Prófessorsfyrirlestur Davíðs O. Arnar - Áhugaverð tækifæri í þróun heilbrigðisþjónustu
Læknagarður
Stofa 201
Davíð O. Arnar hlaut framgang í starf prófessors við Læknadeild Heilbrigðisvísindasviðs HÍ í lok júní 2022. Í tilefni af tímamótunum heldur Davíð prófessorsfyrirlestur í Læknagarði (stofa 201) fimmtudaginn 12. október milli kl. 15 og 16. Fyrirlesturinn, sem ber yfirskriftina Áhugaverð tækifæri í þróun heilbrigðisþjónustu, er öllum opinn.
Viðburðurinn verður í streymi: https://eu01web.zoom.us/j/67676074635
Davíð O. Arnar fæddist þann 16. apríl 1961 í Reykjavík. Eiginkona hans er Dagbjörg Sigurðardóttir læknir og þau eiga þrjá syni, Björn Atla, Gústav og Sigurð.
Davíð er sérfræðingur í lyflækningum, hjartalækningum og heilbrigðisstjórnun. Hann lauk embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands og sérfræðinámi í lyflækningum, hjartalækningum og raflífeðlisfræði hjartans við University of Iowa Hospitals and Clinics í Iowa City í Bandaríkjunum. Þá hefur hann lokið doktorsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands og meistaraprófi í stjórnun heilbrigðisþjónustu og lýðheilsu frá Háskólanum í Reykjavík. Doktorverkefnið snérist um áhrif Purkinje kerfisins í hjarta á sleglatatkttruflanir við blóðþurrð i hjarta.
Davíð hefur mjög yfirgripsmikla stjórnunarreynslu en hann hefur verið yfirlæknir hjartalækninga á Landspítala frá 2015. Áður var yfirlæknir bráðamóttöku á Landspítala Hringbraut frá 2001-2010, yfirlæknir Hjartagáttar frá 2010-2013 og yfirlæknir hjartaþræðinga frá 2012-2013. Þá var Davíð framkvæmdastjóri lyflækningasviðs frá 2013-2014. Davíð var formaður Félags íslenskra lyflækna um sex ára skeið og hefur setið í fjölmörgum nefndum á vegum Evrópusamtaka hjartalækna.
Davíð O. Arnar hefur verið mjög virkur á sviði vísindarannsókna og var meðal annars heiðursvísindamaður Landspítala 2020. Hans rannsóknir hafa snúist að miklu um hjartsláttartruflunina gáttatif og hann hefur starfað mjög náið með Íslenskri erfðagreiningu. Hann hefur birt fjölmargar greinar um erfðafræði gáttatifs auk þess sem hann hefur rannsakað áhrif gáttatifs á heila í samvinnu við Hjartavernd og gert klínískar lyfjarannsóknir á gáttatifi. Undanfarin ár hefur Davíð haft mikinn áhuga á nýtingu erfðaupplýsinga í klínískri læknisfræði og einstaklingsmiðari nálgun í greiningu og meðferð.
Þá hefur Davíð komið að þróun stafrænnar heilbrigðisþjónustu en hann hlaut stóran styrk ásamt heilbrigðistæknifyrirtækinu Sidekick Health frá Rannís til að rannsaka stafrænar hjartalækningar.
Davíð var fyrr á þessu ári sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu af forseta Íslands fyrir framlag til hjartalækninga, vísindarannsókna og nýsköpunar.
Davíð O. Arnar heldur prófessorsfyrirlestur í Læknagarði fimmtudaginn 12. október kl. 15. Heiti fyrirlestursins er: Áhugaverð tækifæri í þróun heilbrigðisþjónustu. Öll velkomin