Skip to main content

Doktorsvörn í umhverfis- og auðlindafræði - Uta Reichardt

Doktorsvörn í umhverfis- og auðlindafræði - Uta Reichardt - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
4. maí 2018 13:30 til 15:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur

Nánar 
Fer fram á ensku
Allir velkomnir

Doktorsefni: Uta Reichardt

Heiti ritgerðar: Aska og flugumferð í Evrópu: Greining á viðbúnaði hagsmunaaðila fyrir öskugos á Íslandi.

Andmælendur:
Dr. Ortwin Renn, prófessor og vísindalegur forstöðumaður IASS stofnunarinnar um sjálfbærnirannsóknir í Potsdam, Þýskalandi.

Dr. Karl Benediktsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.

Leiðbeinendur: Dr. Guðmundur Freyr Úlfarsson, prófessor og deildarforseti Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar og dr. Guðrún Pétursdóttir, dósent og framkvæmdastjóri Stofnunar Sæmundar fróða, Háskóla Íslands.

Einnig í doktorsnefnd: Dr. Jeroen Aerts, prófessor, forstöðumaður Umhverfisrannsóknarstofnunar Vrije Háskóla og deildarforseti vatns- og loftslagsáhættudeildar, Vrije Háskóla, Amsterdam, Hollandi.

Doktorsvörn stýrir: Dr. Rajesh Rupakhety, prófessor og varadeildarforseti Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar Háskóla Íslands.

Ágrip af rannsókn: Alþjóðlegar leiðbeiningar um flugumferð leggja til að ekki sé flogið á svæði sem mengað er af gosösku vegna áhættu fyrir flugvélar og þotuhreyfla. Gosið í Eyjafjallajökli árið 2010 sýndi vel áhrif slíkra leiðbeininga: Spá um gosösku á einu þéttsetnasta flugumferðarsvæði heims hafði fordæmalaus áhrif á hagkerfi og samfélög. Þetta varð til þess að evrópski fluggeirinn varð að skipta um stefnu með snöggum hætti til að draga úr óþörfum skaða.

Flugumferð í heiminum fer vaxandi og rannsóknir benda til þess að svo geti einnig átt við um gosvirkni á Íslandi. Þessi rannsókn kannar undirbúning fluggeirans í Evrópu fyrir stærri öskugos og ræðir mögulegar leiðir til að bæta áhættustjórnun.

Hagsmunaaðilarnir, sem þessi rannsókn tekur til, starfa ýmist á heimsgrundvelli, fyrir afmarkaða hópa landa, eða innan eins lands, t.d. við reglusetningu og eftirlit, við flugumferðastjórn eða stýringu viðbragða við atvikum í flugi, þeir veita upplýsingar um veður og gosösku, veita flugleiðsögu og eru í rekstri flugvéla. Starfsemi hagsmunaaðilanna er könnuð, bæði einstakra stofnana og hópa þeirra, og sýnt er hvernig áhættustjórnun hefur verið endurbætt síðan 2010.

Til þess að prófa viðbrögð og vinnuferla við stærri atvik, voru tvær áhrifamiklar sviðsmyndir af öskugosum búnar til og kannaðar með hagsmunaaðilunum. Rannsóknin leitast við að styrkja áhættustjórn og viðnámsþol þjóðfélaga við slíkum atburðum með því að setja fram tillögur um umbætur í viðbragðsáætlunum, viðbragðsæfingum, mönnun starfa, samskiptum, rannsóknarfjárveitingum og regluverki. Niðurstöðurnar benda á nauðsyn þess að fulltrúar fleiri samgöngumáta verði kallaðir til samstarfs, svo undirbúa megi valkosti ef ómögulegt reynist að fljúga um langt skeið vegna viðvarandi gosösku í lofti flugumferðarsvæðis.

 

Um doktorsefnið: Uta Reichardt (f. 1986) nam landfræði og svæðalandfræði latnesku Ameríku við Tækniháskólann í Dresden, Þýskalandi, frá 2005 til 2008. Hún lauk BA gráðu í landfræði frá Háskólanum í Bern, Sviss, árið 2009. Árið 2012 brautskráðist hún með M.Sc. gráðu í áhættugreiningu frá hinum Konunglega háskóla í London (King‘s College), Englandi. Hún hóf nám til Ph.D. gráðu í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands árið 2014. Árin 2015 til 2016 lauk hún fornámi við Myndlistaskólann í Reykjavík. Hún lauk fjögurra mánaða rannsóknardvöl við Kyoto háskóla í Japan árið 2017. Við rannsóknina hlaut Uta stuðning frá FP7 verkefninu ENHANCE, Rannsóknarsjóði ISAVIA við Háskóla Íslands, NORDRESS öndvegissetrinu við Háskóla Íslands og Watanabe sjóðnum við Háskóla Íslands.

Facebook viðburður

Uta Reichardt

Doktorsvörn í umhverfis- og auðlindafræði - Uta Reichardt