Skip to main content

Að ná til kvenþolenda ofbeldis í nánum samböndum

Erla Kolbrún Svavarsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild

„Tilgangurinn með rannsókninni var að kanna með hvaða hætti heilbrigðisstarfsmenn ná best til kvenna sem eru þolendur ofbeldis í nánum samböndum og sérstaklega hvort mismunandi aðferðir við að ná til þeirra skipta máli. Við könnuðum hvort viðtalsformið, það að biðja konurnar að fylla út spurningalista með blað- og blýantsaðferðinni, eða það að biðja þær að svara spurningum á tölvutæku formi, skipti máli þegar þær tjá sig um reynslu sína af ofbeldi,“ segir Erla Kolbrún Svavarsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild.

Rannsókn hennar, „Hvernig ná heilbrigðisstarfsmenn best til kvenna sem eru þolendur ofbeldis í nánum samböndum?“, er framhald af röð rannsókna sem varða ofbeldi gegn konum. „Við höfum kannað ofbeldi í nánum samböndum með landskönnun og ofbeldi meðal kvenna sem leita eftir heilbrigðisþjónustu. Eins höfum við kannað ofbeldi á áhættumeðgöngudeild og meðal líkamlegra fatlaðra kvenna hérlendis. Meginniðurstöður þessara rannsókna eru kynntar í bókinni „Ofbeldi: Margbreytileg birtingarmynd“,“ segir Erla Kolbrún.

Erla Kolbrún Svavarsdóttir

„Tilgangurinn með rannsókninni var að kanna með hvaða hætti heilbrigðisstarfsmenn ná best til kvenna sem eru þolendur ofbeldis í nánum samböndum og sérstaklega hvort mismunandi aðferðir við að ná til þeirra skipta máli.“

Erla Kolbrún Svavarsdóttir

Samkvæmt niðurstöðunum er lítið vitað í alþjóðasamfélaginu hvaða aðferðir skila bestum árangri við að greina ofbeldi. Því ákvað Erla Kolbrún að ráðast í framangreinda rannsókn. „Ofbeldi getur haft alvarleiðingar afleiðingar í för með sér fyrir heilsu kvenna. Því er mikilvægt að heilbrigðisstarfsmenn kunni að greina ofbeldi og bjóði upp á viðeigandi fyrstu viðbrögð,“ segir Erla Kolbrún.

Rannsóknin náði til 306 íslenskra kvenna. „Athyglisvert er að það var enginn marktækur munur á hvaða aðferð virkaði við að ná til þeirra. Það gefur okkur vísbendingu um að hægt sé að ná til kvenna með margvíslegum hætti,“ segir hún. Í ljósi þess hversu algengt ofbeldi er í samfélaginu segir Erla Kolbrún að miklu skipti hvernig heilbrigðisstarfsfólk nái til þolenda. „Þar sem afleiðingar ofbeldis eru miklar á heilsufar þolenda getum við með faglegum og gagnreyndum starfsháttum aðstoðað konur við að vinna sig úr þessari erfiðu lífsreynslu þannig að þær eigi bjartari framtíð en ella,“ segir hún að endingu.