Skip to main content

Áhrif lyfjanotkunar á meðgöngu

Helga Zoëga, prófessor í lýðheilsuvísindum

Lyf eru sjaldan prófuð á barnshafandi konum, m.a. af siðferðilegum og praktískum ástæðum, og því getur oft verið erfitt að segja til um áhrif þeirra á þennan hóp kvenna. Engu að síður er það staðreynd að margar konur þurfa að vera á lyfjum á meðgöngu vegna undirliggjandi sjúkdóma eins og háþrýstings, þunglyndis, sykursýki, ADHD og flogaveiki. Helga Zoëga, prófessor í lýðheilsuvísindum, og samstarfsfélagar hennar kanna nú hvaða gagn og áhætta fylgir ýmsum lyfjum á meðgöngu með það fyrir augum að auðvelda heilbrigðisstarfsfólki að taka ákvarðanir um meðferð barnshafandi kvenna sem þjást af ofangreindum sjúkdómum.

Helga segir ætlunina að varpa ljósi á lyfjanotkun á meðgöngu, til lengri og skemmri tíma, með því að nota fyrirliggjandi gögn um mjög stóran hóp kvenna og barna þeirra. Þannig megi meta áhrif og gagnsemi lyfja án þess að setja móður og barn í hættu. „Markmiðið er að rannsaka áhrif lyfjameðferðar á meðgöngu á fæðingarútkomur og þroska barna, þ.m.t. námsárangur. Jafnframt að kanna mögulegar afleiðingar þess að hætta lyfjameðferð fyrir heilsufar móður,“ segir Helga.

„Rannsóknir af þessu tagi krefjast mikillar og góðrar samvinnu fólks með bakgrunn úr hinum ýmsu sviðum heilbrigðis- og félagsvísinda. Það er sérstaklega skemmtilegt og mikill bónus að vinna með og vera hluti af þannig teymi, þvert á fræðigreinar og lönd.“

Helga Zoëga, prófessor í lýðheilsuvísindum

Að rannsóknunum standa öflugir hópar frá öllum norrænu ríkjunum og Bandaríkjunum og hvert land leggur til bæði gögn og mannafla. Gagnabankinn samanstendur því af upplýsingum um lyfjanotkun og heilsufar íbúa, í þessu tilfelli barnshafandi kvenna og barna, á Norðurlöndunum og stóru úrtaki kvenna og barna úr bandarískum sjúkratryggingagögnum, samtals yfir fimm milljónir fæðinga.

Helga leiðir íslenska hópinn en hann samanstendur af teymi faralds- og líftölfræðinga við Læknadeild Háskóla Íslands. „Rannsóknir af þessu tagi krefjast mikillar og góðrar samvinnu fólks með bakgrunn úr hinum ýmsu sviðum heilbrigðis- og félagsvísinda. Það er sérstaklega skemmtilegt og mikill bónus að vinna með og vera hluti af þannig teymi, þvert á fræðigreinar og lönd,“ segir Helga.

Fyrstu niðurstöður rannsóknanna liggja fyrir og Helga segir þær benda til að notkun ADHD-lyfja og beta-blokkera við háþrýstingi á fyrsta þriðjungi meðgöngu hafi veikari tengsl við fæðingargalla almennt en fyrri rannsóknir hafa bent til. Hún varar þó við að draga of sterkar ályktanir á þessu stigi rannsóknarinnar. Helga bendir jafnframt á að rannsóknir á langtímaafleiðingum flestra lyfja á meðgöngu séu enn óplægður akur og að það muni taka nokkur ár að undirbúa þær.