Skip to main content

Líkn, trú og tilvist

Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir, doktor frá Guðfræði- og trúarbragðafræðideild

„Rannsóknin mín fjallar um andlega, trúarlega og tilvistarlega þætti og hvernig þeir komu fram hjá fólki sem þáði líknarmeðferð á ákveðnum tímabilum hjá líknareiningum Landspítala,“ segir Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir um doktorsverkefni sitt, en hún starfar nú sem sjúkrahúsprestur þjóðkirkjunnar á líknardeild Landspítala í Kópavogi. Að sögn Guðlaugar Helgu er líknardeildin ætluð fyrir tímabundna innlögn fólks með ólæknandi og langt genginn sjúkdóm og skertar lífslíkur. Hún segir að markmið meðferðarinnar á líknardeildinni sé að bæta lífsgæði þessara sjúklinga og fjölskyldna þeirra og draga úr líkamlegri, sálfélagslegri og andlegri þjáningu.

Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir

Líknarmeðferð hefur verið stór hluti af lífi og starfi Guðlaugar Helgu en ásamt því að helga krafta sína líknarstarfi hefur hún persónulega reynslu af líknarmeðferð þar sem móðir hennar hlaut slíka umönnun en hún lést úr krabbameini.

Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir

Líknarmeðferð hefur verið stór hluti af lífi og starfi Guðlaugar Helgu en ásamt því að helga krafta sína líknarstarfi hefur hún persónulega reynslu af líknarmeðferð þar sem móðir hennar hlaut slíka umönnun en hún lést úr krabbameini.

„Sú reynsla mín og faglega þekking ásamt hvatningu frá yfirlækni líknardeildar varð til þess að ég ákvað að hefja rannsókn á sviði líknarmeðferðar og guðfræði.“

Niðurstöðurnar úr rannsókn Guðlaugar Helgu hafa þegar verið kynntar í alþjóðlegum ritrýndum tímaritum þar sem fram kemur að hið andlega svið tilverunnar sé flókið og að andleg vellíðan virðist samofin því hvernig fólk metur lífsgæði sín á þessum erfiða tíma.

„Tengsl eru mikilvæg á þessum tíma, svo sem tengsl manneskjunnar við sjálfa sig, fjölskyldu- meðlimi og guð eða æðri mátt. Tilvistarlegar vanga- veltur birtast í tilfinningalegum sveiflum og í mismunandi hugmyndum um dauðann og líf eftir dauðann,“ segir Guðlaug Helga.

Að hennar sögn þarf að mæta þörfum fólks á þessum stað í lífinu með markvissum hætti, þar sem fólki er gefið tækifæri til að tjá andlega líðan sína og reynslu. „Samfélagsleg umræða og viðurkenning á því að við manneskjurnar höfum margbrotnar þarfir, sem m.a. lúta að andlegum málefnum og trú, skiptir máli til þess að fólk, sem stendur frammi fyrir veikindum eða erfiðleikum, fái kjark til að ræða það sem bærist hið innra og snertir t.a.m. dauðann.“

Leiðbeinandi: Einar Sigurbjörnsson, prófessor emeritus við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild.

Tengt efni