Doktorsvörn í umhverfisfræði - Sigurður Eyberg Jóhannesson | Háskóli Íslands Skip to main content

Doktorsvörn í umhverfisfræði - Sigurður Eyberg Jóhannesson

Doktorsvörn í umhverfisfræði - Sigurður Eyberg Jóhannesson - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
19. mars 2021 8:30 til 10:30
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Vörninni verður streymt

Doktorsefni: Sigurður Eyberg Jóhannesson

Heiti ritgerðar: Óvissa í vistsporsreikningum eftir staðlaðri aðferð (Uncertainty in Ecological Footprint standard method accounts)

Andmælendur: Dr. Manfred Lenzen, prófessor við Háskólann í Sydney, Ástralíu
Dr. Andrea Saltelli, Open University of Catalonia, Spáni

Leiðbeinandi: Dr. Jukka T. Heinonen, prófessor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands

Einnig í doktorsnefnd:
Dr. Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis og auðindafræði við Háskóla Íslands
Dr. Eeva-Sofia Säynäjoki, viðskiptastjóri Kiinko, Finnlandi

Doktorsvörn stýrir: Dr. Guðmundur Freyr Úlfarsson, prófessor og deildarforseti Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar Háskóla Íslands.

Ágrip

Krafan um sjálfbæra þróun verður stöðugt háværari. Ein afleiðing þess er að hugtakið sjálfbærni er nú orðið hluti af daglegu máli, ekki síst meðal stjórnmálamanna. Til þess að hugtakið hafi einhverja raunverulega merkingu þurfum við mælanlegar skilgreiningar á því. Við þurfum að vita hvað er sjálfbært og hvað ekki. Það er einmitt þá sem sjálfbærnin fer að flækjast. Að skilgreina með afgerandi hætti hvað er sjálfbært og hvað ekki er nánast ómögulegt – ekki síst í heimi stórtækra, hnattrænna viðskipta. Snemma á tíunda áratug síðustu aldar kallaði UNCED eftir sjálfbærnivísum (e. sustainability indicators) til að takast á við þennan vanda. Vísunum var ætlað að gefa vísbendingar um hvað væri sjálfbært og hvað ekki og hjálpa þannig til við að skapa hinn langþráða sjálfbæra heim. Í kjölfarið var mikill fjöldi slíkra vísa hannaður og þar á meðal vísir sem nefndist vistspor (e. Ecological Footprint). Vistsporið hefur notið „fádæma velgengni“ (e. extreme success) að mati sumra fræðimanna en hefur jafnframt fengið á sig harða gagnrýni. Markmið þessarar rannsóknar var að leggja mat á vísinn út frá óvissuþáttum í inntaksbreytum (e. input parameters). Ísland var notað sem sérstætt tilvik fyrir rannsóknina en landið er frávik í vistsporsmælingum vegna gríðarstórs vistspors. Þættirnir sem innihéldu mestu óvissuna voru sjávarspor og kolefnisspor og var nánar kafað ofan í þessa þætti. Niðurstöður rannsóknarinnar birtust í þremur greinum í ritrýndum vísindatímaritum. Niðurstöðurnar benda til talsverðrar óvissu í vistsporsmælingum og má rekja ástæður hennar til grunninntaksgagna, skorts á þekkingu á ýmsum náttúrulegum ferlum ásamt samþjöppun og meðaltalsnotkun. Sex leiðir til að vega á móti þessum vandamálum voru lagðar til. Umrædd óvissa gerir það að verkum að vistsporið er útsett fyrir misnotkun og misvísandi skilaboðum og þess vegna er nauðsynlegt að gera skýra grein fyrir óvissunni þegar slíkar niðurstöður eru kynntar. Við aðstæður sem þessar geta vísindin auðveldlega gruggast og því er mikilvægt að halda vísindunum algjörlega óháðum pólitík eða aktívisma af nokkru tagi.

Um doktorsefnið

Sigurður Eyberg Jóhannesson fæddist í Keflavík snemma á áttunda áratug síðustu aldar. Hann starfar sem fagstjóri náms í sjálfbærni og sköpun við Hallormsstaðaskóla. Hann býr með sex manna fjölskyldu sinni í Reykjavík.

Sigurður Eyberg Jóhannesson

Doktorsvörn í umhverfisfræði - Sigurður Eyberg Jóhannesson