Skip to main content

Veiting heiðursdoktorsnafnbótar við Lagadeild Háskóla Íslands

Veiting heiðursdoktorsnafnbótar við Lagadeild Háskóla Íslands - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
15. júní 2018 16:00 til 18:00
Hvar 

Norræna húsið

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Hinn 15. júní verður Guðrúnu Erlendsdóttur veitt heiðursdoktorsnafnbót við Lagadeild Háskóla Íslands og fer athöfnin fram í Norræna húsinu og hefst kl. 16:00.

Guðrún Erlendsdóttir fv. dósent við Lagadeild, fv. hæstaréttardómari og forseti Hæstaréttar á að baki einstakan starfsferil í lögfræði og er brautryðjandi í íslensku samfélagi. Hún starfaði um árabil sem héraðsdóms- og hæstaréttarlögmaður, var fyrsta konan sem gegndi kennarastöðu í Lagadeild. Guðrún varð aðjunkt 1970, lektor 1976 og skipuð dósent 1979. Kennslu- og rannsóknarsvið Guðrúnar tengdust fjölskyldu- og erfðarétti og jafnréttismálum, þ.m.t. álitamálum sem vörðuðu réttarstöðu sambúðarfólks og réttindi barna. Guðrún varð fyrst íslenskra kvenna til þess að taka sæti í Hæstarétti Íslands, var settur hæstaréttardómari við réttinn á árunum 1982 til 1983 og skipuð hæstaréttardómari 1986. Hún var forseti réttarins tvisvar sinnum, á árunum 1991 til 1992 og 2002 til 2003. Eftir að Guðrún lét formlega af störfum sem hæstaréttardómari 2006 hefur hún margsinnis verið settur dómari við réttinn í lengri eða skemmri tíma, nú síðast vorið 2018. Ekki leikur vafi á að framlag Guðrúnar til íslensks samfélags er umtalsvert og er einkar vel við hæfi að hún verði fyrsti heiðursdoktor Lagadeildar úr hópi kvenna sérstaklega nú þar sem 110 ár eru liðin frá því að Lagaskólinn, forveri Lagadeildar, tók til starfa 1908.  

Guðrún Erlendsdóttir fv. dósent við Lagadeild, fv. hæstaréttardómari og forseti Hæstaréttar.

Veiting heiðursdoktorsnafnbótar við Lagadeild Háskóla Íslands