Skip to main content

Doktorsvörn í viðskiptafræði - Stefán Bjarni Gunnlaugsson

Doktorsvörn í viðskiptafræði - Stefán Bjarni Gunnlaugsson - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
17. febrúar 2021 15:00 til 17:00
Hvar 
Nánar 
Aðgangur ókeypis

Miðvikudaginn 17. febrúar næstkomandi mun Stefán B. Gunnlaugsson verja doktorsritgerð sína við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands sem ber heitið Icelandic fisheries: Profitability, resource rent, rent taxation and development (Íslenskur sjávarútvegur, hagnaður, auðlindarenta, skattlagning og nýleg þróun).

Vörnin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 15:00 og verður streymt.

Leiðbeinandi er dr. Sveinn Agnarsson prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Einnig í doktorsnefnd sitja dr. Daði Már Kristófersson prófessor við Háskóla Ísland og dr. Gakushi Ishimura prófessor við Iwate University í Japan.

Andmælendur eru dr. James N. Sanchirico prófessor við University of California at Davis og dr. Hirotsugu Uchida prófessor við University of Rhode Island.

Doktorsvörn stýrir dr. Gylfi Magnússon, deildarforseti Viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands.

Um doktorsefnið

Stefán B. Gunnlaugsson er dósent við Háskólann á Akureyri þar sem hann kennir einkum fjármálaáfanga. Stefán er með BSc próf í sjávarútvegsfræðum frá Háskólanum á Akureyri og MSc próf í fjármálum og bankastarfsemi frá Stirling University í Skotlandi. Stefán hefur unnið á íslenskum fjármálamarkaði, einkum við eignastýringu, en frá 2003 hefur hann verið starfandi við Háskólann á Akureyri.

Ágrip

Ritgerðin samanstendur af fimm greinum, þar sem þróun íslensks sjávarútvegs frá 1990 var rannsökuð, en þá náði kvótakerfið loks yfir nær allar fiskveiðar Íslendinga. Aðaláhersla var lögð á rannsóknir á afkomu, auðlindarentu og skattlagningu rentunnar. Að auki voru strandveiðarnar skoðaðar sérstaklega.

Meðal niðurstaðna var að miklar breytingar hafa orðið á íslenskum sjávarútvegi á síðustu þremur áratugum. Greinin hefur þurft að bregðast við minni afla, skipum hefur fækkað sem og frystihúsum, rækjuvinnslum og loðnubræðslum. Störfum í greininni hefur einnig fækkað mikið. Aflaheimildir hafa þjappast saman og hafa þær verið seldar og eignfærðar í efnahagsreikningum atvinnugreinarinnar, sem hefur valdið því að skuldir hafa hækkað. Kvótakerfið hefur leitt til aukinnar arðsemi í íslenskum sjávarútvegi, þrátt fyrir hækkun skulda.  Afkoma veiðanna hefur batnað og enn meiri bati hefur orðið í vinnslunni.

Frá árinu 2008, hefur íslenskur sjávarútvegur framleitt verulega auðlindarentu. Það tók greinina nærri tvo áratugi að laga afkomuna og búa til rentu. Samdráttur í afla réði mestu um tímalengdina. Atvinnugreinin byrjaði að skapa verulega auðlindarentu þegar veiðar jukust, og íslenska krónan féll, og hefur rentan verið mikil síðasta áratug. Skattlagning greinarinnar með sérstökum veiðigjöldum hófst 2004, en aðaltilgangur þeirra er að skattleggja sérstaklega rentuna sem atvinnugreinin framleiðir. Gjöldin voru lág í upphafi, en voru hækkuð verulega 2012, og urðu þá umtalsverður kostnaðarliður fyrir veiðihluta atvinnugreinarinnar. Það var erfitt og flókið í framkvæmd að koma veiðigjöldunum á. Þrír aðilar hafa sérstaklega notið góðs af auðlindarentunni sem íslenskur sjávarútvegur hefur framleitt. Um 20% rentunnar hefur runnið til ríkisins með veiðigjöldum og hærri tekjuskatti, sem lagður er á hagnað fyrirtækja. Líklega hefur um 40% farið til þeirra aðila sem selt hafa kvóta og hætt í greininni og að lokum hafa þau fyrirtæki sem enn starfa í íslenskum sjávarútvegi líklega fengið sama hlut, eða u.þ.b. 40%.

Miðvikudaginn 17. febrúar næstkomandi mun Stefán B. Gunnlaugsson verja doktorsritgerð sína við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands

Doktorsvörn í Viðskiptafræði