Doktorsvörn í umhverfisfræði - Áróra Árnadóttir | Háskóli Íslands Skip to main content

Doktorsvörn í umhverfisfræði - Áróra Árnadóttir

Doktorsvörn í umhverfisfræði - Áróra Árnadóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
29. september 2021 13:00 til 15:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Vörninni verður streymt

Doktorsefni: Áróra Árnadóttir

Heiti ritgerðar: Umhverfislega mikilvæg hegðun: Rýmisleg dreifing, drifkraftar og hindranir breytinga (Environmentally significant behaviour: Spatial distribution, drivers, and barriers to change)

Andmælendur: Dr. Giulio Mattioli, aðalrannsakandi hjá Samgönguskipulagsdeild TU Dortmund-háskóla, Þýskalandi
Dr Milena Bϋchs, dósent við Umhverfis- og jarðvísindasvið Leeds-háskóla, Bretlandi

Leiðbeinandi: Dr. Jukka Taneli Heinonen, prófessor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands

Einnig í doktorsnefnd:
Dr. Michał Czepkiewicz, aðjunkt við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands og  lektor við Adam Mickiewicz-háskólann í Poznań, Póllandi
Dr. Sanna Ala-Mantila, lektor við Háskólann í Helsinki, Finnlandi

Doktorsvörn stýrir: Dr. Guðmundur Freyr Úlfarsson, prófessor og deildarforseti Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar Háskóla Íslands

Ágrip

Neysla þéttbýlisbúa stuðlar að sívaxandi hluta losunar gróðurhúsalofttegunda og notkun auðlinda. Þar sem borgarform hefur áhrif á hegðun er leitin að sjálfbærustu gerð borgarforms áhugavert rannsóknarefni. Þétt byggð er almennt talin umhverfisvænust vegna minni losunar frá ferðum og minni orkunotkun íbúða. Rannsóknir hafa þó sýnt að tengingin er mun flóknari. Þó að umhverfisviðhorf hafi áhrif á umhverfishegðun flækir tilvist viðhorfs-hegðunar bilsins tengslin. Í þessari ritgerð eru könnuð landlæg einkenni, drifkraftar og hindranir umhverfisvænnar hegðunar, með sérstakri áherslu á flugsamgöngur. Notaðar eru blandaðar aðferðir til að kafa dýpra í hvata, réttlætingar og áður óþekkta drifkrafta. Í miðbæjum var mikil losun frá alþjóðaflugi og lítil frá ferðum innan borgarinnar, og þó að umhverfisviðhorf hafi haft áhrif á umhverfishegðun sem tengist matvælum, fatnaði og orkunotkun höfðu þau ekki áhrif á losun frá ferðalögum. Til viðbótar við staðsetningu heimilis voru drifkraftar losunar frá ferðum innan borgarinnar meðal annars viðhorf til bíla og löngun til að búa í úthverfi, en erilsamt borgarlíf og skortur á grænum svæðum dreif ferðalög innanlands. Einn helsti drifkraftur að baki ferðalaga erlendis var heimsborgaralegt viðhorf, auk skorts á menningartengdum valkostum til tómstunda í nærumhverfinu. Hindranirnar til að lágmarka flug voru meðal annars skortur á þekkingu á loftslagsáhrifum flugs, að finna ekki til ábyrgðar fyrir að draga úr losun og ríkjandi félagsleg viðmið sem segja til um að ferðalög til útlanda séu nauðsynleg fyrir vellíðan.

Um doktorsefnið

Áróra Árnadóttir er fædd 1989 í Reykjavík. Hún er með BA-gráðu í arkitektúr frá Listaháskóla Íslands og M.Sc.-gráðu í umhverfis- og auðlindafræði frá Háskóla Íslands. Hún hóf störf sem framkvæmdastjóri Grænni byggðar í júlí á þessu ári samhliða rannsóknum og kennslu við Háskóla Íslands

Áróra Árnadóttir

Doktorsvörn í umhverfisfræði - Áróra Árnadóttir