Skip to main content

Saga hreindýranna

Unnur Birna Karlsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Austurlandi

Í Sjálfstæðu fólki eftir Halldór Laxness er sagt frá reið Bjarts í Sumarhúsum á hreintarfi yfir Jökulsá þar sem hann kemst nær dauða en lífi yfir ána, með hendur á hornum, svellkaldur af volkinu og þrekaður en í sögunni hefur hreinninn betur í baráttu sinni við bóndann.

Í þessu mikla verki Halldórs Laxness fáum við skáldlega innsýn í samskipti manns og hreins en samspil manna og hreindýra er einmitt partur af nýju rannsóknarverkefni við Háskóla Íslands.

„Rannsóknin fjallar fyrst og fremst um hreindýrið í tengslum við manninn og því dregur hún fram menningarlega og að einhverju leyti efnahagslega þýðingu hreindýranna hér á landi en einnig hvern sess þau skipa í hugum Íslendinga sem hluti af villtri íslenskri náttúru,“ segir Unnur Birna Karlsdóttir sem vinnur að rannsókninni.
 

Unnur Birna Karlsdóttir

„Rannsóknin fjallar fyrst og fremst um hreindýrið í tengslum við manninn og því dregur hún fram menningarlega og að einhverju leyti efnahagslega þýðingu hreindýranna hér á landi en einnig hvern sess þau skipa í hugum Íslendinga sem hluti af villtri íslenskri náttúru.“

Unnur Birna Karlsdóttir

Rannsókn Unnar Birnu er á sviði umhverfissögu og snýst um sögu hreindýra hér á landi allt frá því þau voru flutt hingað á seinni fjórðungi 18. aldar og til þessa dags.

„Meginmarkmiðið er að kanna hvern sess hreindýrin hafa skipað í viðhorfum Íslendinga frá því þau komu og þar til nú og greina hvort og hvaða breytingar urðu á afstöðu landsmanna til þeirra,“ segir Unnur Birna og bætir því við að hún vilji líka skoða útbreiðslusögu dýranna og feril og þróun friðunar og veiða. „Í stuttu máli má segja að rannsókninni sé ætlað að komast að því hvert hlutverk hreindýranna er í íslenskri náttúrusýn og hvernig viðhorf til þeirra endurspeglar afstöðu Íslendinga til náttúru landsins í víðara samhengi.“

Unnur Birna segir að áhuginn á viðfangsefninu hafi kviknað eftir að hún flutti á Fljótsdalshérað en „þá blasti fljótlega við mér hve stóran þátt hreindýrin hafa í menningu og sögu Austurlands. Þar sem ég hef tileinkað mikinn hluta af mínum fræðimannsferli rannsóknum á sambúð manns og náttúru þá fannst mér tilvalið að rannsaka sögu hreindýra hér fengi ég til þess tækifæri, sem svo varð.“

Unnur Birna stefnir að því að birta niðurstöður verkefnisins í sérstakri bók sem ætlunin er að komi út vorið 2017 eða í síðasta lagi haustið 2017, „allt eftir því hve langan tíma ritrýni, lagfæringar og annað tekur í útgáfuferlinu.“

Hreindýr setja mikinn svip á náttúru Íslands á Austurlandi en stór hluti stofnsins heldur til í stórum hjörðum á Fljótsdals- og Brúaröræfum. Nokkrar smærri hjarðir halda til á fjörðunum austanlands, allt suður í Suðursveit í Austur- Skaftafellssýslu.

Hreindýr eru ekki á Íslandi af náttúrulegum ástæðum heldur voru þau flutt hingað frá Noregi á síðari hluta 18. aldar. Í fyrstu voru örfá dýr sett á land í Vestmannaeyjum og nokkur þeirra síðan færð yfir á meginlandið, í Fljótshlíð, en þau dóu út bæði á landi og úti í Eyjum. Tveimur hópum var nokkrum árum síðar sleppt í land á Reykjanesi og í Þingeyjarsýslu og lifðu þau þar villt um hríð eða vel fram á fyrsta fjórðung 20. aldar.

Hreindýrin sem nú lifa fyrir austan eru afkomendur dýra sem sett voru á land í Vopnafirði árið 1787 þegar 35 dýrum frá Avjovarre í Finnmörku var sleppt þar lausum.