Skip to main content

Rússneskar bækur eiga erindi

Rebekka Þráinsdóttir, aðjunkt við Mála- og menningardeild

„Kennsla í rússneskum bókmenntum hefur ýmist miðast við nemendur sem eru að læra rússnesku og lesa stutta rússneska texta á frummálinu eða hina sem ekki þekkja tungumálið og lesa allt efni í þýðingum. Annað lesefni sem notað hefur verið er oft nokkuð sundurlaust ef satt skal segja.“ Þetta segir Rebekka Þráinsdóttir, aðjunkt í rússnesku, sem hyggst bæta úr því og vinnur nú ásamt Olgu Korotkovu, dósent í rússnesku við Lomonosov-háskólann í Moskvu og fyrrverandi gestakennara í rússnesku við Háskóla Íslands, að fyrstu kennslubókinni í rússneskum bókmenntum á íslensku.

Bókin hefur fengið nafnið „Frá Púshkín til Pasternaks“ en þar verður fjallað um höfuðskáld Rússlands og Sovétríkjanna á 19. og 20. öld. Hver kafli er helgaður einum höfundi og verkum hans auk þess sem birtir eru valdir textar á rússnesku með íslenskum orðalista auk orðskýringa og menningarfræðiskýringa á rússnesku.
 

Rebekka Þráinsdóttir

„Á tímum eins og við lifum núna, þar sem margir virðast óttaslegnir og uggandi um framtíð jarðarinnar og mannkynsins alls, eiga slíkar bókmenntir svo sannarlega brýnna erindi við fólk en margt annað.“

Rebekka Þráinsdóttir

Rebekka segir bókina fyrst og fremst hugsaða fyrir nemendur í rússnesku en þeir hafa hingað til reitt sig á ýmsar greinar um rússneskar bókmenntir sem birst hafa í dagblöðum, tímaritum og safnritum af ýmsu tagi. „Ég vil helst ekki gera mannamun en framlag Árna Bergmann í þessu efni er einstakt og verður varla ofmetið,“ segir hún. Enn fremur hafi hún og fleiri kennarar í rússnesku tekið ýmislegt efni saman fyrir kennslu. Þessu sé nú safnað saman í aðgengilega kennslubók sem kemur út síðar á árinu.

Rebekka segir það alltaf koma sér gleðilega á óvart hversu beint verk rússneskra rithöfunda tali til nemenda og hreyfi við þeim. „Það skiptir ekki máli hversu gamlir nemendurnir eru eða hvort höfundurinn er Púshkín, Túrgenév, Dostojevskí, Tolstoj, Tsjekhov, Majakovskí, Anna Akhmatova, Platonov, Solzhenítsyn eða Ljúdmíla Petrúshevskaja. Fólk má vera meira en lítið sinnulaust um sjálft sig og umhverfi sitt til að fara ósnortið frá þessum höfundum. Í verkum þeirra er dýpt, harmur, húmor og von sem byggir á reynslu stórrar þjóðar sem margt hefur mátt reyna,“ segir Rebekka.

Hún bætir enn fremur við að auðlegð rússneskra bókmennta hafi meðal annars verið talin felast í því að þar er leitast við að kenna mönnum hvernig hægt sé að halda áfram að vera manneskja í óbærilegum aðstæðum. „Á tímum eins og við lifum núna, þar sem margir virðast óttaslegnir og uggandi um framtíð jarðarinnar og mannkynsins alls, eiga slíkar bókmenntir svo sannarlega brýnna erindi við fólk en margt annað.“