Skip to main content

Í átt að ábyrgari fjárfestingum

Lára Jóhannsdóttir, lektor í umhverfis- og auðlindafræði

Ábyrgar fjárfestingar íslenskra fjármálafyrirtækja verða viðfangsefni í rannsókn sem Lára Jóhannsdóttir, lektor í viðskiptafræði með áherslu á samfélagslega og umhverfislega ábyrgð fyrirtækja, undirbýr nú.

Lára lauk doktorsprófi frá Viðskiptafræðideild árið 2012, fyrst kvenna, en í doktorsverkefni sínu rannsakaði hún áhuga og framlag norrænna vátryggingafélaga til lausnar umhverfislegra vandamála. Þar var meðal annars komið inn á hlutverk vátryggingafélaga sem stofnanafjárfesta og hvernig nýta má fjárfestingar til góðs, t.d. til að draga úr loftslagsáhrifum.

„Ég mun leitast við að skilgreina hvað ábyrgar fjárfestingar eru og hvaða hvatar liggja til grundvallar. Þá vil ég líka komast að því hverjar eru helstu hindranir fyrir því að fjárfesta á ábyrgan máta, hver helsti ávinningurinn er og hver staða ábyrgra fjárfestinga er hér á landi,“ segir Lára.

Lára Jóhannsdóttir

„Ég mun leitast við að skilgreina hvað ábyrgar fjárfestingar eru og hvaða hvatar liggja til grundvallar.“

Lára Jóhannsdóttir

Lára starfaði sjálf um langt skeið innan fjármálageirans og þar vaknaði áhugi hennar á umbótum. Lára segir rannsóknina bæði hafa fræðilegt og hagnýtt gildi. „Hagnýta gildið felst í því að afla gagna í samfélagi sem er bæði smátt í sniðum, hefur verið í höftum og nýtir endurnýjanlega orkugjafa í meira mæli en víða er gert. Það fræðilega felst í að skilgreina ábyrgar fjárfestingar, hvata, hindranir, stöðu mála o.s.frv.“

Hún segir allt þetta skipta máli því að auknar kröfur séu nú gerðar til fyrirtækja og fjárfesta um ástundun góðra stjórnarhátta og að tillit sé tekið til umhverfis- og samfélagsmála í daglegum rekstri.

Rannsóknin hefst á árinu 2017 og hlaut Lára m.a. styrk frá Viðskiptaráði til hennar.