Skip to main content
30. nóvember 2020

Aldarafmæli Stúdentaráðs Háskóla Íslands fagnað

Aldarafmæli Stúdentaráðs Háskóla Íslands fagnað - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Hagsmunagæsla Stúdentaráðs skiptir gríðarlega miklu máli en við erum í forsvari fyrir tæplega 15 þúsund stúdenta, sem fjölgar ört um þessar mundir. Nemendahópurinn er auðvitað mjög fjölbreyttur og það þarf að tryggja að þeim fjölbreytileika sé mætt með jafnrétti að leiðarljósi.“ 

Þetta segir Isabel Alejandra Diaz, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands, en hún undirbýr nú af kappi aldarafmæli ráðsins. Sérstakur viðburður helgaður afmælinu verður í beinni útsendingu á netinu á föstudaginn kemur, þann 4. desember, milli kl. 18 og 19.30. 

Afmæli Stúdentaráðs Háskóla Íslands markar mikil tímamót í hagsmunabaráttu stúdenta sem hefur sett svip sinn á íslenskt samfélag frá því að stúdentar gengu fyrst til kosninga í desember árið 1920.

Isabel segir að það hafi reynst flóknara en vænst var að fagna tímamótunum í því ástandi sem nú ríkir í samfélaginu vegna heimsfaraldurs. „Við hófum árið á opnunarhátíð í Gamla bíói þann 31. janúar sl. og svo áttu að vera viðburðir yfir allt skólaárið. Októberfest, stærsti árlegi viðburðurinn okkar, átti til að mynda að vera með aldarafmælisívafi en við urðum að aflýsa þeim viðburði með miklum trega en auðvitað sannfærð um að það væri það rétta í stöðunni,“ segir Isabel. 

„Við gátum þó haldið fjarbingó í október sem heppnaðist mjög vel og pub quiz fyrir alþjóðanema. Við erum með ýmislegt á döfinni fyrir afmælisvikuna, sem er núna í gangi og hlökkum mjög til að sýna öllum! Annars erum við raunar að vonast til þess að geta bætt þetta upp á næsta ári – framlengja afmælið!“

Þótt stúdentar fagni því nú að ráðið þeirra sé hundrað ára gamalt eru ekki allir landsmenn með á hreinu fyrir hvað það stendur. Isabel segir að hlutverk Stúdentaráðs sé fyrst og fremst að gæta hagsmuna stúdenta við Háskóla Íslands. Á réttindaskrifstofu Stúdentaráðs starfi fulltrúar stúdenta sem veita þeim stuðning, liðsinna með hagsmunamál og tala máli þeirra. Þar eru t.a.m. lánasjóðsfulltrúi, hagsmunafulltrúi og alþjóðafulltrúi við störf. Hún segir að dagleg verkefni ráðsins séu þannig mörg og fjölbreytt, allt frá því að skrifa umsagnir eða ályktanir yfir í að skipuleggja viðburði fyrir stúdenta.

Isabel segir að Stúdentaráð hafi beitt sér fyrir ýmsum málum í gegnum árin, sum hafi tekið nokkur ár í vinnslu og önnur sem fyrir löngu séu komin af stað séu enn þá í gangi, en hver áfangi sé skref í rétta átt. „Ég má til með að nefna stóra áfanga á borð við stofnun Félagsstofnunar stúdenta, sem allir skráðir stúdentar við Háskólann eiga aðild að. Það er enda markmið FS að bjóða stúdentum afbragðsþjónustu á góðum kjörum. Stúdentaíbúðirnar fyrir utan Gamla Garð væru ekki að rísa ef ekki væri fyrir þrautseigju stúdenta – það var einmitt stóra hagsmunamálið í forgrunni þegar ég hóf hér nám.“ 

„Reynslan og þekkingin sem við öðlumst á þessum tíma, bæði í námi og hagsmunabaráttunni, er dýrmæt og eiga sér vettvang eftir háskólanám. Ég lít þó á það þannig að stúdentar gangi til  liðs við Stúdentaráð vegna þess að þeir brenna fyrir málefnum og hag stúdenta. Stúdentar brenna svo fyrir samfélagslegum breytingum og þess vegna finni þeir grundvöll fyrir sína rödd á stóra sviðinu en ekki öfugt,“ segir Isabel.

Stúdentaleiðtogar láta að sér kveða 

Fjölmargir leiðtogar stúdenta hafa látið að sér kveða í samfélagi og atvinnulífi í áranna rás. Á dögunum fékk t.d. Elísabet Brynjarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og fyrrverandi forseti Stúdentaráðs, viðurkenningu sem framúrskarandi ungur Íslendingur. Viðurkenningin kemur fyrir framlag Elísabetar á sviði mannúðar- og sjálfboðastarfa.

Sumir stúdentaleiðtogar hafa haslað sér völl í stjórnmálum og stundum er fullyrt að Stúdentaráð sé nokkurs konar æfingasvæði fyrir verðandi pólitíkusa á stóra sviðinu. Einfalt er að benda á fjölmarga fyrrverandi formenn Stúdentaráðs sem hafa haslað sér völl í pólitík, t.d. Hildi Björnsdóttur borgarfulltrúa, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, fyrrverandi borgarstjóra og þingmann, Björn Bjarnason, fyrrverandi menntamálaráðherra og þingmann, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fyrrverandi borgarstjóra, utanríkisráðherra og alþingismann, Dag B. Eggertsson borgarstjóra, Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi umhverfisráðherra, iðnaðarráðherra, utanríkisráðherra og þingmann, og Ellert B. Schram, fyrrverandi þingmann. 

„Hagsmunabarátta stúdenta er auðvitað í eðli sínu pólitísk,“ segir Isabel, „og oft félagshyggjumiðuð vil ég meina. Það er því ekki óeðlilegt að einstaklingar haldi áfram að láta sig málin varða eftir háskólanám. Reynslan og þekkingin sem við öðlumst á þessum tíma, bæði í námi og hagsmunabaráttunni, er dýrmæt og eiga sér vettvang eftir háskólanám. Ég lít þó á það þannig að stúdentar gangi til liðs við Stúdentaráð vegna þess að þeir brenna fyrir málefnum og hag stúdenta. Stúdentar brenna svo fyrir samfélagslegum breytingum og þess vegna finni þeir grundvöll fyrir sína rödd á stóra sviðinu en ekki öfugt.“

Aldarafmælið verður í beinni

Stúdentaráð er um þessar mundir að vinna að heimildaþætti um sögu ráðsins og verður sýnishorn frumsýnt á hátíðinni á föstudag.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, mun opna hátíðina formlega en hann verður heiðursgestur ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Lilju D. Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra.

Isabel mun sjálf ávarpa samkomuna eins og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. Þá mun söngkonan GDRN stíga á svið og Vigdís Hafliðadóttir, fyrrverandi stúdentaráðsliði, flytja uppistand.

Öll eru auðvitað velkomin í afmælið og verður hægt að fylgjast með því hér

Isabel Alejandra Diaz