Skip to main content

Menntakvika 2018

Menntakvika 2018 - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
12. október 2018 9:00 til 16:30
Hvar 

Stakkahlíð / Háteigsvegur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Árleg ráðstefna Menntavísindasviðs Menntakvika: Rannsóknir, nýbreytni og þróun verður haldin við Háskóla Íslands föstudaginn 12. október 2018. Menntakvika verður sett degi fyrr með opinni málstofu um hönnun skólabygginga og kennsluhætti þar sem leiddir verða saman menntunarfræðingar og arkitektar. Spennandi dagskrá bíður þátttakenda á föstudeginum en þá verða flutt yfir 200 erindi í 57 málstofum.

Menntakvika hefur skapað sér sess sem einn mikilvægasti farvegur Háskólans fyrir miðlun á þekkingu og rannsóknum sem snúa að skóla- og frístundastarfi. Viðfangsefni ráðstefnunnar í ár eru afar fjölbreytt og má þar nefna heilsuhegðun og fæðuval, karla í kennslu, kynlífshegðun unglinga, jákvæða sálfræði í menntun, samskipti og seiglu ungs fólks, styttingu framhaldsskóla og margt fleira.

„Umræða um menntamál hefur verið áberandi í samfélaginu undanfarið og fögnum við því sérstaklega. Á síðustu vikum greinum við einnig mikla samstöðu meðal stjórnvalda, fagfélaga, sveitarfélaga og háskólanna um mikilvægi kennaramenntunar og nauðsyn þess að finna leiðir til að styðja við starfsfólk og börn í skóla- og frístundastarfi. Það er afar brýnt að Menntavísindasvið sé í nánum tengslum við þann starfsvettvang sem við búum nemendur okkar undir og er Menntakvika einn liður í því að tengja saman fræði og vettvang,“ segir Kolbrún Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, en hún mun flytja ávarp við setningu Menntakviku, fimmtudaginn 11. október kl. 15.

Áhugasamir geta kynnt sér dagskrá ráðstefnunnar í heild sinni HÉR.

Takið dagana frá og fjölmennið!

Fylgdu Menntakviku á Facebook

Menntakvika 2018

Menntakvika 2018