel með og er áhugasamt um framtíð hússins. Ég hef trú á því að þessi góði andi muni haldast í þessu merka húsi sem er svo fullt af minningum, menningu og sögu. Mér finnst dásamlegt að húsið muni áfram vera fullt af ungu fólki og fjölbreyttar starfsstöðvar. Ég vona líka að vel takist til með veitingareksturinn í húsinu og að hér verði opið hús fyrir gesti og gangandi. Í þessum flutningi felast gríðarleg tækifæri fyrir háskólann í heild sinni og Menntavísindasvið, fyrir almenning í hverfinu og Reykjavík. Ég veit að þetta verður farsælt og að bæði starfsfólki og nemendum á eftir að líða vel í þessu húsi. Ég hlakka til að fylgjast með framhaldssögunni.“

Framkvæmdir í Sögu utan húss ganga vel

Samkvæmt Kristni Jóhannessyni, sviðsstjóra framkvæmda- og tæknisviðs hjá Háskóla Íslands, ganga framkvæmdir í Sögu utanhúss ágætlega og eru verklok að utan áætlaðar í október 2023. „Verið er að rífa innan úr 5. hæðinni og kjallara. Félagsstofnun stúdenta er á lokametrum með innréttingu stúdentaíbúða og við erum byrjuð að huga að lagfæringum á 2. hæð norður (ráðstefnuhæðinni) og vonumst til að hún verði nothæf í haust 2023“, segir Kristinn.

Ekki er byrjað að byggja upp að innan á þeim hæðum sem munu koma til með að hýsa  Menntavísindasvið. „Vinna við útboðsgögn gengur vel og áætlað er að verkið verði boðið út í mars 2023, þ.e. að gera rýmin tilbúin fyrir innréttingar. Farið verður í framhaldinu í lagfæringar á 3. hæð suður (skrifstofur Bændasamtakanna) þegar ljóst er hvernig hæðin verður notuð en ekki er gert ráð fyrir miklum breytingum þar. Við erum nýbyrjuð að opna kjallararýmið, svokallaða 0. hæð, rífa niður milliveggi og ráðgert er að grafa út og hleypa inn birtu. Þetta verkefni sækist ágætlega en það sem truflar helst er að gæta þarf að þeim kerfum sem í byggingunni eru,“ segir Kristinn.

Um þessar mundir er unnið við að fjarlægja milliveggi og hreinsa út af af 5. hæð sunnanmegin en sú hæð mun tilheyra Menntavísindasviði sem jafnframt mun nýta 3. og 6. hæð. Vegna framkvæmda er aðgengi erfitt að byggingunni, en stefnt er að því að bjóða áhugasömu starfsfólki að skoða húsnæðið síðar í vor. Helsti kostur hússins er mikil náttúruleg birta og útsýni af nánast öllum hæðum. Þá munu gagngerar breytingar á 0. hæð skapa þar skemmtileg rými til kennslu og sköpunar af ýmsum toga. 

Hér má skoða allar fréttir um framkvæmdir í Sögu

Myndir af framkvæmdum í Sögu eru teknar 3. febrúar 2023.

Myndir: Kristinn Ingvarsson.

Inigbjörg Ólafsdóttir