Skip to main content

Doktorsvörn Inga Þórs Einarssonar

Doktorsvörn Inga Þórs Einarssonar - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
20. apríl 2018 13:00 til 15:30
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Ingi Þór Einarsson ver doktorsritgerð sína í menntavísindum við Íþrótta- tómstunda- og þroskaþjálfadeild, Menntavísindasviði Háskóla Íslands:
„Hreysti og heilsa íslenskra barna með þroskahömlun - Physical fitness and health of Icelandic children with intellectual disability“
föstudaginn 20. apríl kl. 13.00 í Hátíðasal Háskóla Íslands

Andmælendur eru dr. Heidi Stanish, dósent við University of Massachusetts og dr. Jorge Mota, prófessor við University of Porto.
Leiðbeinendi var dr. Sigurbjörn Árni Arngrímsson, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og meðleiðbeinandi dr. Daniel Daly, prófessor við KU Leuven, Belgíu.
Auk þeirra sat í doktorsnefnd dr. Erlingur S. Jóhannsson, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Anna Sigríður Ólafsdóttir, deildarforseti Íþrótta- tómstunda- og þroskaþjálfadeildar Menntavísindasviðs, stjórnar athöfninni. Allir velkomnir

Um verkefnið

Umræðan um minnkandi hreyfingu og versnandi holdafar hjá íslenskum ungmennum hefur verið nokkuð áberandi undanfarin ár. Þrátt fyrir að erlendar rannsóknir hafa bent á að börn með hinar ýmsu fatlanir hreyfi sig minna og sé hættara við að vera of feit en jafnaldrar þeirra án fatlana, er lítið vitað um stöðu mála hjá íslenskum börnum með fatlanir.
Meginmarkmið þessarar rannsóknar var að skoða hreyfingu, þol, holdafar og ýmis viðhorf til hreyfingar meðal tæplega 100 íslenskra ungmenna með þroskahömlun á aldrinum 6-16 ára. Til samanburðar var hópur barna sem ekki hafði neina fötlun skoðaður á sama tíma og á sama hátt.
Niðurstöður sýndu að börn með þroskahömlun voru líklegri til að flokkast of feit, voru með hærri blóðþrýsting og hærra mittismál. Einnig voru börn með þroskahömlun með lægra þol og hreyfðu sig minna en en jafnaldrar þeirra án fötlunar. Engin börn með þroskahömlun náðu ráðlögðum viðmiðum um lágmarkshreyfingu af hárri ákefð á dag, en um þrír fjórðu ófatlaðra barna náðu þeim viðmiðum. Við nánari skoðun á hreyfimynstri barnanna kom í ljós að börnin með þroskahömlun fengu stærstan hluta hreyfingar sinnar á skólatíma og eins voru þau meira kyrrset eftir skóla en á skólatímanum sjálfum. Þessu var öfugt farið hjá börnum án fötlunar.
Hóparnir tveir hafa mismunandi ástæður til að stunda hreyfingu, þar sem börn með þroskahömlun eru alls ekki eins keppnisdrifin og ófötluðu börnin en höfðu meiri áhyggjur af holdafari sínu. Einnig kom í ljós að þekking fötluðu barnanna og fjölskyldna þeirra á mikilvægi hreyfingar sé ekki góð, því stór hluti þeirra taldi sig vera að hreyfa sig alveg nóg, þó að raunin væri allt önnur.

Um doktorsefnið

Ingi Þór Einarsson er fæddur á Akranesi 24. ágúst 1968. Hann er aðjunkt við Háskólann í Reykjavík. Ingi Þór lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Hamrahlíð 1989, BS próf í íþróttafræði 2005 og Meistaraprófi 2008 frá Kennaraháskóla Íslands. Ingi Þór hefur lengi starfað með Íþróttasambandi fatlaðra að afreksþjálfun fatlaðra íþróttamanna ásamt því að vera ráðgjafi fyrir Alþjóðsamtök fatlaðra íþróttamanna (IPC)
Maki Inga Þórs er Guðrún Árnadóttir og börn þeirra eru Eydís og Laufey.

Ingi Þór Einarsson ver doktorsritgerð sína í menntavísindum við Íþrótta- tómstunda- og þroskaþjálfadeild, Menntavísindasviði Háskóla Íslands, 20. apríl 2018.

Doktorsvörn Inga Þórs Einarssonar