Skip to main content

Doktorsvörn - Susan Elizabeth Gollifer

Doktorsvörn - Susan Elizabeth Gollifer - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
15. júní 2021 15:00 til 16:00
Hvar 
Nánar 
Aðgangur ókeypis

Susan Elizabeth Gollifer ver doktorsritgerð sína í menntavísindum við Deild menntunar og margbreytileika, Háskóla Íslands:

Human Rights Education in Iceland: Learning about transformative pedagogies from upper secondary school teachers’ stories 

Mannréttindamenntun á Íslandi: Lærdómur um umbreytandi menntunarfræði af sögum framhaldsskólakennara 

Vörnin fer fram þriðjudaginn 15. júní kl. 15.00 í Hátíðasal Háskóla Íslands. Vörninni verður streymt.

Andmælendur eru dr. Christine Sleeter prófessor emerita við California State háskólann í Bandaríkjunum og dr. Jón Torfi Jónasson prófessor emeritus við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Aðalleiðbeinandi var dr. Audrey Osler prófessor við University of South-Eastern Norway og prófessor emerita við Háskólann í Leeds og umsjónarkennari dr. Hanna Ragnarsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Auk þeirra sat í doktorsnefnd dr. Hafdís Ingvarsdóttir prófessor emerita við Menntavísindasvið.

Dr. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, deildarforseti Deildar menntunar og margbreytileika, stjórnar athöfninni.

Verið öll velkomin. 

Um verkefnið 

Á hverjum degi verðum við vitni að mannréttindabrotum sem tengjast fátækt, flótta, mismunun, útlendingaandúð, kúgun og jaðarsetningu. Mannréttindabrot eiga sér einnig stað í skólakerfinu. Mannréttindamenntun er réttur sem tilgreindur er í mannréttindaskuldbindingum, bæði staðbundnum og alþjóðlegum. Samt sem áður er mannréttindamenntun ekki skilgreind sem hluti af réttlætismenntun eða rannsóknum á félagslegu réttlæti en þó unnið með mannréttindi í fjölmenningarmenntun, menntun án aðgreiningar, sjálfbærnimenntun og borgaramenntun. Lýðræði og mannréttindi eru einn af sex grunnþáttum menntunar í aðalnámskrá frá árinu 2011 sem gefur vísbendingu um mikilvægi mannréttindamenntunar. Þessi túlkandi frásagnarrannsókn byggist á lífssögum tíu framhaldsskólakennara, þar sem grunduð kenning og þemagreining eru notaðar til að kryfja og víkka út skilning á umbreytandi mannréttindamenntun. Fagþekking sem byggist á reynslu rannsakandans sjálfs og greiningu hans á mannréttindamenntun, menntastefnu og skólastarfi á Íslandi, er notuð sem viðbótargögn til að dýpka greiningu viðtalsgagnanna. Niðurstöður um ástæður kennara fyrir því að vinna með mannréttindi, aðferðir þeirra, og upplifun af kerfisbundnum áskorunum eru notaðar til að leggja til umbætur á kennaramenntun. Niðurstöður benda til að siðferðileg og pólitísk sannfæring kennara, sem byggist á þvermenningarlegri reynslu, verði veikari vegna skorts á meðvitaðri þekkingu á mannréttindamenntun. Aðferðir kennaranna endurspegla áherslu á að læra í gegnum mannréttindi frekar en um mannréttindi eða fyrir mannréttindi. Þegar kennarar taka upp vanabundna orðræðu og vinnulag hættir þeim til að gefa mannréttindum lítið vægi. Kennarar segja frá ófullnægjandi faglegum stuðningi, sem veldur togstreitu á milli þeirra eigin skuldbindinga um mannréttindi og kerfislægra væntinga. Í rannsókninni eru færð rök fyrir því að í dag sé vandkvæðum bundið að ræða mannréttindamenntun sem umbreytandi kennslufræði innan hefðbundins framhaldsskóla. Beina þarf athygli að mannréttindum í kennaramenntun. Rannsóknin skilgreinir ramma fyrir mannréttindi sem viðfangsefni í kennaramenntun sem hefur það markmið að efla þekkingu og færni kennara í mannréttindamenntun og mannréttindastarfs sem andsvar við kerfislægum hindrunum. Rannsóknin er framlag til mannréttindamenntunar sem alþjóðlegs og staðbundins fræðasviðs og undirstrikar ábyrgð og hlutverk kennaramenntunar í því að viðhalda mannréttindamenningu. 

Vörnin fer fram þriðjudaginn 15. júní kl. 15.00 í Hátíðasal Háskóla Íslands. 

Doktorsvörn - Susan Elizabeth Gollifer