Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð: Framtíð almenningsþátttöku | Háskóli Íslands Skip to main content

Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð: Framtíð almenningsþátttöku

Hvenær 
27. september 2018 9:00 til 18:00
Hvar 

Veröld - Hús Vigdísar

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Rannsóknarsetrið EDDA við Háskóla Íslands stendur fyrir alþjóðlegri ráðstefnu í samstarfi við Forsætisráðuneytið og Vigdísarstofu 27. –29. september 2018 undir yfirskriftinni „Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð: Framtíð almenningsþátttöku“.

Á ráðstefnunni, sem verður haldin við HÍ, verður fjallað um  helstu nýjungar í lýðræðiskenningum, en sérstaklega er horft til almenningsþátttöku og hlutdeildar almennings í opinberum ákvörðunum og stefnumótun. Ræddar verða  tilraunir til að byggja stjórnarskrárgerð á beinu samráði við almenning á Íslandi og annarsstaðar í heiminum á síðustu árum.

Um þessar mundir eru íslensk stjórnvöld að hefja nýtt endurskoðunarferli stjórnarskrárinnar í  samráði við almenning. Fyrir sjö árum vöktu Íslendingar mikla athygli á alþjóðlegum vettvangi þegar Stjórnlagaráð gerði drög að nýrri stjórnarskrá í opnu ferli með aðkomu almennings. Nú er stefnt að heildarendurskoðun sem m.a. mun byggja á drögum Stjórnlagaráðs. Fjallað verður um helstu áherslur þessarar áætlunar og hvernig hægt er að nýta nýjungar í fræðunum til að varpa ljósi á hana.

Fyrsta dag ráðstefnunnar verður sjónum beint að lýðræðiskenningum, þekkingarmiðuðu lýðræði og hinum ýmsu gerðum lýðvistunar. Fyrirlesarar eru:

  • Beth Noveck, prófessor við New York-háskóla
  • José Luis Martí, dósent við Pompeu Fabra háskólann í Barcelona
  • David Farrell, prófessor við Háskólann í Dublin
  • Catherine Dupre, dósent við Exeter-háskóla
  • Róbert Bjarnason, forstöðumaður Íbúa ses
  • Lawrence Lessig, prófessor við Harvard-háskóla

Annan dag ráðstefnunnar verður fjallað um nýstofnaða Miðstöð um lýðræðislega stjórnarskrárgerð sem halda mun utan um heimildir og gögn sem tengjast starfi að endurskoðun íslensku stjórnarskrárinnar á árunum 2009–2013, einkum starfi Stjórnlagaráðs 2011. Þá verða pallborðsumræður með þátttöku íslenskra og erlendra fyrirlesara um niðurstöðu af starfi Stjórnlagaráðs og þá endurskoðunaráætlun stjórnarskrár sem nú er unnið að.

James Fishkin, prófessor við Stanford-háskóla og forstöðumaður Miðstöðar um rökræðulýðræði fjallar um rökræðukannanir, sem um árabil hafa verið notaðar víða um heim til að auka þátt rökræðna í stefnumótun. Fishkin er upphafsmaður þeirra, en í endurskoðunaráformum íslenskra stjórnvalda er gert ráð fyrir að rökræðukannanir verði nýttar sem eitt form almenningssamráðs.

Loks verður rætt um ritun stjórnarskrár í Færeyjum og á Grænlandi, en í báðum löndum hafa sjálfstæðishreyfingar lagt mikla áherslu á stjórnarskrárgerð í tengslum við undirbúning að stofnun sjálfstæðs ríkis.  Grænlensk og færeysk stjórnarskrárvinna verður skoðuð í ljósi þeirrar reynslu sem Íslendingar hafa af stjórnarskrárgerð.

Þriðja ráðstefnudaginn býur Stjónarskrárfélagið upp á borgarafund þar sem stjórnmála-, háskóla- og áhugafólk ræðir hvers konar lýðræðissýn getur birst í stjórnarskrárgerð sem virkjar krafta og þekkingu almennings. Sjá nánar https://www.facebook.com/Stjornarskrarfelagid/

Ráðstefnan er öllum opin. Óskað er eftir að þátttakendur skrái sig á vefsvæði Eddu fyrir 21. september 2018.

Hér má nálgast dagskrá ráðstefnunnar.

Sjá einnig um ráðstefnuna á facebook.

Sjá grein hér um ráðstefnuna af vefritinu Crowdlaw.

 

Democratic Constitutional design. The future of public engagement.

Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð: Framtíð almenningsþátttöku