Skip to main content

Doktorsvörn í vélaverkfræði - Christophe Guy Lecomte

Doktorsvörn í vélaverkfræði - Christophe Guy Lecomte - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
8. febrúar 2022 14:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur

Nánar 
Öll velkomin

Vörninni verður streymt

Doktorsefni: Christophe Guy Lecomte

Heiti ritgerðar: Gervifótur með breytilega stífni (Variable Stiffness Prosthetic Foot)

Andmælendur:
Dr. Peter Adamczyk, dósent við Wisconsinháskóla, Bandaríkjunum
Dr. Edward Lemaire, prófessor við Ottawaháskóla, Kanada og forseti alþjóðasamtaka stoðtækjafræðinga, ISPO.

Leiðbeinendur: Dr. Sigurður Brynjólfsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild HÍ
Dr. Kristín Briem, prófessor við Læknadeild HÍ

Einnig í doktorsnefnd:
Dr. Kristleifur Kristjánsson, framkvæmdastjóri rannsóknar og þróunar hjá Össuri hf.

Doktorsvörn stýrir: Dr. Rúnar Unnþórsson, prófessor og deildarforseti Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideildar HÍ

Verkefnið er samstarfsverkefni Össurar og Háskóla Íslands.

Ágrip
Gervifótum er ætlað að koma í stað útlima sem vantar. Jafnvel þótt þessi fullyrðing sé einföld er hönnun, prófun og staðfesting á réttri virkni fótanna flókin. Nokkrar tegundir gervifóta sem geyma og skila orku eru á markaði. Nýlega hafa komið fram gervifætur stýrðir af lífmerki og miða að því að auka kraft frá ökkla. Markmið þessa verkefnis var að hanna nýjan gervifót með breytilegri stífni. Fóturinn varð að hafa eiginleika núverandi fóta sem geyma og skila orku, ásamt möguleikum á breytilegri stífni án þess að auka massa fótarins umtalsvert. Annað markmið þessa verkefnis var að leggja til vélræna prófunaraðferð sem fangar gögn, sem venjulega er safnað við göngugreiningu notenda á rannsóknarstofu. Vélræn prófun getur dregið úr þörf á notendaprófum á fyrstu stigum hönnunarferlisins.
Í þessu verkefni voru fjórar útfærslur stífnibreytinga prófaðar vélrænt. Svampur með ólínulega stífni var notaður í fyrstu útfærslu. Fallið var frá henni vegna eðlislægra takmarkana á stífleika efnisins við högg og hratt álag. Næst var hönnun þar sem notandi gat breytt stífni ökklans umtalsvert á fljótlegan hátt, prófuð í tölvu. Þá var valin hönnun sem byggði á bita með hreyfanlegum undirstöðum sem leiddi til tveggja mismunandi útfærslna á ökkla. Lokahönnunin er gervifótur sem býður upp á þráðlausa stillingu stífleika ökkla. Gervifóturinn var prófaður og metinn vélrænt og á notendum í göngugreiningu sem höfðu misst fót fyrir neðan hné. Niðurstöðurnar fyrir göngu upp og niður brekku voru bornar saman og reyndust sambærilegar.
Gera má ráð fyrir að þetta verkefni hvetji til þróunar tækja sem forgangsraða mikilvægum eiginleikum fóta ásamt því að koma fram með prófunaraðferð sem aðstoðar verkfræðinga og hönnuði stoðtækja við frekari þróun og prófanir.

Um doktorsefnið

Christophe Lecomte er fæddur 19. febrúar árið 1979 og ólst upp í Frakklandi. Christophe lauk meistaragráðu í vélaverkfræði með sérhæfingu í CAD og tölvuhermingu frá franska verkfræðiháskólanum l'École Nationale d'Ingénieurs de Tarbes árið 2002. Síðustu 20 ár hefur hann starfað hjá íslenska stoðtækjafyrirtækinu Össuri, þar sem hann starfar nú sem Director of Biomechanical Solutions á rannsóknar- og þróunarsviði. Christophe hóf doktorsnám við Háskóla Íslands árið 2015. Hann er kvæntur Heiðu Lecomte Gröndal kennara og eiga þau tvö börn, Emily Ósk og Leo Mána.

Christophe Guy Lecomte

Doktorsvörn í vélaverkfræði - Christophe Guy Lecomte