Skip to main content

Stafræn heimsókn í HÍ á UTmessu

Stafræn heimsókn í HÍ á UTmessu - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
6. febrúar 2021 12:00 til 14:00
Hvar 
Nánar 
Viðburðurinn er alfarið á netinu.

Skyggnst verður á bak við tjöldin hjá vísindafólki í Háskóla Íslands og litið inn í hina geysivinsælu Vísindasmiðju skólans á UTmessunni 5.-6. febrúar sem fer alfarið fram í rafheimum að þessu sinni.

Streymi frá viðburðinum

 

Háskóli Íslands er einn af samstarfsaðilum UTmessunnar sem hefur verið meðal stærstu viðburða ársins í tölvugeiranum síðastliðin tíu ár. Skólinn hefur boðið gestum upp á fjölbreytta dagskrá þar sem vísindin og tæknin eru í sviðsljósinu en undanfarin ár hefur þessi mikla hátíð farið fram í Hörpu.

Í ljósi samkomutakmarkana hefur viðburðurinn verið færður yfir á netið en það kemur ekki veg fyrir að stór hópur fyrirtækja og stofnana í tölvu- og tæknigeiranum sýni með lifandi og skemmtilegum hætti hversu umfangsmikil þessi grein er orðin hér á landi og hvað hún snertir líf okkar á margan hátt.

Hefð er fyrir því að seinni dagur UTmessunnar sé opinn almenningi og engin breyting verður þar á í ár. Laugardaginn 6. febrúar verður boðið upp á þétta dagskrá með fróðlegum og skemmtilegum kynningum á netinu.

Háskóli Íslands verður með útsendingu frá kl. 12 þar sem gestir geta skyggnst á bak við tjöldin hjá vísindafólki og nemendum Háskóla Íslands og tengdum aðilum. Þar verður m.a. sagt frá fjölbreyttum rannsóknum sem unnið er að í háskólanum og við fáum að skoða ýmis tól og tæki sem notuð er til rannsókna. Meðal þess sem skoðað verður er sérstakur hljóðklefi þar sem fram fara rannsóknir á hljóði, kíkt verður í heimsókn í Örtæknikjarna HÍ þar sem unnið er að rannsóknum í eðlisfræði, rætt við nemendur í tæknifræði og þá verður Vísindasmiðja Háskóla Íslands í Háskólabíói heimsótt þar sem vísindamiðlarar smiðjunnar segja okkur frá starfsemi hennar og gera skemmtilegar tilraunir.

Fyrri dagur UTmessunar, 5. febrúar, verður helgaður fyrirlestrum af ýmsu tagi sem tengjast tölvugeiranum og er hann lokaður öðrum en skráðum þátttakendum. Þar munu fulltrúar Háskólans flytja erindi auk þess sem skólinn kynnir á netinu það fjölbreytta nám sem í boði er innan skólans og tengist upplýsingatækni.

Hægt er að skoða dagskrá UTmessunnar í heild sinni á vef hátíðarinnar.

Skyggnst verður á bak við tjöldin hjá vísindafólki í Háskóla Íslands og litið inn í hina geysivinsælu Vísindasmiðju skólans á UTmessunni 5.-6. febrúar sem fer alfarið fram í rafheimum að þessu sinni.

Stafræn heimsókn í HÍ á UTmessu