Skip to main content

Fylgst með gammablossum frá Kanarí

Páll Jakobsson, prófessor við Raunvísindadeild

Páll Jakobsson, prófessor í stjarneðlisfræði, hefur líkt og margir Íslendingar ferðast reglulega til Kanaríeyja á undanförnum árum. Áhugi hans á eyjunum er þó ekki bundinn við sól og sangríu heldur fremur hið gagnstæða, myrkvaðan næturhimininn og það sem hann hefur að geyma. Á tindi á eyjunni La Palma er nefnilega að finna Norræna stjörnusjónaukann (NOT) sem Íslendingar eiga hlut í en hann hefur reynst Páli og samstarfsfólki hans vel í rannsóknum á síðustu árum.

Páll vinnur nú að því að uppfæra stjörnusjónaukann ásamt norrænum starfssystkinum sínum. „Við erum að undirbúa hann fyrir komu glænýs litrófsrita sem mikið mun mæða á. Í því felst t.d. að útfæra svokallaðan viðbragðsham sem heimilar sjónaukanum að bregðast skjótt við á sjálfvirkan hátt. Stefnt er að því að hann geti snúið að viðfangsefni sínu og hafið mælingar á innan við fimm mínútum,“ útskýrir Páll.

Allt frá því að Páll lauk doktorsnámi fyrir rúmum áratug hefur hann fengist við svokallaða gammablossa sem eru björtustu og orkumestu sprengingar í alheimi og eru sýnilegar úr órafjarlægð. „Þessir blossar dofna tiltölulega hratt svo það verður að hafa hraðar hendur til þess að mælingar verði árangursríkar,“ segir hann um mikilvægi uppfærslunnar á sjónaukanum.

Páll Jakobsson

„Þessir blossar dofna tiltölulega hratt svo það verður að hafa hraðar hendur til þess að mælingar verði árangursríkar.“

Páll Jakobsson

Alþjóðlegur hópur vísindamanna, sem Páll fer fyrir, fær árlega úthlutað í kringum 20 mælinóttum við NOT til að eltast við gammablossana. „Það lá því beinast við fyrir mig að hjálpa til við að uppfæra sjónaukann,“ segir hann um aðkomu sína að verkefninu.

Síðustu mánuði hafa Páll og samstarfsfólk þróað og forritað hugbúnað sem er nauðsynlegur til að hámarka gagnsemi og samkeppnishæfni litrófsritans í sjónaukanum. „Við höfum þó einnig aðgang að fleiri sjónaukum þar sem mælingar á gammablossum hafa leitt ýmislegt í ljós. Við erum m.a. nær því en áður að finna fyrstu stjörnurnar sem mynduðust í alheiminum,“ segir Páll, spurður um niðurstöður rannsóknanna.

Þegar talið berst að þýðingu rannsóknanna stendur ekki á svari. „Rannsóknir mínar tengjast spurningunni um upphaf alheimsins og hver lætur sig ekki varða um það?! Góður meirihluti þeirra krakka sem ég hef kynnst hefur óbilandi áhuga á stjörnufræði. Ég er því handviss um að með því að tala á mannamáli við þau um rannsóknir sem þessar hafi ég heilmikil áhrif á hvað þau taka sér fyrir hendur í framtíðinni,“ segir hann að lokum.