Skip to main content

Frá hugmynd til sýndarheimsyfirráða – Hilmar Veigar Pétursson

Frá hugmynd til sýndarheimsyfirráða – Hilmar Veigar Pétursson - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
12. febrúar 2019 12:00 til 13:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Opið hús og öll velkomin á meðan húsrúm leyfir.
Streymt verður beint frá viðburðinum.

Hilmar Veigar Pétursson, frumkvöðull og stofnandi CCP, fjallar um mikilvægi nýsköpunar fyrir íslenskt samfélag í hádegiserindi í fundaröðinni Nýsköpun - hagnýtum hugvitið í Hátíðasal Háskóla Íslands þann 12. febrúar næstkomandi.

Beint streymi verður af viðburðinum - sjá hér fyrir neðan.

Hilmar Veigar er einn af stofnendum hátæknifyrirtækisins CCP sem ýtt var úr vör árið 1997. Hann hefur verið leiðandi í velgengni og vexti CCP frá því hann tók við stjórnartaumum í fyrirtækinu. Helsta afurð CCP, EVE Online, kom á markað í maí árið 2003 og hefur notið sigurgöngu æ síðan og fyrirtækið er margverðlaunað fyrir árangur sinn á sviði þróunar og markaðssetningar í tölvuleikjaiðnaði.

Í erindi sínu ræðir Hilmar Veigar m.a. um suðupott nýsköpunar í samstarfi háskóla og atvinnulífs og hvernig tengslin milli frumkvöðla, fyrirtækja, atvinnulífs og háskóla geta orðið undirstaða framfara.

Hilmar Veigar er með B.Sc.-gráðu í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands og hefur vakið feiknarathygli fyrir skoðanir sínar á þróun, nýsköpun og mikilvægum stuðningi við sprotafyrirtæki. Hann hefur haldið fyrirlestra um sköpunarverk CCP og um nýsköpun víða um heim.

Áður en Hilmar Veigar tók við stjórnartaumum hjá CCP var hann yfir tæknimálum hjá fyrirtækinu og leiddi þá tækniþróun sem býr að baki sýndarheimi EVE Online og þrívíddartækninnar sem stuðst er við í afurðum CCP.

Markmiðið með fundaröðinni er að eiga samtal um lausnir á mikilvægum samfélagslegum þáttum og áskorunum sem við glímum við á hverjum tíma og undirstrika mikilvægi nýsköpunar og frumkvöðlastarfs fyrir íslenskt samfélag og samkeppnisstöðu Íslands á alþjóðavettvangi. Í nýju röðinni er stefnt saman virtum rannsakendum úr Háskóla Íslands og fagfólki og frumkvöðlum víðar úr samfélaginu sem eiga það sameiginlegt að vinna að nýsköpun í íslensku og alþjóðlegu samfélagi.

Erindi Hilmars Veigars hefst klukkan 12 í Hátíðasal og eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Hilmar Veigar Pétursson, frumkvöðull og stofnandi CCP, fjallar um mikilvægi nýsköpunar fyrir íslenskt samfélag í hádegiserindi í fundaröðinni Nýsköpun - hagnýtum hugvitið í Hátíðasal Háskóla Íslands þann 12. febrúar næstkomandi.

Sýndarveruleiki CCP – Hilmar Veigar Pétursson