Skip to main content

Ungu fólki gefin rödd

Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor við Uppeldis- og menntunarfræðideild

„Meginmarkmið rannsóknarinnar er að öðlast þekkingu og skilning á borgaravitund ungs fólks á aldrinum 11, 14 og 18 ára. Leitað er eftir hugmyndum unga fólksins um lýðræði og mannréttindi. Þá eru til dæmis könnuð þau áhrif sem unga fólkið vill hafa í samfélagi sínu. Þannig er því gefin rödd.“

Þetta segir Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor við Menntavísindasvið, en hún hóf nýlega stóra rannsókn á borgaravitund ungs fólks í lýðræðisþjóðfélagi. Sigrún segir brennandi áhuga sinn á hag barna og ungmenna kveikjuna að rannsókninni en hún vilji finna hvernig best megi hlúa að heill ungu kynslóðarinnar í samtíð og framtíð, bæði í hennar eigin þágu og í þágu samfélagsins.

Sigrún Aðalbjarnardóttir

„Meginmarkmið rannsóknarinnar er að öðlast þekkingu og skilning á borgaravitund ungs fólks á aldrinum 11, 14 og 18 ára. Leitað er eftir hugmyndum unga fólksins um lýðræði og mannréttindi.“

Sigrún Aðalbjarnardóttir

„Ég tel að búa þurfi börn og ungmenni betur undir virka og ábyrga þátttöku í samfélaginu, efla sjálfsvirðingu þeirra, samlíðan og samábyrgð og ná um leið betra jafnvægi á milli einstaklingshyggju og samfélagshyggju. Lýðræðisþjóðfélög kalla á virkari þátttöku borgaranna í samfélagsmálum en hún er ein meginstoða lýðræðis. Fólk hefur ýmsan rétt en um leið ábyrgð og skyldur gagnvart öðru fólki og náttúru,“ segir Sigrún.

Hún segir borgaravitund íslenskra ungmenna lítt kannaða og að með rannsókninni gefist tækifæri til að fá fram sýn þeirra og bera hana saman við borgaravitund ungmenna í öðrum löndum.

Sigrún segir að rannsóknin taki líka til ýmissa annarra þátta, bæði af sálfræðilegum og uppeldis- og menntunarfræðilegum toga, sem ekki hafi verið athugaðir á alþjóðavettvangi.

Hún segir stefnt að því að setja fram nýtt fræðilíkan til að greina borgaravitund ungmenna og að vonir séu bundnar við að nýta megi niðurstöðurnar í starfi með ungu fólki og leggja jafnframt grunn að hagnýtum rannsóknum á þessu sviði.