Skip to main content

Doktorsvörn í viðskiptafræði - Nína M. Saviolidis

Doktorsvörn í viðskiptafræði - Nína M. Saviolidis - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
25. júní 2021 14:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur og í beinu streymi

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 25. júní kl. 14:00 ver Nína M. Saviolidis doktorsritgerð sína Í átt að sjálfbærni í atvinnugreinum (Advancing sustainability in economic sectors). Vörnin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og er öllum opin. Vörnin verður einnig í beinu streymi. 

Hlekkur á streymi:  Doktorsvörn Nína María Saviolidis on Livestream

Vörnin fer fram á ensku (the docoral defence will be held in English).

Leiðbeinendur voru dr. Snjólfur Ólafsson prófessor í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og dr. Brynhildur Davíðsdóttir prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands.
Einnig í doktorsnefnd voru dr. Andrew J. Hoffmann, Holcim (US) Professor of Sustainable Enterprise, Ross School of Business/School for Environment & Sustainability, University of Michigan. 
Andmælendur verða dr. Jari Lyytimäki, Adjunct professor, University of Helsinki; senior researcher Finnish Environment Institute og dr. Gerald G. Singh, professor Department of Geography at Memorial University of Newfoundland, Canada. 
Doktorsvörn stýrir dr. Gylfi Magnússon prófessor í Viðskiptafræðideild og forseti deildarinnar.

 

Um doktorsefnið
Nína María Saviolidis fæddist í Reykjavík árið 1984 og er hálf-íslensk, hálf-grísk. Hún lauk BSc-gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 2012 og MSc-gráðu í umhverfis- og auðlindafræði árið 2014 frá sama skóla. Árið 2016 hóf hún að vinna doktorsverkefni sitt við Viðskiptafræðideild í Háskóla Íslands. Samhliða doktorsnámi hefur Nína sinnt kennslu sem aðstoðarkennari við Háskóla Íslands. Sem stendur vinnur hún við rannsóknir fyrir EU-H2020 verkefnið VALUMICS (No 727243). Sambýlismaður Nínu er Sebastian Geyer og eiga þau tvær dætur; þær Önnu Grétu og Öldu Lóu. Þau búa í Reykjavík.

Ágrip
Nauðsyn umbreytinga í átt að sjálfbærni er óumdeild en þá er átt við umbreytingar af þeirri stærðargráðu sem leysir úr viðamiklum samfélagslegum áskorunum. Spurningin er aftur á móti hvernig er gerlegt að ná fram nauðsynlegum breytingum. Við stjórnun og stefnumörkun er mikilvægt að huga að hlutverki og framlagi atvinnugreina til sjálfbærni.
Ritgerð þessi samanstendur af tveimur mismunandi en samtengdum rannsóknaráherslum. Í fimm fræðigreinum er fjallað um það hvernig atvinnugreinar stuðla að sjálfbærni bæði hvað varðar áhrif þeirra (jákvæð og neikvæð) og stjórnun þeirra á áhrifum. Niðurstöður í grein I stuðla að þekkingu á samlegðaráhrifum og fórnarkostnaði á milli atvinnugreinar og frammistöðu hennar hvað varðar 169 undirmarkmið heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Í grein II voru vísar fyrir umhverfíslega sjálfbærni á landsvísu skoðaðir og aðlagaðir fyrir ferðaþjónustuna til að ákvarða hvort greina mætti umhverfisáhrif atvinnugreinarinnar á landsvísu. Í grein III er greint frá sjónarmiðum stjórnenda meðalstórra og stórra ferðaþjónustufyrirtækja og tengdra atvinnugreinasamtaka á Íslandi varðandi stjórnun umhverfismála hjá ferðaþjónustunni. Í rannsókninni var reynt að ákvarða þætti sem hafa áhrif á skipulagslegar breytingar hjá fyrirtækum í ferðaþjónustunni í tengslum við umhverfismál. Í grein IV var kannað sjónarmið stjórnenda meðalstórra og stórra fyrirtækja og tengdra atvinnugreinasamtaka í sjávarútvegi á Íslandi og í Noregi til að ákvarða þætti (drifkrafta og hindranir) sem stuðlað geta að 'bláum vexti', þ.e.a.s. hagvexti sem byggist á sjálfbærri nýtingu sjávarafurða. Í grein V voru könnuð sjónarmið hagsmunaaðila til stefnumótunaraðferða sem stuðla að umbreytingu í átt að sjálfbærni í evrópskum matvælakerfum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna og greina áformaðar lausnir hagsmunaaðila til að skapa sjálfbær matvælakerfi. Með rannsókn á áherslum og aðgerðum atvinnugreina varðandi sjálfbærni dregur ritgerðin fram þekkingu sem nýtist við mótun stefnu til að ná fram umbreytingum í átt að sjálfbærni.

Nína M. Saviolidis

Doktorsvörn - Nína M. Saviolidis